Fjallabræður Tóku lagið við Reykjavíkurtjörn fyrir skömmu.
Fjallabræður Tóku lagið við Reykjavíkurtjörn fyrir skömmu. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óhætt er að segja að fæstir hafi búist við þeim miklu vinsældum sem önnur plata Fjallabræðra hefur hlotið frá útgáfudegi. Um er að ræða risavaxinn karlakór, skipaðan misgóðum söngvurum auk þess sem kórar eiga jú misjafnlega upp á pallborðið hjá mönnum.

Óhætt er að segja að fæstir hafi búist við þeim miklu vinsældum sem önnur plata Fjallabræðra hefur hlotið frá útgáfudegi. Um er að ræða risavaxinn karlakór, skipaðan misgóðum söngvurum auk þess sem kórar eiga jú misjafnlega upp á pallborðið hjá mönnum. Það er þó ljóst strax í fyrsta lagi að Fjallabræður eru enginn venjulegur kór, enda hefur Halldór kórstjóri sagt þá félagana syngja með tveimur líffærum; hjartanu og pungnum. Það er kannski ekki galin yfirlýsing þar sem karlmannlegur kraftur jafnt sem tilfinningar skína í gegn á plötunni, sem toppar forvera sinn léttilega. Fallegur og viðkvæmur fiðluleikur er það eina kvenlega við plötuna og gerir mikið fyrir lögin. Fjallabræður leita til fortíðar eftir innblæstri og tekst í kjölfarið að snerta streng þjóðarstolts í jafnvel hinum harðasta Íslendingi, en epísk lögin eru flest einkar þjóðleg. Rokkið er þó aldrei langt undan og fær gítarinn að hljóma jafnt og þétt út plötuna. Um lagasmíðar sér aðallega Halldór kórstjóri en auk annarra á svo Magnús Þór Sigmundsson einnig lög á plötunni, þar af hið ódauðlega „Ísland er land þitt“. Það er svo afi Halldórs Gunnars, Guðmundur Björn Hagalínsson, sem syngur í síðasta laginu með sinni hörku rödd og endar plötuna á ljúfari nótunum. Platan er langt frá því að vera fullkomin, en á móti kemur að henni er ekki ætlað að vera það. Fjallabræður syngja sig hér inn í hug og hjörtu landsmanna og sanna sig í leiðinni sem áhugaverðasta kór Íslands.

Hildur Maral Hamíðsdóttir