<strong>Íslandsmeistarar</strong> Haukakonur fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í kvennaflokki og KR-ingar í karlaflokki í körfunni.
Íslandsmeistarar Haukakonur fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í kvennaflokki og KR-ingar í karlaflokki í körfunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
2. apríl: Fimm leikja stríði milli deildarmeistara Hauka og bikarmeistara KR, um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna, lauk á Ásvöllum í Hafnarfirði.
2. apríl: Fimm leikja stríði milli deildarmeistara Hauka og bikarmeistara KR, um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik kvenna, lauk á Ásvöllum í Hafnarfirði. Haukakonur yfirgáfu vígvöllinn sigurreifar eftir sigur í fimmtu orrustunni, 69:64 „ Í þessu liði eru bara fjórar úr meistaraliðinu 2007. Þetta er auðvitað ótrúlegt. Sérstaklega með hliðsjón af því að við erum með svo ungt lið,“ sagði þjálfari Hauka, Yngvi Gunnlaugsson .

4. apríl: HK varð Íslandsmeistari í blaki kvenna í fyrsta skipti síðan 1995 þegar liðið lagði Þrótt frá Neskaupstað örugglega 3:0. HK-konur luku þar með frábæru tímabili með viðeigandi hætti en þær sigruðu þrefalt í vetur. Karen Björk Gunnarsdóttir er fyrirliði HK. „Ég var með miklar væntingar fyrir tímabilið og hafði trú á því að við gætum farið alla leið,“ sagði Karen.

6. apríl : „Þetta er langur tími, heill áratugur, og því tímabært að við næðum Íslandsmeistaratitlinum,“ sagði Valur Guðjón Valsson , uppspilari og fyrirliði blakliðs Þróttar í Reykjavík, eftir að liðið fagnaði Íslandsmeistaratitlinum. Það gerðu Þróttarar með því að leggja Stjörnuna úr Garðabæ 3:0 í öðrum úrslitaleik liðanna og vann Þróttur þá báða 3:0.

14. apríl: „Þessi Íslandsmeistaratitill er aðeins ljúfari en árið 2007. Mér finnst eins og þetta hafi verið „lokaverkefnið“ sem ég byrjaði á árið 1992 þegar ég var að þjálfa megnið af þessum strákum. Ég er rosalega stoltur af þessu liði og þetta var frábær úrslitakeppni,“ sagði Benedikt Guðmundsson , þjálfari KR, eftir 84:83 sigur KR í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn gegn Grindavík í körfuknattleik karla. Þetta var 11. Íslandsmeistaratitill KR.

20. apríl: Enn stenst enginn hérlendur skíðamaður Dalvíkingnum Björgvini Björgvinssyni snúning. Það sýndi sig á Skíðamóti Íslands. Hann sigraði af miklu öryggi í stórsviginu, sviginu og þar með í alpatvíkeppni, og loks í keppni í samhliðasviginu.

Systurnar Íris og María Guðmundsdætur hirtu öll gullverðlaunin sem í boði voru í alpagreinum. Íris vann stórsvigið, María svigið og Íris samhliðasvigið. María sigraði í alpatvíkeppni.

23. apríl: Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska handknattleiksliðinu Kiel fögnuðu meistaratitlinum fimmta árið í röð. Þetta var fyrsti Þýskalandsmeistaratitill Alfreðs með Kiel.

27. apríl: Þorvaldur Blöndal fagnaði Íslandsmeistaratitlinum í +100 kg flokki á Íslandsmótinu í júdó en hann keppir fyrir Ármann.

Anna Soffía Víkingsdóttir sigraði í opnum flokki kvenna og -70 kg. flokknum.