Björg Jósepsdóttir fæddist í Reykjavík 16. júlí 1952. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 6. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Jósep Jón Þorbjörn Jóhannesson, f. 11. desember 1918, d. 15. júní 1970, og Jónína Sigríður Guðmundsdóttir Waage, f. 31. desember 1918, d. 14. október 1986. Systkini Bjargar eru Erla, f. 7. nóvember 1940, Reynir, f. 31. október 1941, og Sigurlaug, f. 25. október 1954.

Hinn 26. desember 1970 giftist Björg Grími Björnssyni, f. 18. janúar 1945. Foreldrar hans voru Björn Júlíus Grímsson, f. 15. júní 1917, d. 21. júní 1968, og Soffía Björnsdóttir, f. 13. maí 1921, d. 29. mars 2007.

Þau Björg og Grímur byrjuðu sinn búskap í Reykjavík, fluttust á Ísafjörð og þaðan á Akranes þar sem þau bjuggu til dagsins í dag. Börn þeirra eru 1) Jósep, f. 20. desember 1971, sambýliskona Regína Ómardóttir, f. 11. janúar 1974. Dóttir þeirra er María Sól, f. 13. janúar 2008. Börn Jóseps eru Björg, f. 21. febrúar 1992, móðir hennar er Rut Sigurvinsdóttir, f. 23. september 1974. Alexander Hugi, f. 23. janúar 1995, og Ísak Máni, f. 27. ágúst 2004. Móðir þeirra er Erna Karen Stefánsdóttir, f. 4. september 1972. Börn Regínu eru Ellen Ósk, f. 30. janúar 1998, og Þorgeir, f. 2. október 2000. 2) Soffía, f. 16. júlí 1978. Dóttir hennar er Sigríður Björg, f. 13. september 2004. Faðir hennar er Þorsteinn Emilsson, f. 24. maí 1978. 3) Björn Júlíus, f. 21. janúar 1982, kvæntur Hildi Lilju Guðmundsdóttur, f. 20. júní 1986. Sonur þeirra er Grímur Freyr, f. 31. júlí 2009. 4) Jónína Sigríður, f. 28. október 1986.

Björg ólst upp í Reykjavík, gekk í Breiðagerðisskóla og síðar í Réttarholtsskóla. Björg var lengst af heimavinnandi húsmóðir og helgaði líf sitt uppeldi barna sinna ásamt heimilisstörfum. Hún hóf störf hjá Póstinum við blaðaútburð og lét af störfum þar vegna veikinda. Hún dvaldi síðasta hálfa árið á Sjúkrahúsi Akraness, þar sem hún lést.

Útför Bjargar verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, miðvikudaginn 16. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma.

Mikið óskaplega á ég eftir að sakna þín mikið en ég er samt feginn að baráttunni við þennan vonda sjúkdóm er lokið og ég veit að þú ert komin á góðan stað þar sem þú gætir okkar.

Síðustu daga hef ég verið að rifja upp alla góðu stundirnar sem við höfum átt saman og það er ekkert sem tekur það frá mér ég er svo glaður að Hildur Lilja fékk að kynnast þér áður en veikindin dundu yfir og ég verð duglegur að segja Grími litla frá því hvað amma hans var stórkostleg kona.

Ég er búin að reyna að hugsa jákvætt og vera þakklátur fyrir þennan góða tíma sem við áttum saman en alltaf finnst mér það grátlegt að hafa ekki fengið að kynnast þér betur eftir að ég fullorðnaðist. Ég bý að þessu yndislega uppeldi sem ég hlaut frá þér alla ævi ásamt þeirri miklu visku sem þú miðlaðir áfram til mín og ég fæ að miðla áfram til barnanna minna. Það er svo margt sem ég er búin að vera að hugsa en ég á erfitt með að koma því frá mér á prent þessa dagana .

Mér þykir svo endalaust væntum þig elski mamma og sakna þín meira en orð fá lýst.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Þinn sonur,

Björn Júlíus Grímsson.

