Anna Guðmundsdóttir
Anna Guðmundsdóttir
Eftir Önnu Guðmundsdóttur: "Alger óþarfi er að hræða foreldra og aðstandendur með gífuryrðum sem eiga ekki við rök að styðjast. Um leið og ekki er bruðlað er farið vel með allt."

ÉG ER lærður matreiðslumeistari og hef starfað á leikskóla í Reykjavík í 15 mánuði. Þegar ég kom til starfa ákvað ég að baka allt brauð sjálf á leikskólanum. Það kom ekki til vegna sparnaðar heldur gat ég tryggt börnunum hollt brauð, laust við sykur, rotvarnarefni og jafnvel egg og mjólk, ef því er að skipta. Ég nota íslenskt byggmjöl og fleira gott hráefni til að tryggja sem næringaríkast brauð fyrir börnin. Um leið er þetta ódýrara fyrir leikskólann.

Ég tók upp þann sið að hafa hafragraut á morgnana þrisvar í viku. Ég var ekki að spara. Hafragrautur er afskaplega góð undirstaða fyrir orkumikla krakka í byrjun dags. Hann er mun ódýrari en að kaupa morgunkorn. Þeir peningar sem til féllu vegna þessa og brauðbaksturs notum við svo til að kaupa meira af ferskum fiski. Þar erum við að prófa okkur áfram með ýmsar tegundir. Keilu, löngu og hlýra. Krökkunum finnst þetta spennandi og fá að sjá myndir af hinum ólíku tegundum. Þessi fiskur er hollur og mun ódýrari en aðkeyptur fullunninn fiskur.

Mér hefur leiðst að hlusta á og lesa þá umræðu sem nú fer fram um leikskóla borgarinnar. Auðvitað erum við að spara. Það er ekkert bruðl í leikskólum sem reknir eru fyrir útsvar borgarbúa. En það er líka alveg á hreinu að öryggi barnanna – á allan hátt – er í fyrirrúmi. Við hugsum ekki um annað en að tryggja þeim sem best atlæti og við gefum engan afslátt af næringargildi eða nokkru sem tengist velferð barnanna okkar.

Í þeirri umræðu sem nú er farin af stað er því jafnvel haldið fram að öryggi barnanna sé í hættu. Þetta er fjarstæðukennt og ég bið þá sem leggja orð í belg að haga umræðunni þannig að hún sé málefnaleg. Alger óþarfi er að hræða foreldra og aðstandendur með gífuryrðum sem eiga ekki við rök að styðjast. Um leið og ekki er bruðlað er farið vel með allt. Á því er mikill munur. Börnum er ekki skammtaður salernispappír. Börnin okkar fá nóg að borða og líka hollan mat. Umræða um aðhald má ekki fara í pólitískan hráskinnaleik þar sem börn og foreldrar eru einhver tæki og tól til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Stillum okkur og verum ábyrg í þessari umræðu. Hún snýst líka um starfsfólk leikskólanna sem allt er að gera sitt besta. Nú eins og áður.

Höfundur er matreiðslumeistari í leikskóla í Reykjavík.