Frábært framtak MIG langar að koma á framfæri jákvæðri frétt. Vélsmiðjan Héðinn býður öllum starfsmönnum sínum í þennan líka fína jólamat fyrir hver jól. Ég sá um mötuneytið fyrir fyrirtækið en hætti þar fyrir 10 árum, enda orðin 78 ára.

Frábært framtak

MIG langar að koma á framfæri jákvæðri frétt. Vélsmiðjan Héðinn býður öllum starfsmönnum sínum í þennan líka fína jólamat fyrir hver jól. Ég sá um mötuneytið fyrir fyrirtækið en hætti þar fyrir 10 árum, enda orðin 78 ára. Engu að síður er mér alltaf boðið ásamt öðrum fyrrverandi starfsmönnum, heldri mönnum eins og við erum kölluð. Mér finnst þetta alveg frábært framtak hjá Héðni og þakka kærlega fyrir mig.

Guðmunda Jónsdóttir.

Þakkir

ÉG vil þakka eftirtöldum læknum fyrir að bjarga mér í mínum veikindum: Þórði Eiríkssyni augnlækni fyrir að gera aðgerð á augum mínum þegar ég var að verða blindur, Friðriki Guðbrandssyni háls-, nef- og eyrnalækni fyrir að gera aðgerð á hljóðhimnunni, Guðmundi lýtalækni fyrir að gera aðgerð á andliti, en ég var með afmyndað andlit eftir líkamsárás, og Jóhannesi Bergsveinssyni geðlækni fyrir að hjálpa mér þegar ég bjó við andlegar þrengingar. Starfsfólki slysadeildar og bráðamóttöku Landsspítalans þakka ég hlýjar móttökur.

Við Íslendingar erum heppnir að eiga góða lækna, ég hef verið á sjúkrahúsum erlendis og læknisþónustan er mun betri hér. Heilbrigðiskerfið er til fyrirmyndar miðað við hvað litlir peningar renna til þess.

Jónas Gunnarsson.

Tapað/fundið

JÓLAKORT með mynd fannst á horni Barónsstígs og Grettisgötu. Kortið er stílað á Daða, Sillu, Lilju og junior Kristófer, en ekkert heimilisfang er meðfylgjandi. Ef einhver kannast við þessa lýsingu er hann beðinn um að hringja í síma 561-4268 eða 847-4759.

Svarað í síma 5691100 frá 10-12
velvakandi@mbl.is