24. desember 2009 | Innlendar fréttir | 214 orð | 1 mynd

Halda áfram að safna

Indefence stefnir á fund með forseta

Eiríkur S. Svavarsson
Eiríkur S. Svavarsson
INDEFENCE hópurinn mun safna undirskriftum undir áskorun til forseta Íslands um að hann staðfesti ekki lögin um Icesave-samningana þar til þriðju og síðustu umræðu um málið lýkur, væntanlega milli jóla og nýárs. Eiríkur S.
INDEFENCE hópurinn mun safna undirskriftum undir áskorun til forseta Íslands um að hann staðfesti ekki lögin um Icesave-samningana þar til þriðju og síðustu umræðu um málið lýkur, væntanlega milli jóla og nýárs. Eiríkur S. Svavarsson, einn af talsmönnum Indefence-hópsins, segir að hópurinn vilji fá tækifæri til að fara efnislega yfir málið með forsetanum. Hópurinn vilji fara yfir hvernig fyrirvörum við ríkisábyrgðina hafi verið breytt síðan þá. „Við viljum fara yfir hvernig fyrirvörunum hefur verið breytt einkum í ljósi þess að þegar forsetinn staðfesti lögin 2. september þá gerði hann það með sérstakri skriflegri yfirlýsingu þar sem hann vísaði til fyrirvaranna. Og það er ekki hægt að álykta út frá þessari yfirlýsingu, eins og hún er orðuð, öðruvísi en að lögin hefðu ekki fengið staðfestingu ef þessir fyrirvarar væru ekki í lögunum. Nú er búið að breyta þeim mjög mikið.“ Álit Mishcon de Reya staðfesti að fyrirvararnir séu útþynntir. Samkvæmt upplýsingum frá forsetaembættinu verða forsetahjónin á landinu yfir hátíðirnar.

Lýkur líklega 29. desember

Um 35.000 manns hafa skrifað undir yfirlýsinguna á vefnum www.indefence.is. Eiríkur segir að undirskriftum hafi fjölgað hægt síðustu daga fyrir jól, eins og vonlegt sé, en hann vonast til að fleiri muni skora á forsetann þegar líður að lokum umræðunnar á Alþingi. Eiríkur gerir ráð fyrir að þriðja umræða verði stutt. runarp@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.