„Ég ætla að hitta nánustu fjölskyldu, systkini mín og systkini konu minnar koma í heimsókn í léttan kvöldverð,“ segir afmælisbarnið Kjartan K. Steinbach, sem fyllir sjötta tuginn í dag.

„Ég ætla að hitta nánustu fjölskyldu, systkini mín og systkini konu minnar koma í heimsókn í léttan kvöldverð,“ segir afmælisbarnið Kjartan K. Steinbach, sem fyllir sjötta tuginn í dag. Hann kveðst ekki vanur að gera stórmál úr afmælisdeginum, þótt nokkurs konar opið hús sé oft fyrir þá sem vilji líta inn. Stórveislan var afgreidd á fertugsafmælinu.

Kjartan er rafmagnstæknifræðingur að mennt og rekur verkfræðistofuna Afl og orku ásamt nokkrum öðrum. Stofan heldur áfram í kreppunni en þó hefur þurft að grípa til sársaukafullra aðgerða svo sem að fækka starfsfólki. „En það eru ennþá nokkrir kallar að vinna þarna hjá okkur,“ segir hann í léttum dúr. Hann og eiginkona hans, Marta Guðmundsdóttir, eiga þrjú börn. Yngsti sonurinn er sextán ára en hin börnin flutt að heiman. Meira að segja hafa tvö barnabörn bæst í hópinn.

Kjartan er ekki síst þekktur í íþróttaheiminum. Hann er reyndur handknattleiksdómari, situr í stjórn Handknattleikssambands Íslands og var meðal annars formaður dómaranefndar Alþjóðahandknattleikssambandsins á árunum 1996 til 2004. onundur@mbl.is