Guðrún Elísabet Þórðardóttir fæddist í Borgarnesi 7. ágúst 1915. Hún lést á Droplaugarstöðum 3. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Þórdís Bjarnþórsdóttir húsfreyja, f. 9. mars 1886, d. 16. mars 1941, og Þórður Þórðarson verkamaður, f. 14. apríl 1881, d. 5. ágúst 1966, bæði Mýramenn að ætt. Guðrún átti tvo bræður, Kjartan, f. 1911, d. 1978 og Bjarnþór, f. 1912, d. 1987.

Guðrún giftist árið 1939 Árna Magnússyni frá Mosfelli í Mosfellssveit, verkstjóra hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, f. 9. janúar 1912, d. 6. des. 1989. Foreldrar hans voru Valgerður Gísladóttir, f. 27. október 1873, d. 19. júní 1940, og séra Magnús Þorsteinsson, f. 3. janúar 1872, d. 4.júlí 1922. Guðrún og Árni eignuðust tvö börn. 1) Þórdís, f. 27. ágúst 1942, gift Ingvari Birgi Friðleifssyni, f. 1946. Dætur þeirra eru a) Guðrún, f. 1972, m. Guðjón Hlynur Guðmundsson, f. 1974, synir þeirra eru Ingvar, f. 2002, og Hlynur, f. 2005. b) Hildur, f. 1975, m. Ólafur Arnar Jónsson, f. 1974, dætur þeirra eru Þórdís, f. 2002, og Sigrún, f. 2007. c) Árný, f. 1978, m. Jóhann Vilhjálmsson, f. 1963, dætur þeirra eru Guðrún Dís, f. 2004, og Álfdís, f. 2006, börn Jóhanns eru Grímur, f. 1988, og Snjólaug, f. 2001. 2) Þórður, f. 19. ágúst 1952, sambýliskona Vilborg Oddsdóttir, f. 1960. Dóttir Þórðar og Steinunnar Þorvaldsdóttur, f. 1953, er Elísabet, f. 1979, sambýlismaður Matthías Bjarnason, f. 1972

Guðrún ólst upp í Borgarnesi. Að loknum barnaskóla var hún einn vetur á Alþýðuskólanum á Hvítárbakka, en fór síðan til Reykjavíkur þar sem hún vann fyrst í Hljóðfærahúsinu og síðan í Vinnufatagerðinni. Hún sótti jafnframt tíma í píanóleik. Um árabil var hún afleysingamanneskja í Blómabúðinni Hrauni í Bankastræti, en árið 1968 fór hún að starfa fyrir Erfðafræðinefnd. Árið 1975 var hún ráðin til Þjóðskjalasafnsins þar sem hún starfaði í lestrarsal við afgreiðslu og heimildaleit. Þar vann hún til sjötugs og eftir það af og til í afleysingum.

Guðrún og Árni bjuggu í Reykjavík til ársins 1973 er þau fluttu að Víðihóli í Mosfellsdal þar sem þau höfðu byggt sér sumarbústað áratugum fyrr. Eftir lát Árna árið 1989 bjó Guðrún þar ein um hríð uns hún flutti til Reykjavíkur. Síðustu fimm árin átti hún heimili á Droplaugarstöðum.

Útför Guðrúnar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, miðvikudaginn 16. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag kveðjum við Gunnu ömmu sem alla tíð lék stórt hlutverk í lífi okkar systra. Amma var um margt merkileg kona. Frá blautu barnsbeini var hún afar bókhneigð og fróðleiksfús og þrátt fyrir að skólaganga hennar næði vart 5 árum má segja að sjálfsnám hennar hafi staðið nánast til æviloka.

Aldrei höfum við kynnst jafn víðlesinni og fróðri manneskju og ömmu. Hún var kona staðreynda, fór sjaldan með fleipur og var lítið gefin fyrir slúður eða baktal. Hún var hógvær að eðlisfari og mikill hugsuður. Hún var okkar uppflettirit, hvort sem það var íslenskt mál, saga, bókmenntir, biblían, tónlist eða ættfræði. Hjá ömmu mátti t.d. fá nákvæmar lýsingar á sálarlífi helstu persóna Íslendingasagnanna á einni kvöldstund og spara sér þannig tímafrekan lestur.

