Í Færeyjum Frá vinstri: Jógvan, Albert Jónsson, ræðismaður Íslands í Færeyjum, og Friðrik Ómar. Platan Vinalög hefur gert það gott þar í landi.
Í Færeyjum Frá vinstri: Jógvan, Albert Jónsson, ræðismaður Íslands í Færeyjum, og Friðrik Ómar. Platan Vinalög hefur gert það gott þar í landi.
ÞEIR félagar Friðrik Ómar og Jógvan Hansen eru þessa dagana í heimsókn í Færeyjum að fylgja eftir vinsældum plötunnar Vinalög sem hefur gert það gott bæði þar og á Íslandi.

ÞEIR félagar Friðrik Ómar og Jógvan Hansen eru þessa dagana í heimsókn í Færeyjum að fylgja eftir vinsældum plötunnar Vinalög sem hefur gert það gott bæði þar og á Íslandi.

„Við erum á lokahnykknum að fylgja plötunni eftir, hún er með söluhæstu plötunum hér og við heimsækjum sextán verslanir víðsvegar um eyjuna, syngjum fyrir gesti og áritum,“ segir Friðrik í símaspjalli við blaðamann frá Færeyjum.

Í gær heimsóttu Friðrik og Jógvan aðalræðismann Íslands í Færeyjum, Albert Jónsson, eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Á morgun halda þeir síðan stutt boð í sendiráði Íslands í Þórshöfn og þangað er öllu Íslendingafélaginu í Færeyjum boðið.

„Við höfum fengið rosalega góð viðbrögð hér og fólk syngur með okkur þar sem við erum að spila.

Okkar takmark náðist með plötuna og vel það, við höfum verið söluhæstir í báðum löndunum og komið laginu „Tú nart við hjartað á mær“ á toppinn í Færeyjum og nú er „Ég er á leiðinni“ („Eg eri enn á veg“) eftir Magnús Eiríksson mikið spilað hér,“ segir Friðrik. „Við eigum einnig í viðræðum við aðila á Grænlandi og í Danmörku um að gefa plötuna út þar. Við ætluðum ekkert víðar með plötuna en vinsældir hennar spyrjast út.“

Spurður hvort þeir séu farnir að huga að Vinalögum nr. 2 segir Friðrik að þeir séu með það á bak við eyrað en ætli nú að klára að fylgja fyrstu plötunni eftir áður en þeir fara að huga að þeirri næstu.

Friðrik og Jógvan koma aftur til Íslands á föstudaginn og verða víða um komandi helgi. „Við verðum með alla hljómsveitina í Norræna húsinu á sunnudaginn kl. 12. Svo verðum við á rúntinum á laugardaginn og sunnudaginn víða á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Friðrik að lokum.

ingveldur@mbl.is