Ingibjörg Gísladóttir fæddist 10. september 1934. Hún andaðist 7. desember síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Gísli Guðmundsson bifreiðarstjóri, f. 20.3. 1903, d. 10.1. 1983, og Pálína Þórðardóttir, f. 30.5. 1902, d. 9.9. 1935. Seinni kona Gísla var Jónína Sigurrós Scheving Hallgrímsdóttir, f. 17.7. 1908, d. 3.2. 1983, sem gekk Ingibjörgu í móðurstað og ól hana upp sem dóttur sína. Systir Ingibjargar er Pálína, f. 19.6. 1938.

Ingibjörg giftist 16.9. 1955 Sigurbergi Sveinssyni viðskiptafræðingi og kaupmanni, f. 15.4. 1934. Foreldrar hans voru Sveinn Þorbergsson vélstjóri, f. 12.4. 1899, d. 10.2. 1989 og Jónína Guðlaugsdóttir húsmóðir, f. 21.10. 1904, d. 15.7. 1991. Börn Ingibjargar og Sigurbergs eru: Hjördís ljósmóðir, f. 1952, maki Ingvar S. Jónsson, f. 1951, Rósa kennari, f. 1957, maki Jónatan Garðarsson, f. 1955, Sveinn kaupmaður, f. 1960, maki Björk Pétursdóttir, f. 1962 og Gísli Þór viðskiptafræðingur, f. 1965, maki Hafdís Sigursteinsdóttir, f. 1967. Barnabörnin eru tíu og barnabarnabörnin þrjú.

Ingibjörg ólst upp í Hafnarfirði og gekk þar í skóla. Hún fór ung að vinna og starfaði lengst af við verslun og var um árabil hjá Kaupfélagi Hafnarfjarðar. Hún stofnaði ásamt eiginmanni sínum og hjónunum Bjarna og Valgerði Blomsterberg verslunina Fjarðarkaup í júlí 1973 og starfaði þar fram á síðasta dag.

Útför Ingibjargar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, miðvikudaginn 16. desember, og hefst athöfnin kl. 14.

Skrefin hafa verið þung og harmurinn djúpur eftir að Inga tengdamóðir mín andaðist óvænt mánudaginn 7. desember. Þetta er algjörlega óskiljanlegt því enginn átti von á að kallið kæmi svo fljótt enda var hún heilsuhraust og full af orku og geislandi krafti fram á lokastund. Inga var hjartahlý og umvefjandi og öllum leið vel í návist hennar. Þeir voru ófáir sem hún snerti með gefandi nærveru sinni. Létt lund var einkennandi í fari Ingu og jafnan stutt í brosið. Hún átti auðvelt með að sjá spaugilegar hliðar lífsins og gerði oft að gamni sínu, þótt hún ætti líka sínar alvarlegu og íhugulu stundir. Hún var listakokkur og frumkvöðull í að matbúa nýja rétti, en hún var líka þjóðleg og tók ætíð slátur. Mánaðarlega allan veturinn hittist fjölskyldan heima hjá þeim Begga og snæddi heitt slátur. Þessi siður hélst alla tíð og barnabörnin lærðu strax að slátur er herramannsmatur. Krakkarnir föndruðu fyrir matinn og fullorðna fólkið ræddi málin. Svo var sest að veisluborði þar sem allir tóku vel til matar síns. Sama gilti um stórhátíðir þar sem Inga lagði ríka áherslu á að allir sameinuðust um að gera samverustundirnar sem ánægjulegastar. Inga var mjög skipulögð og stjórnaði sínu fólki af lagni, var hvetjandi og uppbyggileg í samræðum og lagði jafnan gott til málanna. Hún var einstakur mannþekkjari og lagði sig í framkróka við að efla samstöðu, kærleika og virðingu fyrir skoðunum annarra. Hún vissi jafnan hvað fólkið hennar var að fást við og gætti hópsins síns af kostgæfni. Hún var líka óspör á hollráðin þótt hún léti lítið á því bera.