Amma hafði mikinn áhuga á íslensku máli og hélt okkur stelpunum sannarlega við efnið. Reglulega var farið í gegnum ýmis atriði málfræðinnar og slík var áherslan að í dag dytti okkur systrum tæplega í hug að ruglast á notkun orðanna kaupa og versla eða eitthvað og eitthvert svo dæmi séu tekin.

Tónlist átti stóran þátt í lífi ömmu og sagði hún okkur oft frá þeirri stund er hún fékk fyrstu nótnabókina sína í æsku. Sérstaklega hélt hún upp á ljóðatónlist rómantísku meistaranna sem og íslensk sönglög og fengum við stelpurnar ósjaldan að njóta ljúfra tóna píanósins eða orgelsins á Víðihóli.

Amma hafði mikið dálæti á íslenskum jurtum, plantaði þeim í beðin utan við húsið sitt og sinnti af mikilli alúð. Eftir að afi lést tók hún við spöðunum í gróðurhúsinu á Víðihóli og hafði unun af því að rækta tómata, gúrkur og fleira góðgæti. Á vorin mátti sjá litla sprota í ískössum inni í eldhúsi sem voru fyrirboðar grænmetisveislu haustsins.

En fyrst og fremst var amma – og sveitin þeirra afa – yndislegt athvarf fyrir okkur ömmustelpurnar. Við gengum jafnan fyrir og hún lagði sig fram um að næra okkur á hvern þann hátt sem hún mögulega gat: hvort sem það var með því að upplýsa okkur um málnotkun og staðreyndir úr sögu landsins eða með því að bera í okkur kræsingar þar sem við sátum í hægindastólnum fyrir framan sjónvarpið. Eitthvert skiptið var ein okkar systra spurð til hvers ömmur væru. Það stóð ekki á svarinu: „nú, til að stjana við barnabörnin!“ Önnur systranna heyrðist sömuleiðis segja við vinkonu sína í helgardvöl í sveitinni: „finnst þér ekki góð þjónustan hér?“ Já – það væsti sannarlega ekki um mann hjá Gunnu ömmu.

Amma hélt reisn sinni fram undir nírætt og eftir að hún flutti til Reykjavíkur mátti sjá hana arka, vel til hafða, með fjallgöngustaf úr Eskihlíðinni inn í Kringlu. Hún hafði mikið dálæti á barnabarnabörnum sínum og hafði á orði að vissulega hefði verið indælt að verða mamma og dásamlegt að verða amma en þegar hún varð langamma vissi hún hreinlega ekki hvar þetta myndi enda!

Á kveðjustund erum við fullar þakklætis fyrir allt það sem elsku amma gaf okkur. Ekki eingöngu fyrir þær stundir sem við áttum með henni, heldur einnig fyrir hið dýrmæta veganesti sem hún veitti okkur.

Árný, Hildur og Guðrún.

Guðrún Elísabet Þórðardóttir, ágæt frænka mín, er fallin frá 94 ára gömul. Margar góðar minningar á ég frá samverustundum okkar um langt árabil. Við Guðrún vorum systrabörn. Móðir hennar var Þórdís Bjarnþórsdóttir, sem lengst af bjó í Borgarnesi. Þar voru æskustöðvar Gunnu Betu eins og hún var oftast kölluð í kunningjahópi. Á hverju sumri dvaldist fjölskylda mín við Norðurá í Mýrasýslu og áttum við þá leið um Borgarnes. Var þá gott að koma á heimili Þórdísar móðursystur minnar og kynnast heimahögum Gunnu Betu. Seinna á lífsleiðinni fluttist Guðrún til Reykjavíkur og bjó hún fyrst á heimili okkar við Laufásveg. Starfaði Guðrún þá við Vinnufatagerðina, sem var stofnuð af föður mínum og föðurbróður, þeim Sturlubræðrum, og stjórnað af Sveini móðurbróður okkar Guðrúnar.

Guðrún var þá eins og einn meðlimur fjölskyldunnar og brölluðum við margt saman á heimilinu. Hún var músíkölsk og ljóðelsk mjög. Gerðum við okkur það að leik að lesa kvæði og nema. Kepptumst við einn vetur við að læra allan Jörund hundadagakonung eftir Þorstein Erlingsson, en það var mikið verk. Við reyndum sjálf að koma saman vísum og stofnuðum kvæðafélag, sem hét h.f. Hortittir. Var Gunna ritari félagsins og skráði bragi okkar í gerðarbók.