Elsku mamma, ég á svo erfitt með að sætta mig við og gera mér grein fyrir því að þú sért farin frá okkur. Þú varst besta vinkona mín, við gátum talað saman um alla hluti og aldrei komu upp ósætti milli okkar. Þú varst einstök, betri mömmu var ekki hægt að eignast. Þegar ég sig hér, með tár í augum er mér ofarlega í huga falleg setning sem ég heyrði um daginn, þó svo ég brosi þá þýðir það ekki að ég sé glaður, því það þarf bara eitt bros til að fela milljón tár. Þetta lýsir svo vel líðan minni síðustu daga.

Ég á svo margar góðar minningar um þig elsku mamma mín. Þú varst viðstödd fæðingu dóttur minnar, nöfnu þinnar, það var einstök stund, eins þegar þú heimsóttir mig til NY, ísbíltúrarnir okkar, útilegurnar, allar gönguferðirnar, þegar þú varst að reyna að kenna mér að elda, daglegu símtölin og svo mætti lengi telja.

Það voru forréttindi að fá að að alast upp við svona mikið atlæti og ástríki eins og við systkinin gerðum, þið pabbi voruð sköpuð hvort fyrir annað, voruð samstíga og ástfangin frá upphafi til enda. Þú lifðir fyrir fjölskylduna þína og fannst fátt betra en þegar við vorum öll saman, oft voru nú lætin mikil en þannig vildirðu hafa það, þú elskaðir þegar húsið iðaði af lífi. Við höfum alltaf verið samheldin fjölskylda og það hefur sýnt sig og sannast við þessar erfiðu aðstæður sem við erum að ganga í gegnm núna hvað við erum sterk heild, það er allt þér að þakka elsku mamma.

Litla ömmustelpan þín hefur átt erfiða daga og getur illa skilið afhverju amma hennar þurfti að deyja. Þetta er erfitt að útskýra fyrir 5 ára barni, sérstaklega þegar maður getur ekki skilið það sjálfur. Þið voruð svo nánar, allt frá fyrsta degi. Ég mun hjálpa henni að muna alltaf eftir yndislegu ömmunni sinni.

Dugnaðurinn í þér var aðdáunarverður, þú prjónaðir heilu peysurnar án þess að hafa nokkuð fyrir því, það var líka alltaf eitthvað til með kaffinu þegar maður kom svangur heim úr skólanum og þegar ég heyrði írska tónlist koma ómandi á móti mér langt út á götu vissi ég að þú stæðir dansandi við eldhúsborðið að baka eitthvað gott.

Það var ótrúlegt að fylgjast með þér í veikindunum þínum, aldrei kvartaðirðu, þú tókst á við þau af miklu æðruleysi og dugnaði. Mig langar að þakka öllu þessu frábæra starfsfólki , bæði á E-deild og Höfða, sem af mikilli umhyggju og alúð hefur gert allt sem það getur til að láta þér og okkur líða sem best.

Það verður erfitt að halda jól án þín elsku mamma mín, en með smá auka styrk og samstöðu hljótum við að komast í gegnum það eins og við höfum komist í gegnum síðustu daga saman.

Það er erfitt að þurfa að kveðja þig í hinsta sinn elsku mamma mín. Ég er svo þakklát fyrir þær stundir sem ég átti með þér og mun geyma þær vel í hjarta mér. Ég veit að þú munt vaka yfir mér og gullmolanum mínum um ókomin ár og veistu, ég er ekki frá því að ég hafi heyrt hvíslað í eyrað á mér þegar ég fór út að ganga í ausandi rigningunni í gær „passaðu að láta þér ekki verða kalt“.Hvíldu í friði elsku mamma mín.

Þín dóttir,

Soffía S. Grímsdóttir.

Elsku mamma mín.

Ég trúi því ekki að þú sért farin. Ég hugga mig þó við það að núna líður þér vel, ekki að upplifa sársauka og getur jafnvel tekið upp prjónana aftur. Mamma, þú ert mitt leiðarljós í lífinu. Á hverjum degi allt mitt líf ég hef ég verið stolt af þér og montin að vera dóttir þín, tala nú ekki um þegar fólk segir að ég sé lík þér.

Ég mun aldrei gleyma brosinu breiða og gleðinni sem fyllti augun þín þegar þér var komið á óvart með uppáhaldinu þínu, stórum ís með dýfu. Það var svo gaman að koma þér á óvart og gleðja þig, gleðin var alltaf ósvikin.

