[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Í frumvarpi til fjárlaga 2010 er gert ráð fyrir að framlög til framhaldsskóla lækki að meðaltali um 5,5% frá fjárlögum yfirstandandi árs eða um 848,3 milljónir króna.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Í frumvarpi til fjárlaga 2010 er gert ráð fyrir að framlög til framhaldsskóla lækki að meðaltali um 5,5% frá fjárlögum yfirstandandi árs eða um 848,3 milljónir króna. Gert er ráð fyrir 50% samdrætti í námsframboði í fjarkennslu og kvöldskólum, þjónusta við nemendur í 10. bekk grunnskóla verði felld niður og framlag til eignakaupa í framhaldsskólum helmingað. Þessar aðgerðir leiða til fækkunar um 820 ársnemenda í skólunum. Á móti koma ýmsar hækkanir og heildarframlögin lækka því alls um tæplega 400 milljónir króna, samkvæmt frumvarpinu, en lækkunin er mun meiri að sögn skólastjórnenda.

Í lögum um framhaldsskóla nr. 92 2008 segir að þeir sem eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs. Niðurskurðurinn á því ekki að bitna á þessum ungmennum en hætt er við að eldra fólk, sem vill fara í skóla, eigi ekki trygga skólavist að óbreyttu.

Sumarfjarnám blásið af

Fjölbrautaskólanum við Ármúla er gert að skera niður um tæplega 100 milljónir króna eða 12,4%. Gísli Ragnarsson skólameistari segir að í raun sé skerðingin, miðað við árið 2009, tæpar 170 milljónir eða um 18,4%. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verði ársnemendum skólans fækkað um 160 og kennslan skorin niður í fjarnámi sem því nemur. Sumarfjarnám verði sennilega lagt niður. Sl. sumar hafi um 1.200 nemendur verið í sumarfjarnámi sem jafngilti 95 ársnemendum.

Yfir 2.000 nemendur hafa verið í fjarnámi í FÁ á haust- og vorönn og hvergi fleiri. Gísli bendir á að þar hafi mörgum og mismunandi hópum verið þjónað, meðal annars atvinnulausu fólki, og því sé slæmt að þurfa að skera þar niður. „Þetta er ódýrt námsúrræði sem kostar mun minna heldur en dagskólinn,“ segir hann. Gísli segir að kennslustundum fækki mikið og þar af leiðandi verði erfitt að fylla kennsluskyldu kennara. Dregið verði úr yfirvinnu og þannig reynt að komast hjá uppsögnum. „Við reynum að verja störfin og höfum ekki sagt upp neinum um áramótin,“ segir hann. „Við munum reyna að deila kennslunni niður á næsta skólaári þannig að allir fái stöðu. Ekki er þó hægt að útiloka að einhverjir verði að sætta sig við skert stöðuhlutfall, en gert er ráð fyrir í rekstraráætlun að launakostnaður lækki um tæplega 124 milljónir eða um 14,8%.“

Auk fyrrnefnds er reynt að hagræða á öllum sviðum, að sögn Gísla. Hann segir að niðurskurðarhnífnum sé alls staðar beitt og í sumum tilfellum sé verið að fresta vandanum eins og til dæmis í sambandi við sum tækjakaup. Tekist hafi að fá lækkun á leigusamningum og rekstrarafgangur fyrri ára komi sér vel til að mæta erfiðri fjárhagsstöðu á þessu ári og því næsta.

350 færri nemendur

Kvöldskóli Fjölbrautaskólans í Breiðholti er fjölmennasti kvöldskóli landsins með um 700 nemendur. Framlag til kvöldskólans minnkar um 53,7 milljónir og það þýðir 50% fækkun nemenda frá áramótum, að sögn Guðrúnar Hrefnu Guðmundsdóttur skólameistara.

Ekkert fjarnám er í FB en ríflega 1.400 nemendur eru í dagskólanum og segir Guðrún Hrefna að minna framlag valdi skólanum miklum vandræðum. Almennum aðhaldsaðgerðum sé beitt, kennslumagn verði markvisst minnkað og reynt að spara á öllum sviðum. Eignakaup verði skert og það gangi í einhvern tíma en svo komi að því að endurnýja þurfi tölvubúnað og fleira. Í þriðja lagi minnki framlag til skólans um 5,6 milljónir vegna þjónustu við nemendur í 10. bekk og hún verði aflögð.

Samfara minna kennslumagni minnkar yfirvinna en Guðrún Hrefna gerir ekki ráð fyrir að þurfa að segja upp kennurum, að minnsta kosti ekki um áramót. Hún bendir á að samkvæmt lögum eigi hver nemandi rétt á ákveðnum einingafjölda og því sé erfitt að höggva í námsframboðið. Þá hafi skólinn tekið með sér 112 milljóna kr. halla inn á yfirstandandi skólaár og það auki enn á vandann.

Öldungadeild MH í uppnámi

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á framlag til Menntaskólans við Hamrahlíð að minnka um 10 milljónir króna, en Lárus H. Bjarnason, rektor MH, segir að vegna uppbóta vegna ófyrirséðra hækkana sem komu eftir á á líðandi ári en séu í frumvarpinu 2010 sé lækkunin í raun um 40 milljónir.

