Percy B. Stefánsson
Percy B. Stefánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Percy B. Stefánsson og Kjartan Pálmason: "Meðvirkni er sjúkdómur sem tærir upp sál okkar. Hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama."

MEÐVIRKNI hefur áhrif á allt líf okkar. En enginn talar um meðvirkni. Enginn vill opna augun og sjá „lífið“ og sjá hvernig meðvirkni heftir jafnvel eigið líf. Ómeðvitað, stundum meðvitað, er allt gert til að viðhalda „stöðugleika“, það má ekkert breytast.

En hvað kostar það okkur að halda óbreyttri stefnu sama hvað gerist og hvert stefnir? Hvað kostar að vera sjón- og heyrnarlaus til að forðast eigin tilfinningar? Er núverandi ástand á Íslandi til komið vegna meðvirkni?

Eitt einkenni meðvirkni er „Ég breyti gildum mínum og heilindum til þess að forðast höfnun eða reiði annarra“. Kannast einhver við þessa fullyrðingu? Og ef svo er, hver vill standa upp og segja að það sé „bleikur fíll“ í stofunni? Hvort sem stofan er heima, í vinnunni á stjórnarheimilinu eða Alþingi?

Áfengis- og vímuefnaneysla er án efa eitt stærsta heilbrigðisvandamál okkar Íslendinga. Samantekt Hagstofunnar sýnir að það megi áætla að rúmlega einn einstaklingur látist í viku hverri af völdum beinnar eða óbeinnar neyslu. Annað sem er ekki síður alvarlegt er að samkvæmt bandarískum tölum eru það um 18% Bandaríkjamanna 12 ára og eldri sem drekka óhóflega. Enn aðrar tölur segja að í kring um hvern alkóhólista séu að meðaltali fjórir aðstandendur sem skaðast að einhverju leyti af fíklinum. Ef þessar tölur eru yfirfærðar á íslenskan veruleika þá erum við að tala um rúmlega 70% hlutfall aðstandenda/meðvirkra hér á landi. Ef þetta er raunin þá er stærri hluti þjóðarinnar haldinn meðvirkni á einhverju stígi. Sannleikann getum við sjálf séð ef við lítum í eigin barm og kringum okkur. Hvar sem er heima, í vinnu, hjá vinum og fleiri stöðum!

Hver kannast ekki við eitthvað af eftirfarandi lýsingum:

* Mér finnst ég algjörlega óeigingjarn og einarðlega helgaður velferð annarra.

* Ég er fram úr hófi trúr fólki og kem mér því ekki nógu fljótt úr skaðlegum aðstæðum.

* Ég gef öðrum ráð og leiðbeiningar óspurður.

* Ég á erfitt með að taka ákvarðanir.

Meðvirkni er sjúkdómur sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni, fyrirtæki, frama, heilsu og andlegan þroska. Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp. Meðvirkni tærir sálina oft án þess að við sjáum það sjálf. Meðvirkni er háttalag þar sem manneskja tekur ábyrgð á gjörðum annarra og hjálpar viðkomandi að forðast það að takast á við vandamálið á beinan hátt, gert til að viðhalda stöðugleika í samskiptum fjölskyldunnar. Meðvirkni byrjar sem eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Í meðvirkni missum við af eigin lifi, lifum fyrir aðra og hvað þeim finnst um okkur. Við lifum í stöðugri skömm og sektarkennd.

Engin meðferð er til á Íslandi fyrir meðvirka einstaklinga. Langtíma eftirfylgni og stuðning vantar. Opinber viðkenning á meðvirkni sem skaðandi og eyðileggjandi hegðun fyrir einstaklinga, fjölskyldur og þjóð vantar. Við erum inní miðju hvirfilbylsins og sjáum ekki eyðilegginguna utan við okkur.

Við sjáum ekki að meðvirkni er stærsta heilbrigðisvandamál Íslensks samfélags í dag og enginn þorir að viðurkenna það því þá þarf viðkomandi að horfa í eigin barm.

Við viljum ekki sjá þá sem þurfa og vilja þiggja þessa hjálp. Þeir hafa í fá hús að vernda. Því óttinn hjá þeim sem hafa völdin, óttinn við að líta í eigin barm og viðurkenna að við erum öll mannleg, með kosti og galla eins og aðrir, erum ekki meiri eða minni. Óttinn við að missa grímuna, missa hina ímynduðu fullkomnun, er svo mikill að þeir velja að sjá ekki þann gríðarstóra vanda sem heltekur samfélagið okkar. Vandinn er án nokkurs vafa gríðarlega stór og til að sporna við honum þarf fyrst og fremst að viðurkenna hann. Við þurfum að vera tilbúin að skoða okkur sjálf, vera tilbúin í að laga þá bresti sem há okkur hverju og einu. Enginn er mikilvægastur, engin skoðun réttari en önnur, aðeins sameiginlegir hagsmunir og löngun í gott líf getur leitt okkur áfram.

Mikilvægt er að við spurjum okkur eftirfarandi spurninga.

Er lífið ekki til þess að lifa því lifandi og í hamingju? Vantar eitthvað upp á það hjá mér? Hvað get ég gert til að breyta núverandi ástandi mínu og samfélagsins?

Percy er formaður stjórnar Lausnarinnar. Kjartan er framkvæmdastjóri Lausnarinnar