Það eru óteljandi minningar sem ég á með þér mamma mín, t.d. þegar ég kom heim frá Ameríku eftir ár í burtu.

Ég var komin í gegnum tollinn, ég var ekki búin að sjá þig en fann mömmulyktina og áður en ég vissi voru tárin farin að leka ósjálfrátt hjá okkur báðum. Ég hljóp til þín beint í yndislega faðminn þinn og vildi ekki sleppa. Ég mun fá að upplifa þetta aftur seinna elsku mamma.

Mæðgnaböndin okkar eru svo sterk eins og t.d. oft þegar ég hringdi í þig bara upp úr þurru svaraðir þú í símann og sagðir „Jónína, þetta er ekki einleikið.“ Þá varstu akkurat að taka upp símann til að hringja í mig. En ekki grunaði mig að þessi bönd væru svona öflug eins og ég komst að þegar þú varst farin. Þegar ég opnaði skápinn inn á baði eins og svo oft áður og út úr honum flaug lítil úrklippa úr blaði og á honum var þetta ljóð:

Dýpsta sæla og sorgin þunga,

svífa hljóðlaust yfir storð.

Þeirra máli ei talar tunga,

tárin eru beggja orð.

(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum.)

Það er greinilegt að þú vildir að ég myndi lesa þetta og geyma vel.

Ég mun halda áfram að tala við þig í gegnum stjörnurnar eins og við töluðum saman þegar ég var úti í Ameríku. Ég mun líka halda áfram að spila fyrir þig uppáhalds tónlistina þína og teikna fyrir þig myndir, því ég veit þú munt sjá þær. Ég mun líka kveikja á kertum fyrir þig. Þér fannst svo vænt um kertaljós. Þegar það var komið kvöld og logarnir á kertunum farnir að slokkna hver af öðrum sátuð þið pabbi oft bara tvö og annað hvort töluðuð saman eða sátu saman í þögninni. Þið voruð svo fullkomin, það var svo yndislegt að sjá ykkur saman, að sjá ástina ykkar dýpka og dafna, það var svo frábært að fá að alast upp við það. Takk mamma fyrir það líf sem þú gafst mér og það veganesti útí lífið sem þú veittir mér.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig, þú varst svo góð vinkona og áttir alltaf tíma fyrir mig, fyrir okkur öll. Það er margt sem þú áttir eftir að kenna mér en ég vona að þú haldir áfram að beina mér á rétta braut, þótt það verði ekki með orðum. Ég verð alltaf litla stelpan þín og held áfam að vera dugleg eins og þú sagðir svo oft við mig að ég væri. Ég vona líka að ef sá tími komi að ég fái að vera móðir að ég verði eins góð móðir og þú, eins kærleiksrík, skilningsrík, traust, þolinmóð, ástrík og hafi jafn góðan og hlýjan faðm eins og þú.

Ég elska þig meira en allt elsku mamma mín, þú ert hetjan mín og auðvitað munt þú alltaf eiga stóran hluta í mínu hjarta.

Þín litla stelpa,

Jónína Sigríður Grímsdóttir.

Þá er komið að kveðjustund. Mamma mín er fallin frá svo langt fyrir aldur fram. Baráttan var búin að vera erfið hjá henni, svo eflaust er hún hvíldinni fegin.

Mamma var einstök kona, hún hugsaði alltaf fyrst um aðra og síðan um sjálfa sig. Sama hvaða vitleysu ég hafði fram að færa þá hafði hún alltaf tíma til þess að hlusta á mig og gefa mér góð ráð. Það brást ekki að þegar ég kom í heimsókn á Skagann þá hringdi ég á undan mér og stakk því svona að mömmu hvað mig langaði að borða og alltaf uppfyllti hún óskir mínar. Það var líka ekkert sjaldan að ég sofnaði í sófanum í rólegheitunum sem einkenndu heimilislífið þar, þá var mamma komin með sæng eða teppi og breiddi yfir strákinn sinn. Mamma var mest af sínu lífi heimavinnandi og mikil forréttindi voru það að koma aldrei að læstum dyrum heima, heldur vita að maður væri kominn í öruggt skjól hjá mömmu, og það var alltaf til eitthvað nýbakað með kaffinu.

