12. janúar 2010 | Íþróttir | 496 orð | 1 mynd

Stigametið hjá John Johnson stendur enn

*Páll Axel og Valur Ingimundarson deila „Íslandsmetinu“ í stigaskorun

Góður Páll Axel Vilbergsson skoraði 54 stig og jafnaði „Íslandsmet“ Vals Ingimundarsonar. John Johnson á enn stigametið í úrvalsdeild, 71 stig.
Góður Páll Axel Vilbergsson skoraði 54 stig og jafnaði „Íslandsmet“ Vals Ingimundarsonar. John Johnson á enn stigametið í úrvalsdeild, 71 stig. — Morgunblaðið/Kristinn
Páll Axel Vilbergsson jafnaði stigamet í efstu deild karla hjá íslenskum leikmönnum þegar hann skoraði 54 stig í 124:85 sigri Grindvíkinga gegn Tindastóli á sunnudag.
Páll Axel Vilbergsson jafnaði stigamet í efstu deild karla hjá íslenskum leikmönnum þegar hann skoraði 54 stig í 124:85 sigri Grindvíkinga gegn Tindastóli á sunnudag. Valur Ingimundarson og Páll Axel deila nú metinu fyrir íslenska leikmenn en Bandaríkjamaðurinn John Johnson á stigametið, 71 stig, frá því í nóvember 1979.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

„ÉG hef lítið velt þessu fyrir mér á undanförnum árum, en ég skoraði 41 stig þegar ég var 18 ára og Jón Kr. Gíslason var með okkur í Grindavík,“ sagði Páll Axel við Morgunblaðið í gær þegar hann var inntur eftir því hvort hann hefði vitað af tilvist stigamets Vals Ingimundarsonar. Páll Axel lék í 35 mínútur af alls 40 en til samanburðar lék Valur í 55 mínútur þegar hann skoraði 54 stig fyrir Tindastól í 141:134 tapleik gegn Haukum árið 1988.

„Úrslit leiksins voru nánast ráðin þegar ég fór útaf þegar um 7 mínútur voru eftir. Þá var ég búinn að skora 46 stig og ég var ekkert að stressa mig á framhaldinu. Friðrik (Ragnarsson) þjálfari bað mig síðan að fara inná aftur. Ég held að hann hafi ekkert verið að velta þessu meti fyrir sér. Ég gerði það reyndar ekki heldur og ég skoraði ekki stig síðustu þrjár mínúturnar. Svona eftir á að hyggja þá hefði ég átt að taka allavega eitt sniðskot til viðbótar eða tæknivítin sem við fengum þarna undir lokin. Annars held ég að Valur Ingimundarson hafi unnið meira afrek en ég. Hann skoraði 54 stig í spennandi og jöfnum leik. Leikurinn gegn Tindastóli var ekki mjög spennandi,“ sagði Páll Axel en skotnýting hans var frábær. Hann hitti úr 8 af alls 11 tveggja stiga skotum sínum (73%), 10 af alls 18 þriggja stiga skotum hans fóru rétta leið (56) og hann hitti úr 8 af alls 12 vítaskotum (67%).

Þegar Valur Ingimundarson skoraði 54 stig lék hann 55 mínútur, en venjulegur leiktími er 40 mínútur. Hann lék því 20 mínútum lengur en Páll Axel. Skotnýting Vals var einnig góð. Hann hitti úr 14 af alls 18 tveggja stiga skotum sínum (77,8%), 2 af alls 6 þriggja stiga skotum Vals fóru ofaní (33,3%) og hann tók alls 22 vítaskot og 20 þeirra fóru ofaní (91%)

Aðeins þrír íslenskir leikmenn hafa náð að rjúfa 50 stiga múrinn í leik í efstu deild karla og þetta er í annað sinn á þessari leiktíð sem það gerist. Marvin Valdimarsson skoraði 51 stig fyrir Hamar gegn FSu þann 18. október s.l. í 111:74 sigri Hamars.

Johnson lék sér að Gísla

Stigametið í úrvalsdeildinni á bandaríski leikmaðurinn John Johnson en hann skoraði 71 stig fyrir Fram í 104:92 sigurleik gegn ÍS 17. nóvember árið 1979.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um leikinn segir m.a: „Það var nokk sama úr hvernig færum Johnson reyndi körfuskot í þessum leik, hálfdottinn og aðþrengdur, undir körfu eða utan af velli, allt fór ofaní körfuna...Gísli Gíslason hafði það hlutverk að gæta Johnson, en hafði ekki erindi sem erfiði.“ Umræddur Gísli er fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi og núverandi framkvæmdastjóri Faxaflóahafna.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.