Uppáhaldsgítarinn Rúnar með uppáhaldsgítarinn sinn. Ljósmyndarinn segir í bók sinni að Rúnar hafi minnt sig á Johnny Cash, hokinn af lífsreynslu.
Uppáhaldsgítarinn Rúnar með uppáhaldsgítarinn sinn. Ljósmyndarinn segir í bók sinni að Rúnar hafi minnt sig á Johnny Cash, hokinn af lífsreynslu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

SYNIR Rúnars heitins Júlíussonar og Maríu Baldursdóttur, þeir Baldur og Júlíus, hafa unnið hörðum höndum að því að halda minningu föður síns á lofti í ár, með útgáfu og tónleikahaldi auk þess að opna safn til minningar um hann. 2. maí sl. voru haldnir miklir minningartónleikar um Rúnar sem nú eru komnir út á tvöföldum diski. Auk þess hefur verið gefin út önnur tvöföld plata, Geimsteinn 33 1/3 ára, sem inniheldur öll bestu lög útgáfunnar. Rúnar og María stofnuðu hljómplötuútgáfuna Geimstein árið 1976 og sex árum síðar settu þau á laggirnar hljóðver á heimili sínu í Keflavík. Var það nefnt Upptökuheimilið Geimsteinn.

Blaðamaður ræddi við Baldur í gær og spurði hvort ekki hefði verið erfitt að velja lög á Geimsteins-plötuna í ljósi þess hversu viðamikil útgáfan er orðin hjá þessari elstu hljómplötuútgáfu landsins. „Þetta er náttúrlega orðaleikur eins og Rúnari var mjög tamur,“ segir Baldur um titil plötunnar, vísað þar í snúningshraða LP-platna. „Við hefðum alveg getað farið út í þrefaldan, fjórfaldan disk,“ svaraði Baldur en benti á að afmæli útgáfunnar hefði áður verið fagnað með plötuútgáfu. Þeir bræður völdu lögin á diskana tvo en nutu einnig aðstoðar sonar Baldurs, Björgvins Ívars. Nokkur ný lög má finna á plötunni, m.a. „Ég sá ljósið“ flutt af Sigurði Guðmundssyni og lög með hljómsveitinni Lifun sem Björgvin stýrir, en þau hafa ekki hafa komið út áður á plötu.

Gekk frá öllu

Rúnar gerði það aldrei endasleppt og á dánarárinu 2008 var hann á fullu stími. „Hann hélt yfirlitstónleika í Laugardalshöll, hann gifti sig, það kom út ævisaga hans, hann fékk heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna, var útnefndur Listamaður Reykjanesbæjar og tók saman safndisk,“ rifjar Baldur upp, en safndiskurinn Söngvar um lífið kom út í fyrra. „Við erum farin að halda það,“ svarar Baldur, spurður að því hvort haldi að faðir hans hafi fundið það á sér að hann ætti stutt eftir. „Það var gengið frá öllu, einhvern veginn. Það eina sem klikkaði var að Keflvíkingar urðu ekki Íslandsmeistarar í knattspyrnu,“ bætir hann við.

Tákn og forboðar

Þorfinnur Sigurgeirsson heimsótti Rúnar laugardaginn 30. ágúst í fyrra í þeim tilgangi að taka ljósmyndir af honum fyrir diskasafnið Söngva um lífið . Þorfinnur og Baldur, sonur Rúnars, eru æskuvinir og eftir að Þorfinnur hóf störf sem auglýsingateiknari leitaði Rúnar til hans með hönnun á geisladiskaumslögum og fleiru tengdu tónlistinni. Rúnar lést 5. desember í fyrra og segir Þorfinnur þessa skrásetningu sína af degi í lífi rokkgoðsins hafa öðlast dýpri merkingu fyrir vikið. „Þá fór maður að sjá líka alls konar tákn og forboða í myndunum,“ segir hann. „Þó að hann væri kannski ekkert að flíka því sjálfur þá hafði maður á tilfinningunni að hann vissi meira en aðrir í hvað stefndi.“

– Þó alltaf sami töffarinn...

„Hann hét því þegar hann kom úr hjartaaðgerð að hann myndi gera a.m.k. eina plötu á ári,“ segir Þorfinnur. Þegar Rúnar hafi komið með diskasafnið Söngva um lífið til hans hafi hann sagst vera búinn að gera upp þetta tímabil og svo myndu þeir gera eitthvað skemmtilegt á næsta ári, nýtt efni. „Þá sagði ég við hann: Við skulum vona það, ef Guð lofar. Nokkrum dögum síðar hringir Baldur í mig og segir að hann sé dáinn.“

Ljósmyndirnar sem Þorfinnur tók eru nú komnar út á bók sem ber titilinn Dagur með Rúnari – laugardagur 30. ágúst 2008 .