Ísbíltúrinn sem við fórum í upp í Borgarnes fyrir rúmu ári mun ég alltaf muna, þar ræddum við mjög opinskátt um veikindin og hún sagði mér hvað hún væri þakklát fyrir hvern dag sem hún fengi að vera með okkur.

Einnig var síðasta útilegan sem við fórum í, í lok maí á þessu ári, mjög eftirminnileg en það var svo gaman að fá að vera með mömmu í hjólhýsinu sem hún var svo ánægð með. Ég er svo þakklátur fyrir allar stundirnar og öll þau ár sem við fengum saman.

Minningarnar eru margar og ég mun njóta þess að ylja mér við þær, og segja barnabörnunum þínum sögurnar okkar. Mamma ég elska þig.

Ertu horfin? Ertu dáin?

Er nú lokuð glaða bráin?

Angurs horfi ég út í bláinn,

autt er rúm og stofan þín,

elskulega mamma mín.

Gesturinn með grimma ljáinn

glöggt hefur unnið verkin sín.

Ég hef þinni leiðsögn lotið,

líka þinnar ástar notið,

finn, hvað allt er beiskt og brotið,

burt er víkur aðstoð þín

elsku góða mamma mín.

Allt sem gott ég hefi hlotið,

hefir eflst við ráðin þín.

Þó skal ekki víla og vola,

veröld þótt oss brjóti í mola.

Starfa, hjálpa, þjóna, þola,

það var alltaf hugsun þín,

elsku góða mamma mín.

Og úr rústum kaldra kola

kveiktirðu skærustu blysin þín.

Flýg ég heim úr fjarlægðinni,

fylgi þér í hinsta sinni,

krýp með þökk að kistu þinni,

kyssi í anda sporin þín,

elsku góða mamma mín.

Okkur seinna í eilífðinni

eilíft ljós frá guði skín.

(Árni Helgason.)

Þinn,

Jósep.

Ég man það svo greinilega þegar ég hitti Björgu í fyrsta skipti þar sem að ég var í þó nokkru uppnámi vegna þess að ég hélt að ég og Björn værum bara í bíltúr og kom mér það í opna skjöldu að vita það að við myndum enda í heimsókn heima hjá foreldrum hans uppi á Skaga. En stressið í mér hvarf fljótt um leið og Björg og Grímur buðu mig velkomna. Það er ekki hægt að segja annað en að manni hafi ávallt liðið afskaplega vel hjá þeim.

Björg hafði stórt hjarta og setti ávallt alla aðra í fyrsta sæti. Aldrei upplifði ég það að fara svöng frá Björgu og Grími enda var það eiginlega óskrifuð regla að betra er að hafa of mikið á borðum heldur en of lítið. Björg var sú móðurímynd sem maður ímyndar sér þegar hugsað er um hvaða eiginleika móðir þarf að vera gædd þegar hugsað er um orðið „móðir“. Hún gat allt og var ávallt boðin og búin til að aðstoða mig ef ég bað um hjálp við matseld eða prjónaskap. Það er ávallt sagt að dóttir sæki fyrirmyndina í móður sína þegar dóttirin tekst á við húsmóðurhlutverkið og er það slíkt tilfelli í mínu tilviki en ég hef einnig aðra fyrirmynd; Björgu. Hún var sú móðir sem ég sækist í að vera.

Verst þykir mér að hugsa til þess að Grímur Freyr, sonur minn og Björns, fái ekki að kynnast ömmu sinni og hún sömuleiðis að kynnast ekki honum. En ég trúi ekki öðru en að hún fylgist vel með honum núna þegar hún er laus úr viðjum þess fangelsis sem hún var komin í. Síðasta brosið sem ég sá leika um varir hennar og augu var þegar hún fékk Grím Frey fyrst í fangið í skírn hans. Mun það augnablik lifa með mér í minningunni það sem eftir er.

Ég er þakklát fyrir það að hafa fengið að kynnast Björgu áður en veikindi hennar tóku öll völd og mikið afskaplega er ég þakklát fyrir að hún hafi alið góðan mann sem ég fæ að standa við hlið þegar þessar raunir og sorg dundu yfir og dynja enn.