Hér í borg kynntist Guðrún öðlingnum Árna Magnússyni frá Mosfelli, sem varð eiginmaður hennar. Þau byggðu sér hús í Heiðargerði. Var bú þeirra hennar fræðasetur og þaðan bárust ljúfir hörpuhljómar. Síðar á ævinni, á árunum frá 1968 til 1983, var Guðrún ráðin til starfa hjá Erfðafræðinefnd Háskólans. Vorum við Níels Dungal frændur hennar þar í forsvari. Þá komu ættfræðihæfileikar Guðrúnar í ljós. Vann hún þá löngum á Þjóðskjalasafni við að færa ættarskrá Íslendinga úr kirkjubókum og öðrum rituðum heimildum, er var komið yfir á tölvutækt form, þar sem einstaklingar voru tengdir saman í ættartré, en þau gögn voru síðan notuð við ýmsar mannerfðafræði-rannsóknir. Þarna vann hún merkilegt grundvallarstarf.

Vináttu Guðrúnar og samstarf á undanförnum árum er ég þakklátur fyrir.

Við Sigrún sendum börnum Guðrúnar og nánustu aðstandendum samúðarkveðjur.

Sturla Friðriksson

erfðafræðingur.

Guðrún Þórðardóttir frænka mín er nú látin 94 ára gömul. Móðir hennar, Þórdís og amma mín Marta voru systur. Ólust þær upp í stórum systkinahópi á Grenjum á Mýrum. Með þeim systrum var afar kært og minnist ég þess frá bernskuárum mínum hve hlýtt ömmu minni var til Þórdísar og hve sárt hún saknaði systur sinnar sem þá var látin. Þær Þórdís og Marta giftust báðar og eignuðust börn en hvor þeirra átti aðeins eina dóttur, þær Guðrúnu og Sigþrúði, móður mína, sem lést fyrir rúmu ári síðan. Þær Guðrún og Sigþrúður giftust báðar og áttu börn, en hvor um sig, líkt og mæður þeirra, eignaðist einungis eina dóttur. Það var eins og systraþelið erfðist í annan og þriðja lið. Með Guðrúnu og Sigþrúði voru afar sterk vináttubönd sem báru í sér gagnkvæma umhyggju og umburðarlyndi og studdu þær hvor aðra meðan báðar lifðu og höfðu heilsu til. Það kom því eins og af sjálfu sér á árum áður þegar þurfti að fóstra mig tímabundið að mér var komið fyrir á heimili Guðrúnar og Árna Magnússonar manns hennar, þar sem fyrir var dóttir þeirra, Dísa frænka. Með okkur Dísu tókst strax náin vinátta, líkt og með formæðrum okkar, sem enst hefur alla tíð. Heimili Guðrúnar og Árna varð fyrsta heimilið utan eigin heimilis sem ég kynntist. Börn skynja yfirleitt vel umhverfi sitt þótt það sé ekki fyrr en síðar sem þau geta sett hlutina í samhengi. Þegar ég lít til baka sé ég Guðrúnu og Árna fyrir mér sem myndarleg hjón. Grunngildi heimilis þeirra eins og ég upplifði það var félagslegt réttlæti, jöfnuður og heiðarleiki. Árni var afar handlaginn og var sá maður í fjölskyldunni sem oft var leitað til ef eitthvað útaf bar. Guðrún sem var komin í beinan kvenlegg út af skáldkonunni Guðnýju frá Klömbrum, var fagurkeri, afar ljóðelsk, músíkölsk og minnug. Langskólaganga stóð konum þessa tíma að jafnaði ekki til boða. Guðrún gekk í þeirra tíma grunnskóla og síðan á lýðháskóla í einn vetur. Löngun hennar til frekari mennta duldist þó engum sem hana þekktu. Hún var sjálfmenntuð, vel lesin og hafði sérstakan áhuga á íslensku máli og ættfræði.

