Sigdór Ólafur Sigmarsson fæddist 1. ágúst. 1927. Lést á Landspítalanum Landakoti þann 5. desember sl. Foreldrar Sigdórs voru Sigfús Sigmar Sigurðsson vélstjóri og sjómaður f. 25. 04. 1904, d. 23.03. 1935 og Jóhanna Torfhildur Þorleifsdóttir húsmóðir f. 04.04.1905, d. 17.03.1979. Systkyni Sigdórs eru Sigþór Sigmarsson f. 17.06.1929, d. 25.07.1954, Guðmundur Ingvar Sigmarsson vélstjóri f. 17.11.1930 og Sigrún Margrét Sigmarsdóttir sjúkraliði, f. 29.01.1935. Árið 1955 giftist Sigdór Önnu Jónu Loftsdóttur f. 22.08. 1930, d. 15.03. 1986 en þau skildu 1962. Börn Sigdórs og Önnu Jónu eru : Hafdís Sigdórsdóttir f. 14.06.1952, d.16.08.2009, Jóhann Sigfús Sigdórsson , f. 19.04.1956, Loftur Sigdórsson, f. 14.03.1957, Dagbjört Hanna Sigdórsdóttir, f. 28.01.1960 og maki hennar er Jónas Jóhannesson. Samtals átti Sigdór 12 barnabörn og 14 barnabarnabörn. Sigdór Ólafur Sigmarsson fæddist á Neskaupsstað og ólst þar upp. Hann stundaði þar barnaskóla og flutti svo til Hafnafjarðar 1956 og svo til Reykjavíkur. Sigdór stundaði nám í Sjómannaskólanum í Reykjavík og útskifaðist þaðan árið 1951 með fiskimannapróf 2. Stig. Sigdór stundaði almenn sveitastörf, var við beitningu og í fiskivinnslu á unglisárunum sínum. Hann fór tvítugur á togara og var til sjós í alls fimmtíu ár, sem háseti, stýrimaður og skipstjóri á hinum ýmsum skipum. Hann vann í fimmtán ár á hafrannsóknaskipum og gerði svo út sinn eigin bát síðustu starfsárin sín. Sigdór verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag þriðjudaginn 15. desember kl. 13: 00. Jarðsett verður frá Norðfjarðarkirkjugarði miðvikudaginn 16. desember kl. 14: 00.

Mig langar að minnast frænda míns, Sigdórs Sigmarssonar.  Við erum systkinabörn og ber ég nafn föður hans.  Faðir Sigdórs lést frá konu sinni Jóhönnu og fjórum börnum þeirra.   Þau eru  Sigdór, Sigþór, Guðmundur og Sigrún.  Sigdór og Sigrún voru alin upp hjá afa okkar og ömmu, Sigurði Þorleifssyni og Halldóru Davíðsdóttur í Steinsnesi í Neskaupsstað.

Á fyrstu árum ævi minnar var heimilisfólkið  í Steinsnesi, sem var mitt annað heimili, amma, afi, frændfólk mitt Sigdór, Vilhjálmur og Sigrún. Ég naut þess í ríku mæli að vera litla barnið á heimilinu, ekki síst fyrir tilstilli frænda minna, Sigdórs og Vilhjálms.  Frá þessum árum á ég margar góðar minningar.  Þar réð glaðværð ávallt ríkjum en alvara lífsins var ekki langt undan.

Ungir drengir fóru snemma að stokka upp og beita línu.  Þannig var því varið með Sigdór frænda að hann þurfti snemma að fara að vinna fyrir sér.  Sjómennskan varð hans ævistarf.  Hann aflaði sér snemma skipsstjórnarréttinda og nýtti sér þau sem skipstjóri,  stýrimaður og í eigin útgerð.  Sigdór var fjölfróður um margt, ekki síst sjávarútveg.

Meðan Sigdór bjó fyrir austan og sigldi á togurum og bátum mundi hann ævinlega eftir litlum frænda sínum og þannig hefur það verið alla tíð.  Hann fylgdist með mér og hringdi til mín reglulega en það verður víst ekki þannig um þessi jól.  Sigdór frændi minn var farsæll sjófarandi og það veður hann örugglega á því hafi sem hann siglir nú.

Takk fyrir allt og hafðu það sem allra best!

Sigmar Björnsson.