Bergur Sigurðsson
Bergur Sigurðsson
Eftir Berg Sigurðsson: "Sjálfstæðismenn, sem voru gerendur í glæfralegri einkavæðingu bankanna og aðgerðalausir ráðherrar í ríkisstjórn hrunsins, reyna að endurrita söguna."

STJÓRNARANDSTAÐAN á Alþingi malaði vel og lengi um Icesave-málið án þess þó að margt nýtt kæmi fram í máli þeirra. Skammirnar dundu á ríkisstjórninni og orðaval einstakra þingmanna í þeim efnum vart sæmandi og verða gífuryrðin ekki höfð eftir í þessum pistli. Vissulega er Icesave-málið hið versta mál, um það eru allir sammála. En á hverju var von? Og við hverja er að sakast? Icesave gat aldrei orðið annað en ömurlegur og ósanngjarn baggi á þjóðinni, um það hafði vandlega verið séð af fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem lofaði því skýrt og skorinort að íslenska ríkið myndi sjá til þess að innistæðueigendur í Hollandi og Bretlandi myndu ekki tapa fjármunum. Þessi loforð voru gefin af þáverandi stjórnvöldum sem Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen voru í forystu fyrir. Alla tíð síðan hefur hlutverk ríkisstjórna og Alþingis fyrst og fremst verið að lágmarka tjónið.

Á fyrstu dögum hrunsins, strax þann 8. október 2008, sendi forsætisráðherra Geir H. Haarde frá sér yfirlýsingu þess efnis að ríkisstjórn Íslands mæti mikils að bresk stjórnvöld hafi í hyggju að tryggja að eigendur Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi muni ekki tapa peningum á viðskiptum við Icesave. Jafnframt er í yfirlýsingunni ítrekað að ríkissjóður Íslands „muni styðja Tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“ Hvað Holland varðar þá tók ríkisstjórnin af allan vafa um það þann 11. október 2008. Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu þann dag kom fram að náðst hafi samkomulag við Hollendinga sem feli í sér að Ísland muni ábyrgjast lágmarkstrygginguna en fjármunirnir, þ.e. innistæðurnar, verði „greiddar út í gegnum Hollenska seðlabankann sem síðan fái endurgreitt lánið frá Íslenska ríkinu.“ Þar með er það skjalfest og má öllum vera ljóst að ríkisstjórn Geirs H. Haarde hafði undirgengist það að borga Icesave-reikningana. Endanlega var frá fyrirkomulaginu gengið með þingsályktunartillögu þann 5. desember 2008 þar sem Alþingi fól „ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.“ Fyrrverandi ríkisstjórn fór fyrir tillögunni en þingmenn VG greiddu atkvæði á móti, enda vildi VG láta reyna á þjóðréttarlega stöðu landsins í kjölfar þess að Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum. Málið hefði mátt leiða til lykta með stjórnsýslukæru í kjölfar beitingu hryðjuverkalaganna en frestur til þess rann ónýttur út í byrjun janúar þessa árs. Þá sat enn að völdum ríkistjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Í þingræðu þann 28. nóvember 2008 sagði Bjarni Benediktsson, núverandi formaður Sjálfstæðisflokks, um kæruleiðir það vera „alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum.“ Ef marka má nýlegri þingræður Bjarna sést að hann hefur hringsnúist og nú hugnast honum illa sú leið sem lögð var upp af forvera hans. Þótt Bjarni og fleiri vilji nú skrifa söguna upp á nýtt hygg ég að þjóðin muni vel hverjir það voru sem komu okkur í vandann og vörðuðu í framhaldinu veginn dýpra ofan í svaðið.

Hlutur Davíðs og Dóra

Víkur næst að aðdragandanum. Hverjir voru það sem komu Landsbankanum í eigu vina sinna skv. helmingaskiptareglu sem leiddi af sér að Búnaðarbankinn, síðar Kaupþing, varð bráð svokallaðra „kjölfestufjárfesta“ sem voru nátengdir samstarfsflokknum? Jú svarið er Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Síðar færði nefndur Davíð sig yfir í Seðlabankann þar sem hann brást þjóð sinni í tvígang. Fyrst með því að leyfa vinum sínum í bönkunum að safna erlendum innlánum langt umfram það sem Tryggingasjóður innistæðueigenda gat ábyrgst og síðan með því að lána bönkunum út á svokölluð „ástarbréf“ haustið 2008 í stað haldbærra veða. Tapið vegna þessara lánveitinga Seðlabankans nam um 270 milljörðum og er að sögn Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, stærsta einstaka áfallið sem ríkissjóður varð fyrir vegna bankahrunsins.

Síðar varð Davíð ritstjóri Morgunblaðsins og vonast hann líklega til þess að þjóðin trúi þeim söguskýringum sem miðill undir hans stjórn hefur fram að færa um efnahagshrunið.

Úr hörðustu átt

Eftir að hafa verið gerendur í glæfralegri einkavæðingu bankanna 2002 og síðar aðgerðarlausir áhorfendur í ríkisstjórn hrunsins 2008, tala sjálfstæðismenn á Alþingi eins og Icesave sé viljaverk og óskabarn núverandi ríkisstjórnar. Málþófið á Alþingi minnir hvað helst á uppþot brennuvarga, sem grípa til þess örþrifaráðs að grýta slökkviliðið. Þjóðin þarf á vandaðri vinnubrögðum að halda til þess að komast úr þeim vondu aðstæðum sem nýfrjálshyggja og græðgi kom okkur í.

Höfundur er framkvæmdastjóri þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.