Inga var vinmörg og hélt alla tíð tryggð við æskuvinkonurnar úr vesturbæ Hafnarfjarðar. Fjölmargir nýir vinir bættust í hópinn með árunum og sinnti Inga þeim af jafnmikilli alúð. Ekki má gleyma öllum sem unnu hjá henni og Begga í Fjarðarkaupum. Allt þetta fólk sér á bak einstakri vinkonu. Inga og Beggi hnýttu sín bönd á unglingsárum og eignuðust fallegt heimili. Þau byggðu upp fjölskyldufyrirtækið af dugnaði ásamt meðeigendum sínum og traustu starfsfólki sem sýndi þeim trúnað í verki, enda hafa margir unnið hjá þeim áratugum saman. Þau tóku að fullu við rekstrinum þegar meðeigendur þeirra drógu sig í hlé og hafa haldið áfram að auka veg fyrirtækisins og orðspor þess með gömul og góð viðskiptagildi að leiðarstefi. Inga og Beggi voru samstiga á þessu sviði sem öðrum og allir sem til þekkja skynjuðu alúðina sem þau lögðu í fyrirtækið. Þau gengu í öll störfin ásamt starfsfólki sínu, Inga var eins og hver annar starfsmaður í versluninni og hafði umsjón með sínum vöruflokkum, en Beggi annaðist reksturinn ásamt sonum sínum.

Garðrækt var Ingu mjög hugleikin og síðustu árin voru þau Beggi aðeins farin að draga úr viðverunni í versluninni til að geta notið þess að vera í sumarbústaðnum sem skartar fögrum trjálundum. Þau stunduðu ferðalög með ættingjum og vinafólki og sinntu golfíþróttinni, sem er sannkölluð fjölskylduíþrótt.

Nú hefur Inga lagt af stað í ferðalagið langa, þangað sem vellirnir eru ávallt grænir og fagrir.

Jónatan Garðarsson.

Það var enginn eins og Inga amma og er ég ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni og hennar miklu góðmennsku, en í sömu andrá er söknuðurinn óendanlega mikill.

Amma var kletturinn, hún var límið, þó það færi lítið fyrir því þá hélt hún alltaf fjölskyldunni saman. Stór partur af því voru matarboðin á Miðvangi þar sem aðalrétturinn var yfirleitt slátur. Frá því að ég var lítil man ég ekki eftir öðru en að það hafi verið slátur á hverju ári næstum mánaðarlega frá hausti fram á vor. Gert frá grunni á haustin af öllum konum og börnum í fjölskyldunni og borðað af bestu list við stækkað stofuborðið af hverjum einasta fjölskyldumeðlimi. Þar naut amma sín best, fjölskyldan saman komin og hún stjanaði við alla og settist iðulega síðust við borðið þegar hún var búin að ganga úr skugga um að allir væru búnir að fá sitt. Hún passaði líka alltaf ef að við barnabörnin vorum ein heima, vikulangt eða svo, að við fengjum nú örugglega að borða svona foreldralaus og bauð okkur í góðan heimilislegan mat. Amma var engin venjuleg kona. Hún var kaupmaður eins og Beggi afi og ráku þau saman eigin verslun í 36 ár. Þar var næstum hægt að stóla á að hitta hana við kaffihillurnar hennar þegar hún starfaði enn í búðinni. Mitt fyrsta starf var að sjálfsögðu í Fjarðarkaupum og það var alltaf gott að geta leitað til ömmu með hvað sem var. Amma var alltaf boðin og búin að hjálpa og sparaði ekki hvatningar orðin. Hún fylgdist alltaf vel með því sem hver og einn var að fást við og tók þátt í gleði okkar, sigrum og ósigrum. Lífsgleði ömmu var mikil og naut hún sín einna best í september þegar hún átti afmæli og í desember í öllu jóla stússinu. 10. september var alltaf bókaður undir afmælisveislu á Miðvangi. Þá kom öll fjölskyldan saman ásamt fríðum flokki af konum, vinkonum ömmu, sem voru henni svo mikilvægar. Það var alltaf mikið fjör að hitta vikonurnar og fylgast með því þegar pakkarnir voru opnaðir. Svo byrjaði jóla undirbúningurinn yfirleitt snemma hjá ömmu og fjölskyldan fékk forsmekkinn af jólunum með spes jólaslátri þar sem yngstu krakkarnir fengu að föndra úr trölladeigi og eftirrétturinn var ekki ís eins og vanalega heldur smakk af öllum jólasmákökunum sem amma var búin að baka. Engan hefði geta órað fyrir því að hún væri að kveðja í jólaslátrinu fimmtudaginn 3. desember síðastliðinn. Hún var hress og kát eins og alltaf og allt var eins og það átti að vera. Hún var tilbúin með jólasmákökurnar, búin að þrífa heimilið og setja upp jólaskrautið, enda vantaði ekki upp á skipulagið hjá ömmu, alltaf með allt á hreinu. Mánudaginn 7. desember bárust ótrúlegustu fréttir sem ég hef nokkurtíma heyrt að amma væri búin að kveðja þessa jarðvist. Það verður erfitt að geta ekki hitt hana framar en minningarnar eru margar og góðar og eiga þær eftir að fylgja mér það sem eftir er.

