Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is TÍU af þeim tuttugu og tveimur sem áttu að sækja fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar á þessu kjörtímabili hafa mætt á 90% funda eða oftar.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

TÍU af þeim tuttugu og tveimur sem áttu að sækja fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar á þessu kjörtímabili hafa mætt á 90% funda eða oftar. Aðeins þrír fulltrúar hafa mætt í öllum tilvikum, einn úr Framsóknarflokki, einn úr Sjálfstæðisflokki og einn úr Samfylkingu.

Aðeins fimm fulltrúar eru með minna en 70% mætingu og sá sem minnst hefur mætt á fundi á kjörtímabilinu er Margrét Sverrisdóttir, með 57% mætingu.

Ekki hafa sömu aðalmenn setið í ráðinu allt kjörtímabilið og tekur prósentureikningur mið af mætingu þeirra þann tíma sem þeir sátu í ráðinu.

Þaulsætnir mæta best

Þrír fulltrúar hafa þó átt sæti í ráðinu allt kjörtímabilið og átt að mæta á alla 83 fundina sem haldnir hafa verið. Það eru þær Jórunn Ósk Frímannsdóttir, sem mætt hefur í 77 skipti, eða 93% funda, Björk Vilhelmsdóttir sem mætt hefur í 76 skipti eða 92% funda og Marsibil Sæmundardóttir, sem mætt hefur í 73 skipti, eða 88% funda.

Samtals voru 663 mætingar í boði og var mætt í 568 skipti. Að meðaltali er mætingin á fundi velferðarráðs því 86%. Þeir fulltrúar sem áttu að mæta á flesta fundi voru því með mætingu yfir meðallagi.

Morgunblaðið hefur sl. daga birt upplýsingar um mætingu aðalmanna í hinum ýmsu ráðum og stjórnum borgarinnar. Misjafnlega vel hefur gengið að fá þessar tölur og hafa t.a.m. ekki ennþá skilað sér upplýsingar um borgarráð, skipulagsráð sem og nothæfar tölur yfir mannréttindaráð og stjórnarfundi hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Samskonar töflur yfir þessi ráð og OR verða þó birtar í blaðinu berist tölurnar.

Í frétt um fundarsetu í íþrótta- og tómstundaráði í Morgunblaðinu á mánudag var sagt að Marta Guðjónsdóttir sæti í ráðinu fyrir hönd frjálslyndra. Hið rétta er að hún hefur setið þar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Beðist er velvirðingar á þessu.