Rithöfundurinn Christina Sunlay er með efni í aðra „Íslandsbók“.
Rithöfundurinn Christina Sunlay er með efni í aðra „Íslandsbók“.
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Mamma sagði mér alltaf að ég væri undir áhrifum frá íslenskum forfeðrum mínum, hún sá rithöfundinn í mér og þegar ég var barn sagði hún mér að frændur ömmu hefðu verið þekkt skáld á Íslandi og frásagnarlistin rynni í blóði mínu.“

Svo mælir bandaríska konan Christina Sunlay, en skáldsaga hennar, Freyjuginning ( The Tricking of Freya ), sem fjallar um bandaríska stúlku og heim íslensku forfeðranna í gegnum Gimli í Kanada, kom út í Bandaríkjunum fyrr á árinu og í íslenskri þýðingu hjá Bókafélaginu Uglu fyrir skömmu.

Öskjugos 1875 kveikjan

„Ein af fyrstu minningum mínum er af mömmu segja mér frá því að þegar afi var fimm ára vaknaði hann einn morguninn og gat ekki séð hönd sína fyrir framan sig vegna þess að himinninn var svartur af völdum Öskjugoss,“ rifjar Christina upp. Hún segir að þessi sýn hafi fylgt sér alla tíð. Afi sinn hafi flutt með fjölskyldu sinni til Vesturheims ári síðar og hún hafi viljað segja þessa sögu eins og hún ímyndaði sér hana, færa lesendur þannig inn í sinn draumaheim. „Ég vildi kynna lesendur mína fyrir stöðum sem þeir þekktu sennilega ekki, hinu ótrúlega Íslandi og hinni sérstöku kanadísk-íslensku menningu á Gimli.“

Christina heimsótti Gimli einu sinni og Ísland þrisvar til að afla sér upplýsinga og undirbúa ritun bókarinnar, en hún ólst upp í New York og kynntist ekki íslensku skyldfólki sínu fyrr en á þessu undirbúningsstigi. Hún kom fyrst til Íslands 1998 og var þá í 10 daga. Árið 2000 bjó hún í mánuð hjá ættingjum, sem hún hafði ekki séð áður, meðan hún stundaði íslenskunám við Háskóla Íslands og síðan var hún mánuð á Skriðuklaustri árið 2001. „Mamma sagði mér margar sögur af íslenskum ættmennum í Kanada og Norður-Dakóta, þar sem hún ólst upp, en ég hitti aldrei skyldfólk mitt af íslenskum uppruna fyrr en ég heimsótti Gimli og Winnipeg 1999,“ segir Christina, sem býr í Oakland í Kaliforníuríki.

Heiður

Christina fylgdi útkomu bókarinnar eftir með kynningum í Bandaríkjunum og Kanada, m.a. í San Francisco og Seattle, á Þjóðræknisþingi og Íslendingadegi á Gimli og í Winnipeg, og segir að bókin hafi fengið frábærar viðtökur. „Það er mikill heiður fyrir mig að bókin skuli hafa verið þýdd á íslensku og ég vildi óska að móðir mín væri á lífi svo hún gæti upplifað þetta,“ segir hún og gerir ráð fyrir kynningarferð til Íslands í sumar.

Af íslenskum ættum

EDITH Bjornson, móðir Christinu, fæddist í Winnipeg í Kanada 1924. Foreldrar hennar voru Ólafur Björnsson frá Gíslastöðum nálægt Egilsstöðum, sem flutti til Nýja Íslands 1876, og Sigríður Elínborg Brandson, sem fæddist í Görðum, Norður-Dakóta 1889. Foreldrar Ólafs voru Björn Pétursson alþingismaður og Ólafía Ólafsdóttir, systir Jóns Ólafssonar ritstjóra og Páls Ólafssonar skálds.

Sigríður Elínborg, sem var fjallkona á Íslendingadagshátíðinni 1932, var dóttir Jóns Brandssonar og Margrétar Guðbrandsdóttur sem bjuggu áður á Fremribrekku í Dalasýslu.