Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verk eftir Handel, Bach, Mozart, Corelli, Reger, Sigvalda Kaldalóns og fleiri. Einsöngvarar: Ingibjörg Guðjónsdóttir og Gissur Páll Gissurarson. Daníel Bjarnason stjórnaði.

Jólakonsertinn eftir Corelli er skiljanlega vinsæll um þetta leyti, eins og raunar barokktónlist yfirleitt. Konsertinn var fyrsta verkið á jólatónleikum Sinfóníunnar, en að þessu sinni stjórnaði Daníel Bjarnason hljómsveitinni. Útkoman var á margan hátt góð, hljómsveitin var ágætlega samhæfð og fiðlueinleikur Sigrúnar Eðvaldsdóttur konsertmeistara var glæsilegur. Sumt var þó furðulegt, nokkrir kaflarnir voru svo hraðir að þeir nutu sín ekki. Það á sérstaklega við þann næstsíðasta, sem virkaði eins og hljómsveitin hefði drukkið alltof mikið kaffi, og fengið sér örvandi efni í ofanálag.

Annað sem hljómsveitin spilaði án einsöngvara var miklu betra. Wachet auf, ruft uns die Stimme eftir Bach í útsetningu Stokowskis, var t.d. glæsilegt, með áhrifamikilli stígandi, þótt málmblásararnir hefðu verið nokkuð yfirgnæfandi á köflum.

Tveir einsöngvarar komu fram með hljómsveitinni, þau Ingibjörg Guðjónsdóttir og Gissur Páll Gissurarson. Ingibjörg stóð sig prýðilega, hún hefur fallega, hljómmikla rödd sem barst ágætlega, a.m.k. þar sem ég sat. Ég ætla ekki að telja upp allt sem hún söng, en það voru verk sem pössuðu vel inn í jólastemninguna. Ingibjörg túlkaði tónlistina af sannfæringarkrafti, öryggi og léttleika; maður naut þess að hlýða á hana syngja. Sömu sögu er ekki að segja um Gissur Pál, sem virtist eiga í miklum vandræðum fyrir hlé. Röddin var ekki í fókus, mismunandi blæbrigði voru klaufalega útfærð og útkoman almennt fremur pínleg. Það var ekki fyrr en eftir hlé að hann fór að syngja eins og maður, sem var auðvitað heldur seint.

Eins og áður sagði stjórnaði Daníel Bjarnason hljómsveitinni. Hann hefur þægilega nærveru, og þótt hann skorti enn reynslu er auðfundið að hann er einstaklega músíkalskur. Það er hugsun á bak við allt sem hann gerir. Ég vona að ég eigi eftir að sjá hann þarna oft í framtíðinni.

JÓNAS SEN