— Morgunblaðið/G.Rúnar
Eftir Örn Arnarson ornarnar@mbl.is SVO virðist sem Íslandsbanki, stærsti lánardrottinn Geysis Green Energy, sé að herða tök sín á félaginu. Tilkynnt var á mánudag að Alexander K.

Eftir Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

SVO virðist sem Íslandsbanki, stærsti lánardrottinn Geysis Green Energy, sé að herða tök sín á félaginu. Tilkynnt var á mánudag að Alexander K. Guðmundsson, fjármálastjóri GGE, tæki við stjórn félagsins af Ásgeiri Margeirssyni. Ástæða breytinganna er samkomulag um að leggja áherslu á eignasölu til þess að grynnka á miklum skuldum GGE. Sama dag var tilkynnt að Alexander yrði stjórnarformaður HS Orku auk þess að tveir aðrir stjórnarmenn voru skipaðir af Íslandsbanka í fimm manna stjórn félagsins í krafti 57% eignarhlutar GGE. Kanadíska jarðhitafyrirtækið Magma á 41% í HS Orku og þýðir því þetta að erlendir fjárfestar hafa undirtökin í félaginu með bæði beinum og óbeinum hætti, en eins og kunnugt er hafa erlendir kröfuhafar eignast meirihlutann í Íslandsbanka.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins skuldar GGE Íslandsbanka í kringum 25 milljarða. Um er að ræða lán í íslenskum krónum. Landsbankinn á einnig hagsmuna að gæta í félaginu vegna nauðasamninga Atorku, sem á 40% hlut í GGE. Í greinargerð sem var lögð fram með nauðasamningafrumvarpi Atorku á dögunum er sá eignarhlutur sagður vera að öllum líkindum lítils virði. Ástæðan fyrir því er að undirliggjandi verðmæti eigna GGE duga að öllu óbreyttu varla til þess að standa undir skuld félagsins við Íslandsbanka. Þess vegna þarf að koma til eignasölu.

Auk HS Orku eru helstu eignirnar Jarðboranir auk jarðhitaverkefna víða um heim. Viðmælendur blaðsins telja að erfitt gæti verið að selja innlendu eignirnar á næstunni. Forkaupsréttarákvæði í samþykktum HS Orku gætu flækt sölu hlutabréfa GGE í félaginu auk þess sem það hefur átt við fjármögnunarerfiðleika að stríða.

Eins og bent er á í áðurnefndri greinargerð hafa slíkir fjármögnunarerfiðleikar áhrif á horfurnar á verkefnastöðu hér á landi. Hinsvegar benti einn viðmælandi blaðsins á að eitthvað virtist hafa verið að rofa til í þessum geira að undanförnu.

Erlendum jarðvarmaverkefnum GGE hefur verið sýndur töluverður áhugi af erlendum fjárfestum að undanförnu og hefur félagið meðal annars selt sig úr slíkum verkefnum á árinu. Leiða má líkur að því að áframhald verði á þeirri þróun.

Hvort það dugar til þess að treysta stoðir GGE er óljóst enda er staðan afar erfið. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir 2008 nam eigið fé þess tæplega ellefu milljörðum króna. Ljóst má vera að hratt hefur gengið á það. Eins og Morgunblaðið sagði frá í sumar var gert mat á virði eigna og skulda GGE í lok mars og það hefði sýnt að eigið fé hefði þá einungis verið 650 milljónir króna.