Hildur Lilja Guðmundsdóttir.

Elsku besta amma. Mér finnst leiðinlegt að þú sért dáin. Mér er illt í hjartanu og maganum og höfðinu því ég sakna þín svo mikið. Það var gaman þegar við vorum að leika saman og lesa, þú gafst mér líka oft ís.

Ég ætla alltaf að passa dúkkuna mína sem þú gafst mér, hún heitir núna amma Björg. Mamma segir þú sért hjá Guði og englunum, ég hugsa um þig þegar ég sé stjörnurnar. Mig langar svo að knúsa þig amma.

Elska þig.

Þín,

Sigríður Björg.

Hvernig kveður maður eina af sínum elstu og bestu æskuvinkonum?

Við Björg kynntumst fyrir 48 árum þá að byrja í 9 ára bekk. Við vorum ekki með neinn ákveðinn til að leiða inn í skólastofuna svo úr varð að við tókum í hönd hvor annarrar og handtakið þitt var svo traust, þétt og hlýtt. Þar tengdumst við þeim nánu vinaböndum sem aldrei rofna.

Ég var nýflutt í hverfið og það var furðu erfitt að mynda tengsl við nýja krakka. Samt eignaðist ég svo vinkonur, bestu vinkonur sem hafa alltaf haldið hópinn síðan.

En nú er höggvið skarð í þann hóp. Bjögga er kvödd í dag.

Á þessum árum voru flestar mæður heimavinnandi og við Björg áttum báðar yndislegar mæður sem sáu þennan vinskap og hlúðu að honum. Heimili Bjargar var nálægt skólanum en mitt í þó nokkurri fjarlægð. Í hádeginu fór ég oft heim með Björgu og þá beið okkar ávallt heitt kakó og smurt brauð. Svo hittumst við heima hjá mér í góðu tómi, spjölluðum og hlustuðum á tónlist – þú elskaðir Cliff Richards en ég dáði Bítlana.

Öll þessi minningarbrot, sem við yljum okkur við á skilnaðarstund. Ég ætla að geyma vel myndina af því þegar við unglingsstúlkur fórum í skíðaferð með skólanum. Við Bjögga sátum fastar í „klettunum“ fyrir ofan skíðaskálann og tókum það ráð að láta okkur rúlla niður hlæjandi og ætluðum aldrei að geta hætt að hlæja. Þetta atvik kemur alltaf upp í huga mér þegar ég fer fram hjá þessum stað.

Björg kynntist Grími Björnssyni ung og ég man að ég var svolítið hneyksluð á henni að vera að binda sig svona snemma – ég að fara til Noregs 17 ára og frjáls en hún alltaf upptekin af þessum strák. Eftir á að hyggja var ég líklega bara afbrýðisöm út í þennan mann sem átti hug hennar allan, hann Grím, sem hún átti eftir að giftast og reyndist svo traustur og yndislegur eiginmaður og faðir.

Eftir að við vorum komnar með eigin fjölskyldur hittumst við helst í saumaklúbbi sem við gömlu vinkonurnar héldum úti – með mismiklum árangri hvað hannyrðir varðar. Já, ég játa að þar stóð ég mig verst, reyndi ekki einu sinni að sauma en talaði þeim mun meira. Það var ómögulegt að keppa við Bjöggu varðandi heimboðin í klúbbnum, hún var svo myndarleg húsmóðir. Hlaðborð í hvert skipti, og hún brosti ánægð þegar við hinar áttum ekki orð!

Eftir að Björg og Grímur fluttu upp á Akranes urðu samskiptin ekki eins tíð en alltaf héldum við sambandi. Komum í kaffi eða hringdum og spjölluðum um börnin og seinna barnabörnin, hvernig þeim öllum gengi.

Eftir að veikindi Bjargar komu í ljós ákváðum við, gamli saumaklúbburinn, Hulda, Kolla, Kristjana, hún og ég, að fara að hittast aftur, mánaðarlega. Þetta hefur verið dýrmætur tími en allt of stuttur.