Ég bið góðan guð um að styrkja afa og alla sem hún var svo kær.

Erla Jónatansdóttir.

Ingibjörg Gísladóttir er fallin frá. Kallið kom skyndilega og óvænt.

Leiðir okkar Ingu – en svo var hún jafnan nefnd í daglegu tali – svilkonu minnar lágu fyrst saman fyrir rúmri hálfri öld, þegar ég kynntist konu minni og varð hluti af fjölskyldu hennar. Mér var tekið af mikilli hlýju, ekki síst af Ingu, hlýju sem ég hef notið allar götur síðan. Í mínum huga var Inga einstök kona sem gott var að eiga að vini. Hún var drífandi og hjálpsöm með afbrigðum og nutum við hjónin og börn okkar þess í ríkum mæli, en hún lét sér mjög annt um þau sem sín eigin.

Við hjónin minnumst með innilegu þakklæti allra samverustundanna með þeim Ingu og Begga, í daglega lífinu og á ferðalögum heima og erlendis, þar sem Inga átti ávallt sinn stóra þátt í öllum undirbúningi og skipulagningu.

Ingu var einstaklega annt um velferð barna sinna og afkomenda. Held ég að á engan sé hallað þegar sagt er hún hafi þar verið fyrirmynd annarra.

Lýsandi dæmi um vinnu- og eljusemi Ingu var þegar hún sagði mér á 75 ára afmæli sínu í september sl. að hún hefði loks ákveðið að hætta að vinna í fyrirtæki þeirra hjóna, til þess að fá rýmri tíma til að sinna fjölskyldu og vinum.

Þau hjón Inga og Beggi voru einstaklega samrýmd í öllu sem þau tóku sér fyrir hendur. Þau voru einstaklega gestrisin og nutu þess að vera innan um fólk og voru iðin við að rækta og halda sambandi við fjölskyldu, vini og kunningja.

Ingu verður sárt saknað en minning hennar mun lifa í hjörtum okkar allra.

Þórarinn Sófusson.

„Kemur Inga mágkona í kvöld?“ spurði ég mömmu spenntur – næstum hvern einasta föstudag í barnæsku og raunar fram á unglingsár.

Þetta byrjaði löngu áður en ég vissi hvað mágkona er, ég hélt að hún héti einfaldlega Inga mákona. Ástæða spenningsins var að föstudagskvöld voru oft hápunktur vikunnar, því þá kom Inga nefnilega í heimsókn til okkar, eftir að „búðinni“ hafði verið lokað þann daginn. Beggi kom svo seinna um kvöldið, þegar hann var búinn að „telja“. Oft var eplapæ á borðum eða Ritz-kex og rækjusalat og í bakgrunni leysti Derrick morðmál í sjónvarpinu.

Það var mikil upplifun að fá að vera með í selskap með þeim fullorðnu, og oft erfitt að þurfa að fara að í rúmið í miðjum klíðum. Oftar en ekki laumaðist ég því fram í stofuna aftur undir því yfirskini að geta ekki sofið og fékk stundum að vera með lengur og horfa á pabba og Begga ræða heimsmálin og tefla eða hlusta á samræður mömmu og Ingu.

Að kvöldi Þorláksmessu kom Inga alltaf í heimsókn þegar við pabbi vorum að skreyta jólatréð og hangikjötið mallaði í stóra pottinum í eldhúsinu, og færði mér pakka sem ég mátti opna strax og konfektkassa til mömmu og pabba. Svo var hangikjötið smakkað og borið saman við fyrri ár. Þessi hefð hélst alla tíð sem órjúfanlegur hluti jólanna auk hins árlega jólaboðs á Miðvanginum. Eitt aðaleinkenni Ingu var hversu hlý hún var, og hún talaði alltaf við mig eins og ég væri fullorðinn en ekki barn. Inga var líka létt í lund, hafði ríka kímnigáfu og var afar hláturmild – ég held að þeim sem þekkt hafa Ingu líði ekki úr minni smitandi hlátur hennar.

