Ríkisstjórnin situr nú undir harðri gagnrýni Alþýðusambands Íslands vegna skorts á samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.

Ríkisstjórnin situr nú undir harðri gagnrýni Alþýðusambands Íslands vegna skorts á samráði og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Þessi gagnrýni kemur meðal annars fram í umsögn ASÍ um eitt af frumvörpum ríkisstjórnarinnar þar sem segir að samráð hafi tíðkast um langt árabil.

Önnur sams konar gagnrýni kemur fram í skrifum forseta Alþýðusambandsins, Gylfa Arnbjörnssonar. Hann segir það „alveg með ólíkindum að oddvitar ríkisstjórnarinnar skuli ekki hafa kynnt landsmönnum þau áform sín að afnema þau ákvæði tekjuskattslaganna að persónuafsláttur fylgi verðlagi – að ríkisstjórnin ætli sér að afnema verðtryggingu persónuafsláttar. Að sama skapi kemur það fólki í opna skjöldu að ríkisstjórnin ætli sér einhliða að fella niður sérstaka umsamda 3.000 króna hækkun persónuafsláttar í ársbyrjun 2011, án nokkurs samráðs eða samtals við sinn viðsemjanda. Að mínu viti er hér um grófa rangfærslu að ræða við kynningu á stefnu ríkisstjórnarinnar – það hefði aldeilis verið talið frétt til næsta bæjar ef oddvitar ríkisstjórnarinnar hefðu komið hreint fram og upplýst þjóðina að það væri stefna hennar í skattamálum að afnema verðtryggingu persónuafsláttar og standa ekki við gerða samninga!“

Morgunblaðið hefur bent á að pukur og leyndarhyggja hafi verið einkennandi fyrir störf þessarar ríkisstjórnar og að kynning á fyrirhuguðum skattahækkunum hafi verið villandi. Gagnrýni Alþýðusambandsins kemur því ekki á óvart. Sú harka sem fram kemur í gagnrýninni er hins vegar nokkuð sem ríkisstjórnin hlýtur að hafa áhyggjur af.