Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur
khk@mbl.is
Við erum afskaplega þakklát fyrir hversu landsmenn hafa tekið jólaóróanum okkar vel, og líka kærleikskúlunni. Það skiptir miklu máli fyrir starf í þágu fatlaðra barna,“ segir Berglind Sigurgeirsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra.
„Við höfum fengið færustu listamenn landsins til að leggja okkur lið í þessum efnum og þeir hafa ævinlega tekið vel í beiðni okkar og gefa alla sína vinnu. Þetta árið sá Hrafnkell Birgisson um að hanna Ketkróksóróann en Gerður Kristný orti ljóð um karlinn, sem fylgir með honum bæði á íslensku og ensku. Þetta er sérlega skemmtilegt ljóð með erótísku ívafi.“
Öll jólasveinafjölskyldan
Berglind segir að í fyrra hafi Grýla orðið að óróa hjá þeim, þar áður var það Hurðaskellir en sá fyrsti var Kertasníkir. „Við stefnum að því að einn úr jólasveinafjölskyldunni verði til á hverju ári í höndum nýrra listamanna þar til allur hópurinn hefur orðið að jólaóróa. Þannig hafa þeir söfnunargildi um leið og fólk leggur góðu málefni lið,“ segir Berglind en allur ágóði af sölu jólaóróanna rennur til uppbyggingar og þróunarstarfs Æfingastöðvarinnar þar sem fram fer umfangsmesta sjúkra- og iðjuþjálfun barna á landinu, en hún er fyrir börn með sérþarfir. „Á Æfingastöðinni starfa á þriðja tug sjúkra- og iðjuþjálfa sem veita árlega um 850 börnum þjónustu og mörg barnanna koma í þjálfun nokkrum sinnum í viku.“
Fingraför mannanna
Ketkrókur fær heiðurinn af því þetta árið að prýða hið rómaða Oslóarjólatré Reykvíkinga en frá því óróar Styrktarfélagsins hafa verið búnir til hafa þeir verið eina skrautið, utan jólaljósanna, sem prýða það. Berglind segir það því ævinlega stóra stund fyrir félagið þegar kveikt er á trénu.En hún er ekki síður ánægð með Kærleikskúlurnar sem íslenskir listamenn hafa hannað fyrir félagið undanfarin ár. „Í ár er það Hreinn Friðfinnsson sem hefur tekið að sér að hanna kúluna sem heitir Snerting og er með marglitum fingraförum. Þetta er sjöunda kúlan frá okkur en Erró reið á vaðið með fyrstu kúluna árið 2003 og síðan hafa meðal annars heimsfrægir listamenn eins og Ólafur Elíasson hannað kúluna.“
Sumarbúðirnar mikilvægar
Berglind leggur áherslu á að þeir sem kaupi jólakúlurnar eða óróana séu með því að gefa fötluðum börnum á Íslandi gjöf.„Allur ágóði af sölu jólakúlunnar rennur til rekstrar sumarbúða í Reykjadal fyrir fötluð börn og þar dvelja þau líka um helgar yfir veturinn. Þeir sem njóta góðs af sumarbúðunum eru krakkar frá sex ára aldri og alveg upp í rúmlega tvítuga einstaklinga. Þarna er alltaf mikið fjör og allir njóta dvalarinnar og er hún þessum krökkum og fjölskyldum þeirra afar mikilvæg.“
Fyrsta færeyska kærleikskúlan
Berglind segir að Styrktarfélagið sé á vissan hátt komið í útrás, því Færeyingar hafa fengið góðfúslegt leyfi til þess að framleiða kærleikskúlu í Færeyjum og rennur ágóðinn af sölu hennar til Dugni, sem er verndaður vinnustaður þar í landi. „Tróndur Patursson, einn þekktasti listamaður Færeyinga, skreytti færeysku kúluna, sem er undurfalleg. Á henni synda hvalir og innan í henni er vatn. Sala kúlunnar hefur gengið framar vonum og er hún nánast uppseld í Færeyjum. Hugmyndin er að stofna sameiginlegan sjóð þar sem ákveðin prósenta af sölu kærleikskúlnanna í Færeyjum og íslensku kúlunnar hér heima renni í sjóð til að styrkja fötluð börn í þróunarlöndunum. Fötluð börn í þeim löndum eiga mjög erfitt en oft þarf lítið til þess að þau spjari sig. Hjálpartæki, til dæmis bara gleraugu, geta breytt lífi barna þar til muna.“Vert er að benda á að Kærleikskúlan er gerð í takmörkuðu upplagi og sölutímabil hennar sem og jólaóróans rennur út næstkomandi laugardag.
Fæst í gjafavöruverslunum víða um land.
Sjá nánar á: www.slf.is.
Jól með jólaóróa
Ketkrókur kemst í feitt
Norðanbálið hamast
svo hvorki heyrist
spunahljóð né spjall.
Húsbændur loka að sér
í rekkjunni.
Engin leið að vita
hvort það er ástin eða óveðrið
sem lætur allt leika á skjálfi.
Heimasætan grúfir sig
yfir askinn,
slafrar í sig lambi
og laumast til að góna á
nýfermdan niðursetninginn.
Það sem menn stælast
af dúntekju og dagróðrum!
Svo er bitinn búinn
en meira bíður
inni í eldhúsi.
Göngin fyllast af
forvitnum draugum
(aðallega fyrri ábúendur
og stöku útburður).
Stúlkan olnbogar sig
að hlóðunum
og lyftir upp lokinu.
Þá berst brölt af sperru,
spyrnt er í háfinn.
Krókur sígur
niður úr kófinu,
glampandi öngull
í myrkurhyl.
Sterklegar greipar
ljúkast um færið.
Stúlkan bregst skjótt við,
handtökin snör eftir
spuna og gegningar.
Hún grípur krókinn
og festir við klukku og kot.
,,Hirtu ekki um kjötið!
Steldu mér!
Ég er steini léttari!“
Gerður Kristný.