Mér er minnisstætt þegar við ferðuðumst með Ingu og Begga í byrjun tíunda áratugarins til Þýskalands og Tékklands, þar sem við snæddum kvöldverð á afar fínu veitingahúsi, og þjónarnir buðu úrval af tertum í eftirrétt. Ég spurði einn þjóninn hvor ég gæti ekki pantað eina sneið af hverri tegund og þegar þjónninn kom með vagninn sáum að hver sneið var risastór og næstum heil máltíð. Inga skellihló og hafði síðar gaman af að rifja upp þessa sögu.

Síðasta áratuginn hittumst við sjaldnar, en það var alltaf skemmtilegt, hvort heldur var í hinu árlega jólaboði, sumarhúsi á Vestfjörðum með tilvonandi konu minni – sem var hlýlega tekið eins og við var að búast – eða vikudvöl Ingu og Begga í Danmörku eftir brúðkaup mitt þar sem við skemmtum okkur á ferð um Jótland og Fjón með foreldrum og tengdaforeldrum mínum.

Að leiðarlokum eru mér efst í huga margar kærar minningar um Ingu og þakklæti fyrir að hafa kynnst henni. Við Tine og dætur okkar sendum innilegar samúðarkveðjur til Begga og fjölskyldunnar allrar.

Guðjón Karl, Danmörku.

Sögusviðið er Ölduslóð 17 í Hafnarfirði um 1970, sem þá var heimili Ingu og Begga og barnanna þeirra fjögurra, frændsystkina minna. Eitt ár skilur okkur Gísla að en Hjördís, Rósa og Svenni eru eldri.

Við Gísli höfðum eitt sinn sem oftar verið að leik og rekið augun í hjólið hans Svenna sem geymt var í þvottahúsinu. Ég stóðst ekki freistinguna og spreytti mig á tvíhjóli stóra frænda á holóttum malarveginum, og Gísli fylgdist andagtugur með. Mér fannst mér takast býsna vel upp og sigraðist á hverri holunni á fætur annarri, þar til Inga birtist og stöðvaði skyndilega þennan fyrsta alvöru hjólatúr. Það var nefnilega sprungið á hjólinu. Á sinn yfirvegaða hátt með örlítið hækkuðum tón áminnti hún mig um að hjólreiðar úti á götu af þessu tagi væru ekki leyfilegar og gætu beinlínis verið hættulegar. Ég hlýddi tafarlaust og hef líklega skammast mín fyrst þetta ratar á blað hartnær 40 árum síðar.

Þannig var Ingu best lýst, hún hafði slíka nærveru og reisn að börnin litu upp til hennar, lögðu við hlustir og hlýddu þegar hún af væntumþykju setti þeim nauðsynlegar skorður.

Inga og Beggi voru einkar samrýnd hjón og vart hægt að fjalla um annað þeirra án þess að nefna hitt eftir svo samofna og farsæla samveru sem spannar rúmlega hálfa öld. Heimili þeirra var mér sérstakt aðdráttarafl í bernsku. Ég var svo lánsöm að bindast fjölskyldunni og sérstaklega Gísla frænda mínum sterkum vinaáttuböndum þótt vegir okkar hafi legið í ólíkar áttir um stund eftir unglingsárin. Af ótal kærum minningum með fjölskyldunni er fyrsti starfsdagur Fjarðarkaupa sumarið 1973 mér sérlega minnisstæður, þar sem ég níu ára og Gísli átta, fengum að leggja hönd á plóg og vorum á hlaupum daglangt við að fylla á hillurnar sem tæmdust jafnóðum, slíkar voru viðtökurnar. Við höfum væntanlega leyst þetta verkefni skammlaust af hendi því strax á unglingsárunum man ég stolt eftir því að hafa verið ráðin í mitt fyrsta starf, til sumarvinnu og föstudags- og helgarvinnu með skóla. Í því starfi kynntist ég Ingu enn nánar sem góðum félaga en Fjarðarkaup voru alla tíð órjúfanlegur hluti af lífi hennar.