Framan af ævi var Guðrún heimavinnandi húsmóðir en þegar börnin tvö, þau Þórdís og Þórður, voru farin að heiman og hún sjálf komin á miðjan aldur bauðst henni starf, fyrst hjá Erfðafræðinefnd og síðan Þjóðskjalasafni Íslands þar sem hæfileikar hennar fengu notið sín.

Barnabörnin og langömmubörnin voru Guðrúnu afar kær og var hún ólöt við að fara með ljóð og segja afkomendunum sögur frá liðinni tíð.

Við kveðjum nú Guðrúnu Þórðardóttur sem er einn síðasti fulltrúi þeirrar kynslóðar sem fæddist áður en Ísland varð fullvalda ríki. Við þökkum henni og kynslóð hennar fyrir að hafa borið okkur menningararf sem byggði m.a. á kjarnyrtu máli, skáldskap, heiðarleika og bjartsýni, arf sem við viljum ekki glata.

Marta Bergman.

Það er mér einstaklega ljúft að minnast frænku minnar Guðrúnar Elísabetar með fáeinum orðum nú þegar hún heldur upp í sína síðustu ferð.

Gunna Beta, eins og hún var ætíð kölluð innan fjölskyldunnar, var mér og okkur systkinunum eins og móðursystir. Ætíð var hún reiðubúin til að hjálpa og aðstoða þegar á þurfti að halda.

Það voru ófá skiptin sem við bræðurnir gistum uppi í sveit hjá Gunnu og Árna. Það var einn ævintýraheimur fyrir litla stráka. Þar var hægt að hlaupa um víðan völl og ekki var verra að busla í Varmá eða fá sér sundsprett í sundlauginni hans Árna. Þá var gróðurhúsið ekki síður spennandi og svo kartöflugeymslan sem var grafin inn í hól. Við vorum nú hálfsmeykir við þessa hurð á hólnum og vissum eiginlega ekki hversu langt geymslan náði inn í jörðina.

Alltaf var okkur tekið með opnu faðmlagi og elskulegheitum af þeim heiðurshjónum. En það var ekki aðeins útiveran sem heillaði. Guðrún var afskaplega vel greind og mikil fróðleiksmanneskja og sögur hennar af sameiginlegu ættfólki og hennar einstaka innsýn inn í íslensk fræði opnuðu fyrir okkur nýja og óþekkta veröld. Þar fór saman fróðleikur og skemmtun.

Ég er Guðrúnu frænku minni ætíð þakklátur fyrir þessar yndislegu æskuminningar.

Börnum hennar Þórdísi og Þórði og fjölskyldum þeirra sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Andri Arinbjarnarson.

Guðrún er eftirminnileg kona. Á henni var hefðarbragur enda var hún glæsileg, skörp, vel máli farin og fróð um menn og málefni. Hún hafði ákveðnar skoðanir, sérstaklega á íslensku málfari og var afar ósátt við ýmsar ambögur og rökleysur sem náðu að festast í sessi í nútímatungutaki. Rökstuðningurinn var slíkur að maður var umsvifalaust á hennar bandi og enn þann dag í dag sé ég svipinn á henni þegar ég heyri málleysurnar sem hún lagðist gegn.

Hún hafði næmt tóneyra, spilaði á píanó og kunni ógrynnin öll af ljóðum. Ömmustelpurnar voru ekki háar í loftinu þegar þær lærðu fyrstu vísuna um bóndann sem situr á bæjarstétt og gátu farið með Gilsbakkaþulu. Það var mjög vinsælt að vera hjá ömmu og afa í sveitinni enda dekrað við þær. Eftirlætið fólst þó ekki í tilslökun og óhófi heldur ómetanlegri alúð, fræðslu og umhyggju. Árni afi brosmildur og hlýr, amma Guðrún að grúska í einhverju, fara með vísur og sjá til þess að stelpurnar færu sér ekki að voða. Ilmurinn af bestu pönnukökum í heimi fylgir þessari minningu.

Svo líður tíminn og lífið tekur sínar óvæntu stefnur. Alzheimers sjúkdómurinn er stundum kallaður the long goodbye eða kveðjustundin langa. Það er langt síðan við spjölluðum saman en fyrst núna kveð ég þessa einstöku konu með kærri þökk fyrir allt og allt.

Steinunn K. Þorvaldsdóttir.