Ógnun við reksturinn

Niðurskurðurinn er ógnun við rekstur öldungadeildarinnar, að sögn Lárusar, en um 240 nemendur eru í deildinni. „Að óbreyttu hefði þetta þýtt niðurlagningu öldungadeildarinnar,“ segir hann, en vegna kipps í innritun og fjölgunar nemenda í hverjum námshópi sl. haust var ákveðið að bíða og sjá til um framhaldið eftir næstu önn.

Lárus segir að niðurskurðinum verði mætt með því að endurnýja lítið sem ekkert húsgögn og tækjabúnað á næsta ári og lækka launakostnað um 3-3,5%. Lækkuninni verði náð með því að fjölga nemendum í hópum að meðaltali, þ.e.a.s. fækka fámennari hópum, og með því að leggja niður einhver verkefni.

Nánast engar nýráðningar

Rekstrarafgangur á þessu ári mildi auk þess höggið á næsta ári en vonandi þurfi ekki að koma til uppsagna. Hins vegar verði nánast engar nýráðningar og sl. haust hafi hann til dæmis ekki kynnt neinn nýjan kennara til sögunnar. Það hafi ekki gerst síðan hann tók við starfi rektors 1998.

Verkmenntaskólinn verður að neita atvinnulausum

Rúmlega 1.200 nemendur eru í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Að auki stunda um 700 nemendur nám í fjarnámsdeild skólans, en þar verður að fækka um 300 til 400 nemendur vegna niðurskurðar menntamálaráðuneytisins.

Sigríður Huld Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari VMA, segir að framlag ríkisins til skólans breytist lítið í krónum talið á milli ára, en skólanum sé gert að fækka nemendaígildum (eitt nemendaígildi jafngildir 17,5 námseiningum). Hún segir að í fjarnámi hafi verið um 120 nemendaígildi en þau fari niður í 80 til 90 á næstu önn. Meiri niðurskurður myndi hreinlega drepa fjarnámið. Auk þess þurfi að hafna um 100 manns inn í dagskólann á næstu önn. „Svigrúmið til þess að taka inn nýja nemendur um áramót er mjög lítið,“ segir hún og bætir við að nemendum hafi fjölgað á hverju ári undanfarin ár.

Uppsagnir ekki sjáanlegar

Færri nemendur þýða minna kennslumagn. Kennslan í fjarnáminu hefur í flestum tilfellum verið aukavinna kennara við VMA eða aðra skóla og yfirvinna þeirra minnkar því við breytingarnar, að sögn Sigríðar Huldar. Uppsagnir séu hins vegar ekki sjáanlegar.

Vegna verknámsins þarf VMA meira rými og segir Sigríður Huld að skólinn njóti aukins rýmis í fyrsta sinn í sambandi við húsaleigubæturnar. Auk þess hafi skólinn fengið leiðréttingu vegna starfsbrautar fyrir fatlaða nemendur og verið sé að byggja við skólann fyrir brautina.

Samkvæmt fjárlögum eru öll búnaðarkaup dregin saman um 50%. Sigríður Huld segir það sérlega erfitt fyrir verknámsskóla, sem þarf að geta boðið nemendum upp á það sem er að gerast hverju sinni. Sparnaður í tölvukaupum hjálpi þó upp á stöðuna.

Sigríður Huld segir að þegar horft sé á atvinnuleysistölur og það sem búi að baki þeim megi sjá að unga fólkið sé án atvinnu, ómenntaða fólkið fái ekki vinnu og þegar þetta fólk banki á dyrnar neyðist skólinn til að segja nei. „Það er það skelfilegasta við þetta,“ segir hún. Hún bendir á að VMA hafi að jafnaði verið með um 10 nemendur frá Starfsendurhæfingu Norðurlands og þeir hafi staðið sig vel en nú sé skorið á þessa uppbyggingu. Þarna sé um eldri nemendur að ræða, flesta á aldrinum 25 til 35 ára, sem hafi fengið stuðning og styrk til þess að stunda nám við VMA, en nemendur yngri en 18 ára hafi forgang samkvæmt lögum. „Það er mjög vont að þurfa að segja nei við þetta fólk,“ segir hún.

Námið dregst

„Verði sumarfjarnámið lagt niður frestar það háskólanámi mínu,“ segir Hanna Margrét Úlfsdóttir, sem býr á Þórshöfn á Langanesi og er á sinni fimmtu önn í fjarnámi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hanna Margrét er í lausu lofti í fjarnáminu. Hún hafði hugsað sér að taka einn eða tvo áfanga eftir áramót og ljúka síðan stúdentsprófinu í sumar. „Ég verð sennilega eitthvað lengur að ljúka náminu, gangi niðurskurðurinn eftir,“ segir Hanna Margrét, sem starfar sem leiðbeinandi í grunnskólanum á Þórshöfn.
848,3

milljóna króna lækkun verður á framlögum til framhaldsskóla.

700

nemendum færra verður í kvöldskóla FB og fjarnámi VMA.

1.200

nemendur voru í sumarfjarnámi FÁ sl. sumar en það verður líklega lagt

Á morgun

Fjárveiting til háskólanna sjö lækkar um 1.343 milljónir króna og því þarf að hagræða þar eins og annars staðar í skólakerfinu.