Hvernig kveður maður eina af sínum elstu og bestu æskuvinkonum? Maður kveður með þakklæti fyrir allt það góða sem vináttan færði okkur og fjölskyldum okkar, með von um endurfundi og með von um styrk þeim til handa sem eftir lifa.

Hulda, Kolbrún, Kristjana og mennirnir okkar báðu mig fyrir kveðjur með þessum línum til Gríms og fjölskyldunnar allrar.

Herborg Auðunsdóttir.

Nú er fallin frá sérstök rós. Það er svo einkennilegt þegar litið er yfir farinn veg, að þá er einstaka fólk sem hefur haft mikil áhrif á mann og er jafnvel gengið, eins og vinkona mín Bjögga. Á unglingsárunum áttum við margar mjög sérstakar stundir saman. Hún var ekki bara vinur heldur líka svo margt annað. Ekki fyrir löngu kom hún til mín og þá kom í ljós að ég var örkumla af völdum tiltekinnar stéttar en hún var hugfjötruð af náttúrunnar hendi. Ég og hún mættumst þarna aftur þótt auðvitað hefðum við hist í gegnum tíðina. Það var svo einkennilegt hvernig við náðum saman þennan eftirmiðdag. Hún gerði það sem ég var ekki fær um vegna líkamlegrar fötlunar og ég það sem hún var ekki fær um vegna hugfjötra sjúkdóms síns. Við áttum yndislegan dag saman. Svona dag hefði ég gjarnan viljað endurtaka en þá er Bjögga farin á vit feðra sinna inn í nýjan heim þar sem allir fjötrar fara af henni og hún er frjáls eins og fuglinn og getur jafnvel fylgst með mér, börnunum sínum og manni frá öðrum heimi.

Bjögga átti yndisleg fjögur börn og frábæran mann og þetta skiptir máli. Þegar ég lít til baka þá man ég svo vel eftir því hvernig Bjögga og Grímur héldust yfirleitt hönd í hönd innan um almenning og voru ótrúlega ástfangin fram á síðasta dag. Þau voru eins og sniðin fyrir hvort annað. Svona ber að þakka því það er ekki alltaf sem við hittum pól á lífsleiðinni sem á svona vel við okkur.

Síðustu árin bjó Bjögga uppi á Akranesi, þannig að fjarlægðin var þó nokkur. Við áttum alltaf í huglægu sambandi þótt við hittumst ekki oft. Á okkar yngri árum voru samverustundirnar á hverjum degi.

Elsku Bjögga mín, ég vona að góður Guð vaki yfir þér og verndi og sitji þig inn í nýjar aðstæður. Börnunum þínum og manni, Grími, vil ég senda innilegustu samúðarkveðjur og þér vil ég að lokum senda lítið ljóð sem ég orti bara fyrir þig. Ég vona svo innilega að við munum hittast aftur þótt síðar verði. Kannski ég og þú og Grímur og allir hinir.

Í birtu ferð og brosir hissa

í björtum faðmi engla.

Í himnatónum heyrast ómar

sem hljóma fyrir þig.

Í heimi manna varst um hríð

en hefur breytt um stefnu.

Á nýjum slóðum sérðu sýnir

og sjálfan Drottinn líka.

Að leiðarlokum lifa minningar

ljúfar tengdar þér.

Þú varst rós og reyndist vinur

og ríkidæmi bíður þín.

(Jóna Rúna Kvaran.)

Jóna Rúna Kvaran.

Sunnudaginn 6. desember bárust þau tíðindi að Björg hefði látist þá um morguninn. Þessi sorgarfregn kom engum á óvart, Björg var búin að vera mikið veik undanfarna mánuði og það duldist okkur hjónum ekki þegar við kvöddum hana í síðasta mánuði að stutt var í að hún legði í för sína til æðra lífs.

Þau Björg og Grímur kynntust 29. nóvember 1969 svo samvistir þeirra urðu rúm 40 ár og það leyndi sér ekki að þarna hafði Grímur fundið stóru ástina í lífi sínu. Á þessum árum var Grímur á sjó með langar fjarvistir, svo kynnin mín við Björgu urðu ekki mikil fyrr en hann kom í land. Björg kom fyrir sem hæglát og feimin kona en þó glaðleg þegar því var að skipta. Ég fann þó strax að hún hafði til brunns að bera þá ákveðni sem þarf til að ná settu markmiði með þeirri festu og rólega yfirbragði sem einkennir þann sem veit hvað hann vill.

