,,ÉG stóðst læknisskoðunina eins og ég vissi og nú á bara eftir að ganga frá nokkrum smáatriðum.

,,ÉG stóðst læknisskoðunina eins og ég vissi og nú á bara eftir að ganga frá nokkrum smáatriðum. Það er ekkert sem á að geta komið í veg fyrir að ég fari til liðsins og vonandi verður þetta klárað á morgun (í dag),“ sagði knattspyrnumaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson við Morgunblaðið í gærkvöld en hann var þá staddur í smá jólapartíi hjá enska 1. deildarliðinu Reading eftir að hafa staðist læknisskoðun hjá liðinu nokkru áður.

Danska liðið Esbjerg, sem Gunnar er á mála hjá, og Reading hafa náð samkomulagi um lánssamning sem tekur gildi í janúar en ákvæði eru í samningnum að Reading geti keypt Eyjamanninn eftir tímabilið.

,,Ég mun líklega hefja strax æfingar með liðinu. Ég mun skreppa heim til Íslands í tvo til þrjá daga yfir jólin en held síðan aftur út annan í jólum og byrja þá á fullu,“ sagði Gunnar Heiðar.

gummih@mbl.is