Tókst Fjóla Dögg náði markmiði sínu í Sydney.
Tókst Fjóla Dögg náði markmiði sínu í Sydney.
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Á AÐFANGADAG mun Fjóla Dögg Helgadóttir paufast upp hlíðar Kilimanjaro, hæsta fjalls Afríku.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Á AÐFANGADAG mun Fjóla Dögg Helgadóttir paufast upp hlíðar Kilimanjaro, hæsta fjalls Afríku. Á meðan flestir Íslendingar borða jólamatinn og kíkja í jólapakka mun Fjóla Dögg takast á við súrefnisskort sem fylgir svo mikilli hæð og ekki er ólíklegt að hún þjáist af magakveisu á leiðinni.

Með Fjólu Dögg verður kærasti hennar Neil Yager.

„Á Þorláksmessu verðum við vakin um klukkan eitt um nóttina og svo verðum við að labba allan aðfangadag upp á topp,“ segir hún.

Á toppinn fyrir þrítugt

Þau kaupa ferðina af afrískri ferðaskrifstofu og er allur matur innifalinn, þó hvorki hamborgarhryggur né smákökur. Aðspurð um tildrög fjallgöngunnar segist Fjóla Dögg hafa sett sér ýmis markmið sem hún ætli að ná fyrir þrítugsafmælið hinn 5. apríl næstkomandi, s.s. að hlaupa maraþon undir fjórum tímum, ljúka doktorsritgerð í sálfræði og klífa Kilimanjaro.

Hún hljóp Sydney-maraþonið á 3:54 í september, stefnir á að klára doktorsritgerðina 1. apríl og standa á tindi Kilimanjaro á aðfangadag. Á hinn bóginn hefur dregist að læra ítölsku og kóresku. „En það verður bara gert fyrir 35 ára afmælið,“ segir hún.

Tengsl sálfræði og hjátrúar

Liður í framhaldsnámi Fjólu Daggar sem hún vinnur undir leiðsögn hjá Háskólanum í Sydney er að rannsaka hjátrú á Íslandi og hvernig ýmsir sálfræðilegir þættir hafa áhrif á hana.

Árið 2007 lagði hún fyrir könnun á netinu þar sem Íslendingar voru beðnir að svara ýmsum spurningum sem að þessu lúta. Margt hefur breyst síðan og nú vill hún kanna hvort hrunið hafi haft áhrif á rannsóknarefnið.

Könnunin er gerð undir nafnleynd og því óskar Fjóla Dögg eftir að fólk sem tók þátt í rannsókninni árið 2007 svari könnuninni aftur sem og aðrir sem hafa áhuga á því að taka þátt í henni í ár. Þeir sem svara fá þátttökunúmer sem þeir geta notað til að sjá hvernig þeir standa miðað við niðurstöðurnar þegar þær liggja fyrir. Könnunin er á vefnum: www.fjola.com.au.