Björg og Grímur giftu sig á annan dag jóla 1970 og börn þeirra urðu fjögur: Jósep, Soffía Sigurlaug, Björn Júlíus og yngst er Jónína Sigríður og eru barnabörn þeirra orðin átta. Þetta er stór fjölskylda sem hefur notið umhyggju og dugnaðar móður og ömmu sem brást við þegar eitthvað bjátaði á. Þannig var Björg, hugur hennar stóð til þess að fjölskyldu hennar liði ætíð sem best, hún fylgdist vel með að svo væri. Björg hafði ýmis áhugamál þar má nefna, hannyrðir, bréfaskriftir, ljósmyndun og ferðalög. Björg var gefin sú náðargáfa að eiga auðvelt með að tjá sig með skrifum og ekki spillti fyrir að hún hafði einnig fallega rithönd. Í bréfum sínum fjallaði hún um lífið og tilveruna séð frá hennar sjónarhorni, sagði frá fjölskyldunni og aflaði frétta af öðrum.

Í minningunni sér maður Björgu fyrir sér með ljósmyndavélina á lofti, enda er mikið til af ljósmyndum hjá þeim, vandlega frágengnar og merktar tilefninu. Þetta er dýrmætur sjóður sem fjölskyldan getur leitað til nú þegar sorgin hefur knúið dyra. Björg og Grímur höfðu gaman af því að ferðast, stundum leigðu þau sér sumarbústað eða fóru um landið með fellihýsið. Þá var ekki verið velta fyrir sér hvernig veðrið var, stundarinnar var notið, óháð þeim áhrifum sem við Íslendingar látum veðrið hafa á okkur. Mér er sérstaklega minnisstætt slíkt tilvik þegar þau komu í heimsókn til okkar hingað til Dalvíkur og héldu síðan sinni ferðaáætlun þó fyrirséð var að jafnvel frost væri framundan.

Það eru nokkur ár síðan það fór að bera á þeim sjúkdómi sem nú hefur lagt að velli þessa mætu konu. Þessi veikindatími hefur verið fjölskyldunni erfiður og það er sárt að sjá þá sem okkur þykir vænst um hverfa inn í sinn heim og vita það að sá staður sem Björg hafði tekið frá fyrir eiginmann sinn, börn og barnabörn í huga sínum og hjarta hverfa. Grímur, þú stóðst við hlið Bjargar eins og klettur í veikindum hennar, umhyggja þín var aðdáunarverð ég veit að missir þinn er mikill, við vonum að Guð muni styrkja þig í sorg þinni. Grímur, Jósep, Regína, Soffía, Björn Júlíus, Hildur, Jónína og öll barnabörnin, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þorsteinn Björnsson

og Ásdís Arnardóttir.

Þagna sumars lögin ljúfu

litum skiptir jörðin fríð.

Það sem var á vori fegurst

visnar oft í fyrstu hríð.

Minning um þann mæta gróður

mun þó vara alla tíð.

Viltu mínar þakkir þiggja

þakkir fyrir liðin ár.

Ástríkið og umhyggjuna

er þú vina þerraðir tár.

Autt er sætið, sólin horfin

sjónir blindna hryggðar-tár.

Elsku mamma, sorgin sára

sviftir okkur gleði og ró.

Hvar var meiri hjartahlýja

hönd er græddi, og hvílu bjó

þreyttu barni og bjó um sárin

bar á smyrsl, svo verk úr dró.

Muna skulum alla ævi,

ástargjafir bernsku frá.

Þakka guði gæfudaga

glaða, er móður dvöldum hjá.

Ein er huggun okkur gefin

aftur mætumst himnum á.

(Höf. ók.)

Elsku Soffía og fjölskylda, Guð gefi að samheldni ykkar og einstakur kærleikur veiti ykkur styrk og sálarró á þessum erfiðu tímum.

Gunnhildur Sara og fjölskylda og Hrefna María Eiríksdóttir.