KYLFINGAR á Húsavík hafa tekið veðurblíðunni á aðventunni fagnandi. Hópur golfara iðkaði íþrótt sína á Katlavelli um helgina og þeir Ásmundur Bjarnason, 82 ára, Magnús Andrésson, 78 ára, og Stefán Þórsson, unglingurinn í hópnum, 64 ára gamall, hafa varla misst dag úr að undanförnu.
„Það hefur verið frábært að geta skotist í golf þessa tvo tíma sem birtan leyfir,“ sagði Ásmundur í spjalli í gær. Þessi margreyndi íþróttagarpur og keppandi í spretthlaupum á tvennum Ólympíuleikum á árum áður gat reyndar ekki mætt í gærmorgun vegna lítilsháttar íþróttameiðsla.
Magnús tók í sama streng. „Þetta hefur verið óvenjuleg tíð eftir að snjóinn tók upp, en þó ekki einsdæmi,“ sagði Magnús. Hann hefur ekki slegið slöku við í haust, því auk golfsins hefur hann farið nokkrum sinnum á gönguskíði upp að Höskuldsvatni og missti varla dag úr í rjúpnaveiðinni, en segist þó aðeins hafa rétt veitt í matinn.
Magnús reiknar með að þeir fari í golf í dag. „Hann gæti reyndar frosið í nótt, en þá fáum við bara meira rúll á boltann,“ sagði Magnús Andrésson á Húsavík. aij@mbl.is