— Morgunblaðið/Golli
Eftir Ágúst Inga Jónsson aij@mbl.is LÍKLEGT er að jörð verði hvít víðast hvar um landið á aðfangadag, snjór fyrir norðan og austan og að minnsta kosti snjóföl sunnanlands og vestan.

Eftir Ágúst Inga Jónsson

aij@mbl.is

LÍKLEGT er að jörð verði hvít víðast hvar um landið á aðfangadag, snjór fyrir norðan og austan og að minnsta kosti snjóföl sunnanlands og vestan. Spár svo langt fram í tímann eru þó með öllum fyrirvörum og ef skil suður af landinu koma inn á landið á aðfangadag breytist veður fljótt.

Sibylle von Löwis, veðurfræðingur hjá Veðurstofu íslands, sagði í gær að spáð væri snjókomu fyrir norðan og austan um helgina. Reikna mætti með að lægð suðvestur af landinu kæmi með snjókomu eða él sunnan- og vestanlands á þriðjudag og miðvikudag.

Oftast alhvít jörð í höfuðborginni

„Nýjustu spákort sýna svo norðaustanátt og þá bjartviðri í Reykjavík með hitastigi um frostmark á aðfangadag. Ef skilin ná inn á landið getur fylgt þeim slydda eða rigning, en eins og staðan er núna er útlit fyrir að snjór verði fyrir norðan, en að minnsta kosti snjóföl suðvestanlands,“ sagði Sibylle. Ef skoðaðir eru fróðleiksmolar um jólaveðrið á vef Veðurstofunnar má sjá að frá árinu 1921 teljast 37 jóladagar á þessu 88 ára tímabili alhvítir í Reykjavík, þar á meðal tveir síðustu jóladagar. Miðað er við kl. 9 að morgni jóladags og getur snjóinn hafa tekið upp síðdegis í einhverjum tilvikum. Sextán sinnum hefur jörð verið flekkótt og þrjátíu sinnum hefur verið alautt að morgni jóladags.

Mestur snjór var árin 1979-1982 og aftur 1984 og svo voru hvít jól 1990 og 1992-1995. Árið 1982 mældist mesta snjódýptin, 29 sentimetrar.