Ríkisstjóri Arnold Schwarzenegger á ráðstefnunni í gær.
Ríkisstjóri Arnold Schwarzenegger á ráðstefnunni í gær. — Reuters
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

AÐALFULLTRÚI Bandaríkjanna á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn, Todd Stern, dró í gær mjög úr vonum margra um að stjórn Baracks Obama forseta muni skuldbinda sig til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda meira en hún hefur áður gert. Sagðist hann ekki gera ráð fyrir neinni breytingu á afstöðu þingsins í Washington í málinu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur nú áhyggjur af ráðstefnunni og segir tímann vera að renna út. „Ég dreg ekki dul á það að ég hef nokkrar áhyggjur af því hvort við munum ná einhverjum árangri,“ sagði hún. Í nýju uppkasti að lokayfirlýsingu eru engar tölur um losun gróðurhúsalofttegunda og engin markmið sett fram um samdrátt. Ekki eru heldur tilgreindar fjárhæðir til fátækari ríkja vegna loftslagsbreytinga.

Bandaríkin og Kína deila nú m.a. um það hvernig tryggja eigi að aðildarríki hlíti ákvæðum væntanlegs samnings um aukinn samdrátt í koldíoxíðlosun, verði hann að veruleika. Að sögn The New York Times hafna Kínverjar með öllu að alþjóðlegir eftirlitsaðilar verði látnir kanna málið þar í landi. Og Bandaríkjamenn muni ekki undirrita samning sem ekki sé hægt að sannreyna.

Í hnotskurn
» Hart er lagt að Bandaríkjunum og Kína, sem eiga samanlagt sök á um 45% af allri losun koldíoxíðs í heiminum, að sýna gott fordæmi á ráðstefnunni með því að heita auknum samdrætti í losun.