Egilshöll Viðbyggingin sem hýsa á kvikmyndahúsið á að vera 7.400 fermetrar á þremur hæðum. Fjórir sýningarsalir verða í bíóinu.
Egilshöll Viðbyggingin sem hýsa á kvikmyndahúsið á að vera 7.400 fermetrar á þremur hæðum. Fjórir sýningarsalir verða í bíóinu. — Tölvumynd/ONNO
Eftir Ágúst Inga Jónsson aij@mbl.is TÍU verktakafyrirtæki skiluðu inn forvalsgögnum á mánudag vegna byggingar kvikmyndahúss við Egilshöllina. Af þeim verða 3-5 valdir til að taka þátt í útboði.

Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

TÍU verktakafyrirtæki skiluðu inn forvalsgögnum á mánudag vegna byggingar kvikmyndahúss við Egilshöllina. Af þeim verða 3-5 valdir til að taka þátt í útboði. Áætlað er að framkvæmdirnar kosti 7-800 milljónir króna og að þeim ljúki í lok næsta árs.

Aðspurður segir Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Regins, dótturfélags Nýja Landsbankans sem sér um að reka og leigja atvinnuhúsnæði, sem bankinn hefur yfirtekið, að hann heyri ekki annað en rekstur kvikmyndahúsa gangi vel um þessar mundir. „Í svona árferði styrkist innlend afþreying ef eitthvað er og ágætlega virðist sótt í kvikmyndahúisn,“ segir Helgi.

Viðræður í gangi við SAM-bíó

Rekstraraðili að bíóinu hefur ekki verið valinn, en viðræður hafa staðið yfir við SAM-bíóin um rekstur bíósins. „SAM-bíó voru með samning við Borgarhöllina sem átti verkefnið og sá samningur liggur fyrir. Við erum hins vegar nýr aðili og því er sá samningur ekki í gildi gagnvart okkar. Við höfum líka hitt fulltrúa Senu, en ekki verið í viðræðum við aðra en SAM-bíóin,“ segir Helgi. Fyrirhugað er að selja Egilshöll þegar framkvæmdum við bíóið lýkur og markaðsaðstæður verða hagstæðar.