<h4>Íþróttamannvirki kosta 3 milljarða</h4>Ný sundlaug og stórendurbætt íþróttahús er þungur baggi fyrir Álftanes. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu sem unnin var fyrir eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að skuldbindingar vegna mannvirkjanna nemi þremur milljörðum króna. Álftanes leigir mannvirkin af Fasteign skv. samningi til 30 ára. Fasteign tilkynnti nýlega að leigan yrði lækkuð. Verði sú lækkun varanleg nema skuldbindingarnar 2,1 milljarði. Á myndinni má sjá að í gær var verið að lagfæra rennibrautina.

Íþróttamannvirki kosta 3 milljarða

Ný sundlaug og stórendurbætt íþróttahús er þungur baggi fyrir Álftanes. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu sem unnin var fyrir eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að skuldbindingar vegna mannvirkjanna nemi þremur milljörðum króna. Álftanes leigir mannvirkin af Fasteign skv. samningi til 30 ára. Fasteign tilkynnti nýlega að leigan yrði lækkuð. Verði sú lækkun varanleg nema skuldbindingarnar 2,1 milljarði. Á myndinni má sjá að í gær var verið að lagfæra rennibrautina. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Álftnesingar munu á næstu árum þurfa að greiða hærra útsvar og hærri gjöld til að greiða niður gríðarlegar skuldir og rekstrarhalla sveitarfélagsins. Það dugir þó ekki til.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

FJÁRHAGSLEG staða sveitarfélagsins Álftaness er kolsvört. Skuldir og skuldbindingar þessa fámenna sveitarfélags (2.500 íbúar) nema samtals 7,4 milljörðum króna, skv. skýrslu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Álftanes er komið í greiðsluþrot og getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Til að sveitarfélagið geti greitt laun og forgangskröfur og haldið úti lögbundinni þjónustu þarf það að fá sérstaka fyrirframgreiðslu úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Aðrar leiðir voru lokaðar því samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa tilraunir sveitarfélagsins til að fá lán úr Lánasjóði sveitarfélaga vegna lausafjárskorts mistekist og viðskiptabanki þess hefur lokað á alla fyrirgreiðslu.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er talið að útgjöld sveitarfélagsins þyrftu að minnka um 900 milljónir á næsta ári, miðað við sömu tekjur, ætti sveitarfélagið að standa undir skuldbindingum sínum. Þetta jafngildir nánast öllum launakostnaði sveitarfélagsins en hann var 760 milljónir árið 2008. Sama ár voru rekstrartekjur um 1,3 milljarðar.

Í ljósi tapreksturs upp á mörg hundruð milljónir á síðustu tveimur árum er vandséð hvernig hægt verður að rétta reksturinn af án þess að skuldir verðir gefnar eftir að verulegu leyti eða greiddar af öðrum.

Útsvar og gjöld hækka

Gera má ráð fyrir því að Álftnesingar standi frammi fyrir verulegum gjaldahækkunum og töluverðum niðurskurði á þjónustu.

Líklegt má telja að samgönguráðherra muni veita heimild til að útsvarið verði hækkað upp fyrir hámarkshlutfallið. Í mesta lagi má hækka útsvarið um 25% en telja má ólíklegt að sú heimild verði fullnýtt. Þá má búast við að önnur gjöld, s.s. fasteignaskattar, verði hækkuð.. Þegar Bolvíkingar fengu heimild til hækkunar var álagið 10%. Álagið á Álftnesinga gæti þó orðið hærra en sem því nemur enda er skuldastaðan þar sýnu verri og þar að auki getur sveitarfélagið ekki vænst aukinna tekna frá atvinnulífi líkt og Bolvíkingar, enda nánast engin atvinnustarfsemi sem fer þar fram.

Hrunið ekki rót vandans

Samgönguráðuneytið hefur ekki birt skýrslu eftirlitsnefndar sveitarfélaga um fjárhag Álftaness en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kemur þar fram veruleg gagnrýni á bæjarstjórnina sem er ekki sögð hafa brugðist af nægilegum krafti við taprekstrinum. Hann nam um 830 milljónum í fyrra og enn stefnir í að tapið verði nokkur hundruð milljónir, skv. heimildum Morgunblaðsins.

