Gunnar Baldvinsson
Gunnar Baldvinsson
Eftir Gunnar Baldvinsson: "Mikilvægt er að menn freistist ekki til að veikja undirstöður lífeyriskerfins með því að skattleggja séreignarsparnaðinn strax."

Enn er því haldið fram að skattlagning séreignarsparnaðar sé lausn á fjárhagsvanda ríkisins og með henni megi komast hjá óvinsælum skattahækkunum. Formælendur þessarar aðgerðar segja að að ríkið og sveitarfélög geti þar með tekið til sín 115 milljarða króna strax.

Skattlagning séreignarsparnaðar leysir ekki vanda, heldur flytur hann til. Með þessu móti tekur ríkið fyrirfram eignir, sem búið er að leggja fyrir til að greiða skatta af lífeyrisgreiðslum í framtíðinni. Vandinn er fluttur yfir á framtíðarkynslóðir.

Meðalbinditími séreignarsparnaðar er nálægt því að vera 20 ár. Ef við horfum 20 ár fram í tímann er því spáð að hlutfall 65 ára og eldri verði nálægt 20% af þjóðinni eða tæplega tvöfalt hærra en í dag. Eldri borgarar nota velferðarkerfið mest og því mun það þurfa að vaxa með fjölgun íbúa eldri en 65 ára. Það væri óskynsamlegt að taka skatttekjur fyrirfram í stað þess að nota þær þegar þörfin er mest. Ef við framreiknum 115 milljarða króna með hóflegum vöxtum til 20 ára erum við að tala um 300 milljarða króna sem vantar í tekjur ríkissjóðs árið 2029. Dettur einhverjum í hug að ríkið muni þá í staðinn hafa lagt fyrir þessa fjárhæð?

Afleiðingar „töfralausnarinnar“ geta orðið enn meiri og alvarlegri. Líkur eru á að margir muni óttast að sparnaðurinn verði skattlagður aftur við úttekt og þess vegna hætta með lífeyrissparnað. Það væri ekki gott að minnka sparnað, sem er uppspretta fjármagns til fjárfestinga. Þörfin fyrir viðbótarlífeyrissparnað hefur heldur aldrei verið meiri en núna þegar eignir lífeyrissjóða hafa rýrnað vegna kreppunnar og geta ríkisins til að greiða lífeyri úr almannatryggingakerfinu hefur minnkað.

Kostur íslenska lífeyrisskerfisins er sá að hver kynslóð greiðir fyrir sig og safnar í sjóði til að greiða lífeyri og skatta. Svona kerfi vilja allar þjóðir hafa en það er ekki auðvelt af því langan tíma tekur að byggja slíkt kerfi upp (elsti séreignarsjóðurinn á Íslandi var t.d. stofnaður árið 1965). Þess vegna öfunda aðrar þjóðir okkur af lífeyriskerfi Íslendinga. Skamman tíma getur tekið að skemma það sem byggt hefur verið upp á löngum tíma. Því er mikilvægt að menn freistist ekki til að veikja undirstöður lífeyriskerfins með því að skattleggja séreignarsparnaðinn strax.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins.