Jón Viðar Matthíasson
Jón Viðar Matthíasson
Eftir Jón Viðar Matthíasson: "Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins minnir ábyrgðarmenn samkomuhalds og verslana á að ekki komi fleiri saman en húsakynni bera með tilliti til eldvarna."

AÐVENTAN og hátíðin sem fer í hönd eru fólki jafnan tilefni til þess að koma saman, rækta trú sína, njóta menningar af ýmsu tagi, skemmta sér og síðast en ekki síst til þess að kaupa inn vegna jólanna. Víða er því margt um manninn í verslunum og samkomuhúsum ýmis konar þessa dagana. Við þessar aðstæður er sérstök ástæða til að gæta að eldvörnum. Sérstaklega vill Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins minna ábyrgðarmenn samkomuhalds og verslana á að ekki komi fleiri saman en húsakynni bera með tilliti til eldvarna.

Starfsmenn okkar þekkja því miður mörg dæmi þess að ákvæði um takmarkanir á þeim fjölda fólks sem viðkomandi húsnæði ber, hafa verið virt að vettugi þannig að ef eldur hefði komið upp hefði stór hluti viðstaddra átt mjög erfitt með að komast óskaddaður undan. Okkur berast reglulega fréttir frá öðrum löndum af hörmulegum eldsvoðum þar sem fjöldi fólks ferst vegna þess að það kemst ekki undan, nú síðast frá Rússlandi. Okkur hefur verið hlíft við slíkum hörmungum til þessa en slíkir atburðir geta vissulega orðið hér eins og annars staðar.

Til þess að koma í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist er nauðsynlegt að virða reglur um fjöldatakmarkanir og að flóttaleiðir séu greiðfærar. Við biðjum einnig um að reglulega sé hugað að eftirfarandi:

*Að dyr í merktum flóttaleiðum opnist auðveldlega.

*Að brunaviðvörunarkerfi/reykskynjarar séu í lagi.

*Að útgöngu- og neyðarlýsing sé í lagi.

*Að slökkvitæki séu yfirfarin.

Starfsmenn forvarnasviðs heimsækja um þessar mundir fjölda verslana og samkomuhúsa, þar á meðal kirkjur, til þess að fara yfir eldvarnir. Því miður er allt of algengt að eldvörnum sé ábótavant og að þeir sem bera ábyrgð á eldvörnum geri sér ekki fyllilega grein fyrir ábyrgð sinni.

Við biðjum þá sem vilja leita frekari upplýsinga um eldvarnir að hafa samband við forvarnasvið í síma 528 3000 eða senda okkur línu á shs@shs.is. Ítarlegar upplýsingar um eldvarnir heimila er að finna á shs.is. Umfram allt biðjum við fólk að fara varlega og hafa í huga að eldvarnir eru dauðans alvara!

Höfundur er slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.