Eftir Karl Blöndal kbl@mbl.is BRESKA fjármálaeftirlitið, FSA, setti Landsbankanum strangar kröfur um bindiskyldu 3. október, nokkrum dögum áður en hryðjuverkalögin voru nýtt.

Eftir Karl Blöndal

kbl@mbl.is

BRESKA fjármálaeftirlitið, FSA, setti Landsbankanum strangar kröfur um bindiskyldu 3. október, nokkrum dögum áður en hryðjuverkalögin voru nýtt. Bindiskyldan var hins vegar sett í kyrrþey og enn ríkir leynd um hana, ólíkt hryðjuverkalögunum sem sett voru með lúðrablæstri.

Bréfið sem FSA sendi Landsbankanum 3. október, vegna útibús hans í Bretlandi, bar þá sakleysislegu yfirskrift „Fyrsta eftirlitstilkynning“, en í raun var um frystingu að ræða. Erfið lausafjárstaða bankans var sögð ástæða kröfunnar.

20% bindiskylda 6. október

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var Landsbankanum gert að eiga á bankareikningi á Bretlandi forða í reiðufé, sem samsvaraði ekki minna hlutfalli en 10% af innistæðum á óbundnum reikningum hjá bankanum í breskum pundum. Peningaforðann á þessum reikningum þyrfti að hækka upp í ekki minna en 20% af innistæðum strax 6. október. Á þessum tíma var veruleg þurrð á lausafjármörkuðum og nánast útilokað að bankinn gæti útvegað slíka fjárhæð með svo skömmum fyrirvara.

Kröfurnar fólu í sér að fjármálaeftirlitið hafði kyrrsett eignir Landsbankans á Bretlandi 3. október, fimm dögum áður en bresk stjórnvöld notuðu hryðjuverkalögin, sem voru samþykkt eftir árás hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. september 2001 og ætluð voru til að bregðast við steðjaði alvarleg ógn að breska ríkinu, til að frysta eignir Landsbankans. Í tvo daga voru meira að segja eignir Seðlabanka Íslands frystar í krafti hryðjuverkalaganna.

Munurinn var hins vegar sá að tilkynnt var um beitingu hryðjuverkalaganna með lúðrablæstri, en aðgerðir fjármálaeftirlitsins 3. október fóru fram í kyrrþey. Í tilskipun FSA er kafli um birtingu og trúnað. Þar segir að fjármálaeftirlitinu sé skylt að birta þær upplýsingar um þetta mál, sem það telji eiga við, nema slík birting myndi að mati þess vera óréttlát gagnvart fyrirtækinu, sem í hlut eigi eða skerða hagsmuni neytenda. Síðan segir að það sé mat FSA að ákvæðið um hagsmuni neytenda eigi við í þessu tilfelli þar sem birting myndi líkast til grafa enn frekar undan trausti til Landsbankans og gera enn erfiðara fyrir að vernda hagsmuni innistæðueigenda. Því hafi breska fjármálaeftirlitið ákveðið að birta engar upplýsingar um málið, sem þessi tilkynning snúist um.

Upplýsa ekki um stöðu mála

Frystingu eigna Landsbankans samkvæmt ákvæðum hryðjuverkalaganna var aflétt 16. júní og bankinn var þá fjarlægður af lista yfir samtök, stofnanir eða ríki sem eru beitt efnahagslegum refsiaðgerðum af hálfu breskra stjórnvalda.

Hjá breska fjármálaeftirlitinu fengust í gær engar upplýsingar um stöðu mála vegna tilkynningarinnar til Landsbankans frá 3. október í fyrra. Leyndinni hefur hins vegar ekki verið aflétt af tilkynningunni og er hana ekki að finna á heimasíðu FSA.

  • Bankinn fékk fyrirmæli 3. október
  • Sagt að opna reikning í Englandsbanka
  • Leynt til að vernda viðskiptavini