Undirbúningur Nóg var að gera hjá sjálfboðaliðum þegar fyrsta sameiginlega úthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins fyrir jólin fór fram í gær.
Undirbúningur Nóg var að gera hjá sjálfboðaliðum þegar fyrsta sameiginlega úthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins fyrir jólin fór fram í gær. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is ALLS hafa 3.089 óskað eftir aðstoð á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins fyrir jólin.

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

ALLS hafa 3.089 óskað eftir aðstoð á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar, Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Reykjavíkurdeildar Rauða krossins fyrir jólin. Samkvæmt upplýsingum frá fyrrgreindum aðilum má reikna með að allt að fimm hundruð umsóknir eigi enn eftir að berast. Til samanburðar má nefna að alls voru afgreiddar 2.546 umsóknir um aðstoð fyrir jólin í fyrra. Nýskráningum fjölgar mikið milli ára, þær voru 260 fyrir jólin í fyrra en eru í ár 806. Fyrsta sameiginlega úthlutun fór fram í gær og verður framhaldið daglega alla virka daga til þriðjudagsins 22. desember.

Tæplega 80% þeirra sem þurfa á aðstoð að halda fyrir jólin búa á höfuðborgarsvæðinu, næstflestir eða 12% á Suðurlandi. Sé rýnt í aldursdreifingu þeirra sem þurfa að leita sér aðstoðar má sjá að flestir eru á aldrinum 20-59 ára. Á fjórða tug hjálparbeiðna hefur borist frá einstaklingum sem eru yngri en 19 ára.

Allir geta lagt lið

Hjá Ásgerði Jónu Flosadóttur, framkvæmdastjóra Fjölskylduhjálpar Íslands, fengust þær upplýsingar að um 460 fjölskyldur hefðu óskað eftir mataraðstoð sl. miðvikudag og bjóst hún við að um 500 fjölskyldur myndu þiggja úthlutun á mat í dag. Síðasta úthlutun Fjölskylduhjálparinnar fyrir jól fer fram í Eskihlið 2-4 mánudaginn 21. desember milli kl. 15 og 18. Tekur hún fram að fólk þurfi ekki að sækja sérstaklega um jólaaðstoðina heldur nægi að mæta.

Hjálparsamtök hafa auglýst eftir styrkjum til þess að geta sinnt hlutverki sínu sem skyldi fyrir jólin. Aðspurð segir Ásgerður viðbrögð hafa verið einstaklega góð bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún bendir á að nú geti allir á auðveldan hátt lagt Fjölskylduhjálpinni lið með því að senda ein smáskilaboð með textanum „FIH“ í símanúmerið 1900 og skrá sig á styrktarlista. Þeir sem þar eru skráðir fá eitt sms á mánuði sem kostar viðtakandann 100 kr. er bætast við símreikning viðkomandi mánaðarlega. Vilji fólk afskrá sig af af listanum sendir það skilaboð með textanum „FHI STOP“ í 1900. „Þetta er lítill kostnaður fyrir hvern og einn, en safnast þegar saman kemur.“