Mannanafnanefnd er líklega sú opinbera stofnun sem hvað minnst þakklæti fær fyrir störf sín. Í hvert sinn sem greint er frá úrskurðum hennar fær hún yfir sig sömu gusuna af upphrópunum, um það hversu óþarft og skaðlegt stjórnvald hún sé.

Mannanafnanefnd er líklega sú opinbera stofnun sem hvað minnst þakklæti fær fyrir störf sín. Í hvert sinn sem greint er frá úrskurðum hennar fær hún yfir sig sömu gusuna af upphrópunum, um það hversu óþarft og skaðlegt stjórnvald hún sé. Fleira fólk býr við sömu kjör. Ætli bankamenn séu ekki í þessum sporum núna, almennt álitnir siðlausir. Oft er sagt að iðnaðarmenn séu svikulir. Blaðamenn fá líka stundum yfir sig gusurnar, sagðir heimskir og latir, fylgja glæpsamlegum hagsmunaklíkum að máli eða vera óskrifandi. Þetta gengur líklega yfir allar stéttir og þeirra á milli. „Bloggheimar loga“ er það stundum kallað. Hver og einn skvettir úr sínum hlandkoppi yfir næsta mann og sendingin er látin ganga.

Baldur Sigurðsson skrifaði ágæta grein í síðasta Sunnudagsmogga, undir heitinu „Smiður eða bakari“. Þar rekur hann hvernig mannanafnanefnd er sífellt höfð fyrir rangri sök í fjölmiðlum að hans mati og nefndinni gerðar upp skoðanir á viðfangsefninu. Sú ímynd gefin að nefndarmenn séu forpokaðir afturhaldsseggir sem taki geðþóttaákvarðanir. Undirritaður fékk eitt sinn sendingu frá Baldri, eftir að hafa skrifað í Morgunblaðið að nöfnin sem úrskurðað var um hefðu ekki „þótt“ samræmast reglum um mannanöfn. Baldur hafði þá fengið stóra gusu frá bloggsamfélaginu vegna fréttarinnar. Þá varð niðurstaðan okkar á milli sú að nefndinni „þætti“ ekki neitt, lögin væru skýr. Þetta væri allt klippt og skorið.

Síðan gerðist sá fáheyrði atburður að nefndin klofnaði í afstöðu sinni til nafns. Það var nafnið Skallagrímur. Baldur skilaði sératkvæði í því máli og taldi unnt að fallast á það, ólíkt meirihluta nefndarinnar. „Ég tel samt sem áður unnt að fallast á nafnið vegna sérstöðu þess...“ stóð í sérálitinu. „Nöfnin Kveldúlfur og Skallagrímur hafa því, að mati undirritaðs, fest sig í sessi sem góð og gild nöfn...“ stóð þar einnig.

Nefndarmenn í mannanafnanefnd geta semsagt „talið“ að hlutirnir séu með ákveðnum hætti. Einnig geta þeir „metið“ hlutina. Hins vegar er að sögn Baldurs rangt að halda því fram að þeim „þyki“ eitthvað.

Staðreyndin er samt sú að þetta mat fer fram í hverju einasta tilviki. Niðurstaðan er bara misjafnlega augljós í upphafi. Ómögulegt er að setja lög sem eru svo skýr að þau taki fyrirfram á öllum mögulegum uppákomum, það er alkunna. Ef ekkert mat væri innifalið í framkvæmd laganna væri nóg að láta einfalt tölvuforrit fara yfir umsóknir, í stað sérfróðrar nefndar.

Rétt er að nefndin er á endanum bundin af lögum í flestum tilvikum og vinnur bæði gott og vandað starf. En lög eru grundvölluð á skoðunum og þótta þingmanna rétt eins og málefnalegum rökum, eðlisreglum og fleiru. Nefndin er einfaldlega framlenging á löggjafarvaldinu, skipuð samkvæmt lögum þaðan og framkvæmir vilja þess. Þess vegna hefur sögnin „þykja“ eflaust þótt sjálfsögð í þessu samhengi, en ekki verið ætlað að grafa undan starfsheiðri nefndarmanna í einhverri meinfýsi. Og ef það er einhver huggun í því, þá hata bloggarar ekki bara mannanafnanefnd. Þeir hata alla jafnt. onundur@mbl.is

Önundur Páll Ragnarsson