Þótt vandi bæjarfélagsins hafi versnað mjög við gengis- og efnahagshrunið er vandinn ekki til kominn vegna þess. Meðal annars má benda á að árið 2006, sama ár og bæjarstjórn ákvað einróma að ráðast í byggingu nýrrar sundlaugar og endurbæta íþróttahúsið með veglegum hætti, nam tap á rekstri sveitarfélagsins 332 milljónum króna.

Taprekstur í mörg ár

Tap á rekstri hafði reyndar verið langvarandi. Það er samt sérlega eftirtektarvert að í endurskoðunarskýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Grant Thornton vann fyrir árið 2006 kemur fram að í greinargerð fyrir fyrstu fimm mánuði ársins 2006 hafi fyrirtækið „bent forráðamönnum sveitarfélagsins á að bregðast strax við þeim rekstrarhalla sem við blasti“. Árið 2006 var fráveita Álftaness seld og um svipað leyti var samið við ýmsa aðila um uppbyggingu miðsvæðis sem átti að skila sveitarfélaginu „verulegum tekjum í formi lóðasölu og gatnagerðar“ segir í skýrslunni. Þrátt fyrir þessar aðgerðir sagði Grant Thornton að enn yrði að hagræða í rekstri.

Sjálfstæðismenn bókuðu reyndar sérstaklega að ekki væri hægt að sjá að leitað væri ýtrustu hagkvæmni við uppbyggingu íþróttamiðstöðvarinnar áður en þeir samþykktu framkvæmdirnar.

Bæjarstjórnin hefur bent á að aldurssamsetning íbúa sé óhagkvæm, þ.e.a.s. að hlutfallslega mörg börn séu í bæjarfélaginu og það kalli á aukin útgjöld til menntamála. Sveitarfélagið ætti með réttu að fá aukin útgjöld úr Jöfnunarsjóði.

Þau myndu þó hvergi duga til.

Í hnotskurn
» Þegar ákvörðunin um íþróttamannvirkin var tekin var Á-listinn við völd.
» Fyrir kosningarnar 2006 voru bæði Á- og D-listi með það á sinni stefnuskrá að byggja sundlaug og stækka íþróttahúsið.
» Það þarf því ekki að koma á óvart að framkvæmdirnar, sem nú eiga stóran þátt í að sliga bæjarfélagið, voru samþykktar einróma.

Sveitarfélagið fær frest til 20. janúar

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að Álftanes hafi nú frest til 20. janúar til að koma fjármálum sveitarfélagsins á réttan kjöl. Komi í ljós að greiðslubyrði lána sé of há sé hægt að skipa sveitarfélaginu svokallaða fjárhaldsstjórn. Þá komi til álita hvort heimild verði veitt til að hækka hámarksútsvar og fasteignaskatt.

Kristján segir aðspurður að staða Álftaness gefi aukið tilefni til þess að herða eftirlit með fjármálum sveitarfélaga og kanna hvort ástæða sé til að setja hámark á þær skuldir sem sveitarfélag getur safnað. Ætli mætti að hefðu slíkar reglur verið í gildi þegar til skuldanna var stofnað hefði mátt koma í veg fyrir vanda Álftnesinga. Vinna við að herða reglurnar hafi þó verið hafin áður en til þessa kom. „Og þar munum við herða á ákveðnum þáttum og ég mun í reglugerð gera sveitarfélögum skylt að skila rekstraryfirliti á þriggja mánaða fresti á næsta ári.“

Lækkað í Bolungarvík

Kristján segir að staða Álftaness sé vissulega alvarleg. Hann bendir þó á að þegar Bolvíkingar lentu í vandræðum í fyrra hafi 10% álag verið sett á hámarksútsvarshlutfall en þar hafi staðan batnað og nú sé búið að veita heimild til að lækka álagið í 5%. Nettóskuldir Bolungarvíkur nema 970 milljónum.