Inga var fagurkeri sem sjá mátti á smekklegum klæðaburði og fallegu og snyrtilegu heimilinu og öllu sem hún kom nálægt. Hún var vanaföst, fas hennar einkenndist af ákveðni en líka kímni og smitandi hlátri og var hún gjarnan miðpunktur athyglinnar á mannamótum. Inga var fyrirmyndarhúsmóðir, leiðtoginn og kjölfestan sem einatt átti frumkvæðið að því að fjölskyldan kæmi saman. Mörg voru tilefnin og ekki skorti röggsemina, hvort sem það var sláturgerð, laufabrauðsbakstur eða jólaboð stórfjölskyldunnar sem undir það síðasta var á við fjölmenna fermingarveislu.

Andlát hennar var ótímabært. Söknuðurinn er sár og kveðjustundin erfið. Skarð Ingu verður ekki fyllt en að leiðarlokum er efst í huga þakklætið fyrir minningarnar sem lifa. Begga, frændsystkinum mínum og fjölskyldum þeirra votta ég mína dýpstu samúð.

Björk Þórarinsdóttir.

Hún Inga var bara 15 ára þegar hún hitti hann Begga sinn, og 18 ára var hún orðin mamma hennar Hjördísar. Og þar sem hún hafði verið barnapía hjá henni mömmu ásamt Bryndísi móðursystur minni urðum við Hjördís vinkonur frá fæðingu.

Þær eru óteljandi minningarnar um hana Ingu. Þegar ég var 4-5 ára gömul fór ég með mömmu í heimsókn til Ingu. Þær sátu í stofunni að spjalla saman og Inga sagði okkur Hjördísi að við mættum fara fram í eldhús og fá okkur bollur. Við komum svo hróðugar aftur eftir dágóða stund og sögðumst vera búnar með matinn okkar. Að klára matinn sinn var mikið mál í þá daga, en mæður okkar Hjördísar voru nú ekki par hrifnar þegar þær sáu að við höfðum borðað allar rjómabollurnar sem Inga var nýbúin að baka. Við höfum allar hlegið að þessu oft síðan.

Við Hjördís höfum alla tíð gefið hvor annarri jólagjöf og mér er minnisstætt að þegar ég var sjö ára fékk ég mjúkan jólapakka frá Hjördísi.

Á þessum aldri er nú ekki vinsælt að fá mjúkan pakka, en ég get enn séð fyrir mér fallegu svuntuna sem Inga hafði saumað handa mér með pífum á öxlunum. Henni Ingu var nefnilega margt til lista lagt og hún var það sem kallað hefur verið fyrirmyndar húsmóðir. Hún gat allt og var alltaf í góðu skapi.

Fyrir skemmstu bauð Hjördís okkur vinkonunum í morgunkaffi og hún bauð mömmu sinni með. „Ætlar þú að bjóða mér með stelpunum?“ spurði hún dóttur sína. „Auðvitað,“ svaraði Hjördís, „Þú ert ein af okkur stelpunum.“ Og vissulega var Inga ein af okkur stelpunum, alltaf ung og hress og gerandi að gamni sínu.

Um leið og ég þakka Ingu fyrir samfylgdina viljum við Hallur votta Begga og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúð.

Þóra Lovísa Friðleifsdóttir.

HINSTA KVEÐJA

Elsku amma

Takk fyrir allar góðu stundirnar, eins og til dæmis öll slátrin, jólaboðin, 17. júní kaffið og allar ferðirnar með ykkur afa upp í sumarbústað og allt sem að þú hefur gert fyrir okkur og með okkur. Þú varst alveg frábær á öllum sviðum og mér finnst heiður að heita þínu nafni og ætla að bera það jafn flott og þú gerðir. Og eins og þú sagðir við okkur alltaf áður en við fórum að sofa : Guð geymi þig.

Við elskum þig af öllu hjarta og minnumst þín í hjartanu okkar.

Þínar ömmudætur,

Ingibjörg, Magdalena og Kamilla Gísladætur.

Elsku amma, mikið er þetta sárt, þú ert hrifin á brott frá okkur á einu andartaki. Við sem héldum að við fengjum að njóta þín lengur. Við viljum þakka þér fyrir allar góðu minningarnar sem eiga eftir að ylja okkur um ókomna tíð. Við gætum þess að afi verði ekki einmana og hlúum að honum. Við munum minnast þín með virðingu og stolti í hjarta okkar.

Ljúfi drottinn lýstu mér

svo lífsins veg ég finni.

Láttu ætið ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum.)

Ingibjörg, Sigurbergur, Benedikt og Thelma.