Helgi „Opnar augu allra sem hafa unun af að lesa í landið.“
Helgi „Opnar augu allra sem hafa unun af að lesa í landið.“ — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir dr. Helga Björnsson Bókaútgáfan Opna Reykjavík 2009, 479 bls.

Stórvirki – það er orðið sem mér finnst eiga best við um bókina Jöklar á Íslandi . Þá á ég fyrst og fremst við þá miklu og víðtæku þekkingu sem dr. Helgi Björnsson jöklafræðingur hefur safnað saman og setur hér fram á auðskilinn hátt. Bókin er einnig stórvirki í sjálfri sér, bæði stór og mikil. Vegna stærðarinnar er bókin ekki beint ákjósanlegur rekkjunautur fyrir þá sem vilja liggja út af við lesturinn. Það er ef til vill helsti gallinn á þessu ágæta verki!

Ísland er gjarnan nefnt land elds og ísa. Jöklar og jarðeldar hafa mótað þetta land frá upphafi og haft mikil áhrif á mannlíf frá því land byggðist. Virkustu eldstöðvar landsins eru undir jökli og eldgos með tilheyrandi jökulhlaupum eru hrikalegar hamfarir. Helgi gerir ítarlega grein fyrir öllu þessu. Hann útskýrir myndun jökla og mismunandi gerðir þeirra. Einnig rifjar hann upp heimildir um jökla allt frá upphafi Íslandsbyggðar. Helgi rekur söguna af því hvernig þekkingu manna á jöklunum og eðli þeirra fleygði fram í aldanna rás. Þar er margur forvitnilegur fróðleiksmolinn, t.d. að Íslandskort Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups er það elsta í heiminum sem sýnir jökla. Einnig hve mikill frumkvöðull Sveinn Pálsson var á sviði jöklafræði þegar á ofanverðri 18. öld.

Loftslagsmálin eru nú í brennidepli. Helgi gerir ítarlega grein fyrir ísöldum og hlýskeiðum líku því sem við lifum á. Saga loftslagsbreytinga hefur verið lesin úr jöklum og sjávarseti. Af lestrinum að ráða er líklegt að aftur kólni á jarðríki.

Saga jöklarannsókna er hér rakin í máli og myndum. Þar eru jöklarannsóknir á Íslandi skiljanlega í forgrunni. Vísindamenn hafa hér notið liðsinnis áhugasamra leikmanna í Jöklarannsóknafélaginu. Eflaust þykir fleiri lesendum en undirrituðum forvitnilegt að sjá hulunni flett af landinu undir jöklunum. Ef svo fer sem horfir í hlýnun loftslags kann það að verða landslagið sem kynslóðir framtíðarinnar hafa fyrir augunum – ef ekki bregður aftur til kólnunar.

Helgi gerir grein fyrir stórum og smáum jöklum í öllum landshlutum og landslaginu undir mörgum þeirra. Hann lýsir tilurð, eðli, staðháttum og sérkennum jöklanna og rifjar upp ýmsan fróðleik þeim tengdan. Þar er mikinn þjóðlegan fróðleik að finna. Öldum saman voru jöklarnir ekki í alfaraleiðum og sveipaðir dulúð. Þar var talið að útilegumenn byggju í gróðursælum dölum umluktum jöklum.

Helgi tínir einnig fram margt forvitnilegt úr frásögnum jöklafara fyrri ára. Þær ferðir voru farnar í ýmsum tilgangi. Hér má t.d. lesa frásagnir jafnólíkra manna og Hannesar Jónssonar landpósts á Núpsstað og Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar af viðskiptum þeirra við Skeiðarárhlaup og Skeiðarársand.

Eldstöðvar er víða að finna undir jöklum. Saga þeirra er einnig rakin. Til dæmis eru hér ítarlegir kaflar um Kötlu undir Mýrdalsjökli og Kötluhlaupin sem fylgt hafa eldgosunum í gegnum aldirnar. Sömuleiðis um Grímsvötn og aðrar eldstöðvar undir Vatnajökli.

Glæsilegt myndefnið, ljósmyndir, kort og skýringarmyndir, nýtur sín einkar vel á stórum síðum bókarinnar. Helgi á þar margar ljósmyndir og í þeim birtist hann lesendum sem næmur og snjall myndasmiður. Margar myndanna eru teknar á slóðum utan alfaraleiða og gefa því nýja sýn á landið. Einnig er akkur að mörgum gömlum myndum frá jöklaferðum fyrri tíða.

Aftast í bókinni er rakinn annáll jöklarannsókna á Íslandi allt frá landnámsöld og fram á þetta ár. Í viðauka eru ýmsar kennistærðir helstu jökla og annar fróðleikur. Ágrip af efni bókarinnar á ensku er þar einnig að finna sem og tilvísanaskrá, heimildaskrá og nafnaskrá.

Helgi er í fremstu röð vísindamanna á sínu sviði. Hér tekst honum einkar vel að opna undraheim íslensku jöklanna með þeim hætti að óbreyttir lesendur á borð við undirritaðan hafa gaman af og verða stórum fróðari. Þessi bók á mikið erindi til Íslendinga, ekki síst hinna ferðaglöðu. Hún opnar augu allra sem hafa unun af að lesa í landið fyrir undrum náttúruaflanna. Þeir munu líta landið öðrum augum eftir lesturinn.

Guðni Einarsson