Jólalegt Viðskiptavinir Fjölvals kynntu sér vörurnar frá Kosti.
Jólalegt Viðskiptavinir Fjölvals kynntu sér vörurnar frá Kosti.
Eftir Helga Bjarnason helgi@mbl.is „EF þetta heldur svona áfram verðum við að opna aðra búð,“ segir Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri matvöruverslunarinnar Kosts í Kópavogi.

Eftir Helga Bjarnason

helgi@mbl.is

„EF þetta heldur svona áfram verðum við að opna aðra búð,“ segir Jón Gerald Sullenberger, framkvæmdastjóri matvöruverslunarinnar Kosts í Kópavogi. Verslunin var opnuð fyrir mánuði og segir Jón Gerald viðskiptin jöfn og góð.

Jón Gerald er byrjaður að leita að húsnæði fyrir aðra verslun. Hún verði annað hvort á Ártúnshöfða eða í vesturbæ Reykjavíkur og verður hugsanlega opnuð á næstu mánuðum.

Vilja ódýrari vörur

Kostur er byrjaður að selja vörur út á land. Fyrsta sendingin er farin til Fjölvals á Patreksfirði. „Við viljum lækka vöruverðið úti á landi,“ segir Jón Gerald og bætir því við að góðir samningar hafi náðst við Eimskip um flutninga.

„Við finnum það, eftir að kreppan brast á, að fólk ásælist ódýrari vöru. Ef við getum ekki boðið hana fer fólk annað,“ segir Haukur Már Sigurðsson, kaupmaður í Fjölvali á Patreksfirði. Hann segist hafa komið að lokuðum dyrum hjá stóru verslanakeðjunum.

Haukur hefur lokið við að taka upp tilraunasendingu frá Kosti og segist þurfa að gera aðra pöntun. „Þetta kemur frábærlega út fyrir landsbyggðarfólkið sem aldrei fær að kaupa inn á tilboðum,“ segir Haukur Már. Hann segir algengt að vörurnar frá Kosti séu 20-40% ódýrari en sambærilegar vörur frá birgjum verslunarinnar og nefnir dæmi um meiri mun. Þetta skili sér að fullu í lægra vöruverði.