Snortinn Tom Matthews varð hugfanginn af Íslandi fyrir einu og hálfu ári. Hann fluttist þá óðar búferlum og býr nú í Reykjavík.
Snortinn Tom Matthews varð hugfanginn af Íslandi fyrir einu og hálfu ári. Hann fluttist þá óðar búferlum og býr nú í Reykjavík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Í KVÖLD og á morgun munu tveir breskir gítarleikarar spila á Rósenberg, þeir Tom Hannay og Clive Carroll. Á laugardeginum slæst svo Íslendingurinn Böddi í hópinn.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Í KVÖLD og á morgun munu tveir breskir gítarleikarar spila á Rósenberg, þeir Tom Hannay og Clive Carroll. Á laugardeginum slæst svo Íslendingurinn Böddi í hópinn.

Tildrög tónleikanna eru allsérstök, að maður tali nú ekki um sögu Toms, sem flutti hingað til lands fyrir einu og hálfu ári. Hann hafði komið á tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður um páskana 2008 og kolféll fyrir landi, þjóð – en fyrst og síðast tónlistinni.

„Eftir því sem leið á hátíðina varð ég sannfærðari um að hingað ætti ég að flytja,“ segir Tom. „Ég var staðráðinn í að koma hingað aftur og búa til tónlist. Og vonandi fæ ég einhvern tíma tækifæri til að spila á þessari frábæru hátíð.“

Bara fötin sem hann var í

Tom býr í miðbæ Reykjavíkur en móðir hans á ennfremur hús í Bolungarvík, nálægt þeim slóðum sem upphaflega hrifu hann.

„Ég hef tekið nokkur gigg þar. Ég er svo í vinnu í Reykjavíkinni til að eiga í mig og á og þess á milli sinni ég tónlistarsköpun. Þegar ég kom hingað átti ég bara fötin sem ég var í. Ég var ekki með vinnu og engin lög heldur. Ég var bara nýbyrjaður að sýsla í tónlist, og kunni varla á gítarinn. Svo gerðist allt mjög hratt. Ég fékk vinnu, er kominn með kærustu og hef samlagast stemningunni hérna afskaplega vel.“

Clive Carroll kemur hingað á vegum Toms, en hann þekkir hann ekkert persónulega þó.

„Hann er einfaldlega uppáhaldsgítarleikarinn minn. Ég sendi honum tölvupóst og spurði hvort hann væri til í að koma. Og hann hélt nú það...“

„Vissi ekkert hver þetta var“

CLIVE Carroll er gítarleikari og tónskáld og hefur snert á hinum margvíslegustu þáttum tónlistarinnar. Hann hefur t.d. unnið nokkuð af kvikmyndatónlist, þar á meðal í samvinnu við eina helstu goðsögn enskrar þjóðlagatónlistar, John Renbourn, en þeir sömdu tónlist við myndina Driving Lessons . Þá hefur Carroll einnig farið í nokkur hljómleikaferðalög með Renbourn. Auk þessa heldur hann reglulega tónleika með hinum og þessum hljómlistarmönnum, úr hinum margvíslegustu geirum og þrjár sólóplötur eru nú að baki. Auk þess kennir hann masterklassa í nútímatónlist, heldur námskeið um írska þjóðlagatónlist í Irish World Music Centre í Limerick og stýrir gítarvinnubúðum í heimaþorpinu sínu. Mörg gítarjárn í eldi semsagt.

„Ég ólst upp við þjóðlagatónlist á heimilinu,“ segir Tom við blaðamann.

„Á unglingsárum tók ég svo út rokkskeiðið og reyndi að spila eins hratt og Steve Vai og Joe Satriani. En svo fannst mér ég þurfa að taka tónlistina föstum tökum og skráði mig í nám við Trinity College í London 1998 (þaðan sem hann útskrifaðist með hæstu einkunn). Þar komst ég í kynni við sígilda og nútímatónlist.“

Carroll segir að ferill sinn hafi þannig einkennst af mikilli margbreytni. Hugur hans stendur þó mikið til eigin lagasmíða, og hefur hann verið að fjölga þeim jafnt og þétt á plötum sínum.

„Þar ægir saman ýmsum stílum. Þetta er ekki ósvipað því sem Ry Cooder er að gera, býst ég við.“ Hann segist svo hafa rekið í rogastans þegar hann fékk tölvubréfið frá Tom.

„Ég vissi ekkert hver þetta var. En boðinu fagnaði ég. Það tók mig u.þ.b. tvær sekúndur að hugsa mig um. Mig hefur alltaf dreymt um að koma hingað, þetta er dularfull ævintýraeyja í huga margra og vonandi næ ég að sjá eitthvað af henni.“

En á hverju geta gestir Rósenberg svo átt von?

„Ég er ekki viss. Kannski ég spili smá miðaldatónlist, Deltablús og svo eitthvað af eigin smíðum. Ég ætla bara að sjá til hver stemningin verður.“