Engum kemur í hug að verkefni stjórnvalda séu auðveld um þessar mundir. Þvert á móti blasir við að þau eru bæði afar snúin og flókin. Sú staða kallar almennt á stuðning og samúð með þeim sem fást við vandann.

Engum kemur í hug að verkefni stjórnvalda séu auðveld um þessar mundir. Þvert á móti blasir við að þau eru bæði afar snúin og flókin. Sú staða kallar almennt á stuðning og samúð með þeim sem fást við vandann. En erfið úrlausnarefni eru þó ekki afsökun fyrir menn sem taka í tímahraki og þrengingum alrangar ákvarðanir. Sú er einmitt raunin núna.

Heilbrigður stjórnmálalegur ágreiningur ríkir hér á landi eins og annars staðar í lýðræðisríkjum um hvort fyrirferð ríkisins eigi að vera hófleg í tilveru þjóðarinnar eða umfangsmikil. Margir trúa því að réttlæti verði fremur fyrir borð borið ef aðrir eigi að tryggja það en öflugt og helst alsjáandi ríkisvald. Jafnmargir eða fleiri eru algjörlega öndverðrar skoðunar. Aukið traust á almenningi sjálfum sé heillavænlegra í öllum efnum en hvers konar ofstjórn. Um slík mál takast menn á og að einhverju leyti fást úrslit um álitaefnin í reglubundnum kosningum til Alþingis og sveitarstjórna. Öll er sú skipan upp á það allra besta.

Svo eru önnur álitaefni, þar sem ekki er hægt að færa fram lífsskoðanir og klassíska mæla pólitískra átaka til að nálgast niðurstöðuna. Þess háttar dæmi sjáum við einmitt núna. Þá er með vísun til „hrunsins“ og í skjóli þess ákveðið að hringla gjörsamlega með íslenska skattkerfið um leið og ríkissjóður sækir sér stóraukið fé til aðþrengds almennings. Gefa má sér að réttkjörinn meirihluti Alþingis sé um þessar mundir þess fýsandi að hækka skatta. Það hefur hann lengi gefið til kynna og er því sjálfum sér samkvæmur. En hvers vegna þarf hann að stórskemma skilvirkt og einfalt skattkerfið í leiðinni? Skattkerfi sem fjölmargar ríkisstjórnir með öflugum stuðningi á Alþingi hafa verið að einfalda skipulega á liðnum árum. Flestir borgarar landsins eru ábyrgðarfullir og reiða fram skattgreiðslur sínar möglunarlaust, einkum ef þeir finna að reynt sé að gæta þar hófs. Þær greiðslur eru þó sjálfsagt ekki helsti gleðigjafi tilveru þeirra. En þeir kunna örugglega ekki vel að meta, þegar yfirvöld landsins hækka skatta úr hófi, vegna þrekleysis til sparnaðar í útgjöldum, og bæta svo gráu ofan á svart með því að gera skattkerfið í leiðinni flókið og ógegnsætt á nýjan leik. Þeim mun flestum þykja það hið mesta óþurftarverk.