Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri.
Það styttist í sveitarstjórnarkosningar. Merki þess eru ótvíræð. Það ólygnasta er auðvitað almanakið. Næst eru aukin umsvif væntanlegra frambjóðenda í prófkjörum flokkanna.

Það styttist í sveitarstjórnarkosningar. Merki þess eru ótvíræð. Það ólygnasta er auðvitað almanakið. Næst eru aukin umsvif væntanlegra frambjóðenda í prófkjörum flokkanna. Og enn eitt merkið er dagvaxandi áhugi fréttastofu RÚV á því sem kunni að vera aflaga í borginni og kenna megi núverandi meirihluta borgarstjórnar um.

Reyndar hefur þetta kjörtímabil verið næsta einstakt í sögu borgarinnar enda sýnir lausleg talning að einir fjórir borgarstjórar hafa gegnt embætti það sem af er.

Hvaða skoðanir sem menn vilja hafa á störfum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra verður því ekki neitað að mestur friður hefur ríkt um störf hennar að starfsbræðrunum á kjörtímabilinu ólöstuðum.

Kjósendur í Reykjavík virðast kunna að meta þetta, ef marka má nýbirta skoðanakönnun. Þar kemur fram að um 64% borgarbúa eru ánægð með störf borgarstjóra fram til þessa. Dæmin sanna að tölur af þessu tagi skila sér ekki allar á einn bókstaf í kosningum, enda er ekki verið að spyrja menn um hvað þeir myndu kjósa ef kosið væri nú, eða hvað þeir hafi hugsað sér að kjósa í vor. En niðurstaðan er þó vænlegt veganesti fyrir borgarstjórann inn í kosningaveturinn og vorið.

Það var annars gaman að sjá að Vísir.is sagði að „ríflega helmingur“ aðspurðra væri ánægður með störf borgarstjórans. Þeir eru bersýnilega ekki mikið fyrir að ýkja á þeim bæ, nema góð ástæða sé til þess.