Guðný Stefánsdóttir fæddist 16. apríl 1917 að Kálfafellsstað í Suðursveit. Hún lést fimmtudaginn 7. sl. Að hjúkrunarheimilinu Eir Grafarvogi. Foreldrar hennar voru Stefán Jónsson, hreppstjóri og bóndi á Kálfafelli, og kona hans Kristín Eyjólfsdóttir. Börn þeirra hjóna voru fimm sem á legg komust, þau voru í aldursröð: Eyjólfur Júlíus, bóndi og organisti í Suðursveit og á Höfn, f. 14. júlí 1905, d. 31.1. 1994, Steinn Jósúa, skólastjóri og organisti á Seyðisfirði, Ingunn Þyri Regína, Bríet Magnea, húsmóðir í Borgarhöfn og á Höfn og Guðný Ólafía, húsmóðir og símamær á Akranesi og í Reykjavík. Guðný kvæntist Halli Björnssyni frá Reykjum í Mjóafirði f.10.12.1913, d.01.02.1959. Börn þeirra eru: 1)Kristín f.30.06.1941, d. 14.09.2005. Kristín var þrígift og börn hennar eru: a)Hallur, b)Kristrún Birna, c)Dagný, d)Guðni Þór, e)Vernharður Sveinn og f)Þórunn Kristín. 2)Björn Stefán Hallsson f.08.08.1949 maki Jarðþrúði Rafnsdóttur 11.01.1951. Börn þeirra eru: a)Björn Agnar, b)Hallur Andri, c)Eiríkur Róbert. 3)Edda Hlín Hallsdóttir f.03.10.1951 maki Finnbogi Gústafsson 22.08.1952 börn: a)Halla, b)Elma, c)Agnes Ösp, d)Jökull. Barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn Guðnýjar eru 21 talsins. Ævistarf Guðnýjar var talsímakona hjá Landsíma Íslands. Hún dvaldi síðustu 15 ár ævi sinnar á Hjúkrunarheimilinu Eir. Útför Guðnýjar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, föstudaginn 15. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 11.

Elsku amma mín, margar fallegar stundir átti ég með þér bæði meðan heilsu þinnar naut og einnig eftir að þú veiktist og þurftir aðstoð við ýmsar daglegar athafnir. Þú varst sannkölluð heimskona sem þótti gaman að lesa, ferðast og heiðra náttúruna bæði hér heima og erlendis. Tónlistarunnandi varstu og hafðir gaman af að spila á orgel og söngst alveg fram í andlátið. Félagslyndi þitt var mikið og gaman þótti þér að fá gesti sem og að vitja fólks og taldir það ekki eftir þér að þeysa hringveginn til að heimsækja vini og ættingja þína. Það sem einkenndi þig var góðmennska, ég minnist þess ekki að hafa heyrt þig baktala fólk eða neita fólki um vinargreiða. Mér dettur einna helst í hug að orðið ,,nei,, hafi ekki verið í þínum orðaforða.

Fyrstu sjö ár ævi minnar bjuggum við fjölskyldan í Ljósheimunum hjá þér. Þær endurminningar sem flæða um hugann eru t.d. hvað þér þótti gaman að fara í sund og tókst mig alltaf með frá eins árs aldri og varst búin að kenna mér að synda án flotkúta þriggja ára gamalli, þá þótti ég löggild til að ferðast með þér í lengri sundferðir alla leið út á Laugarvatn. Þar slöppuðum við af í hveragufunni og kældum okkur síðan í vatninu.  Það þótti okkur gaman að gera enda miklar vatnakonur og ég hef gætt þess elskuleg að halda uppi þeim áhuga ætíð síðan enda fátt meira heillandi en ferskt vatn og villiböð, ég held við séum einatt sammála um það mín kæra. Fyrir um 25 árum fór að bera á alzheimer sem hægt og rólega tók yfir og þeirri breytingu þótti mér erfitt að verða vitni að því þá gátum við ekki lengur átt gott spjall, farið í sund, tekið í spilastokk eða farið í leikhús saman. Spilamennskan var eitt af okkar uppáhalds áhugamálum og þú varst ákaflega þolinmóð við að kenna mér hin og þessi spil. Þegar við vorum tvær saman þótti okkur skemmtilegast að spila rommý og marías. Oft heimsóttum við líka Stein heitinn bróður þinn til að spila saman vist og manna. Einnig eru mér minnisstæðar allar spilastundirnar sem við áttum saman fyrir jólin, þá spiluðum við Elma, Agnes og Jökull við þig og héldum áfram þeim sið eftir að minni þitt var horfið til að taka þátt í leiknum með okkur.

Þú varst algjört náttúrubarn og elskaðir sólina og ef sást til sólar varstu fljót að skoppa út á svalir eða í sundlaugarnar og baða þig í geislum hennar. Það voru líka ófáar ferðirnar sem þú keyrðir með fjölskyldu, ættmenni og vini út fyrir borgarmörkin til að viðra þau í veðurblíðunni, ganga á fjöll, mála myndir og njóta þess að vera barn náttúrunnar. Það gleymist seint þegar þú varst að mála mynd úti á skeri, síðan fór að flæða að og þú varðst innlyksa um tíma með trönurnar og málningardótið alsæl yfir að tengjast náttúrunni  háflæðandi sjávarböndum.

Lífið var þér ekki alltaf auðvelt, þú misstir hann Hall afa árið 1959. Í kjölfarið fluttir þú með börnin til Reykjavíkur. Fáum árum síðar kynntist þú seinni manni þínum Garðari Jónssyni sem lést árið 1972. Eftir andlát hans fór heilsu þinni að hraka og þá dvaldir þú oft á spítala og stundum á heimili okkar og mamma taldi það ekki eftir sér að annast þig þegar þú þurftir á því að halda. Síðastliðin 15 ár dvaldir þú á Hjúkrunarheimilinu Eir og vil ég koma á framfæri innilegu þakklæti til starfsfólks 3. hæð suður á Eir fyrir einstaklega góða aðhlynningu og hlýtt viðmót.

Ég man líka þegar þú varst að vinna á Landsímanum enda var þitt ævistarf að vera símamær og þú sinntir því með miklum sóma. Þar kom klárlega í ljós hversu lífsglöð, félagslynd og vinamörg þú ávallt varst því langt eftir starfslok þín hjá símanum vitjuðu þín þér yngri samstarfskonur og heimsóttu þig í ljúft spjall um lífið og tilveruna. Mér finnst við hæfi að líkja talsímakonustarfi fortíðarinnar við glæsileika og prúðmennsku flugfreyja því þið símadömurnar  voruð allar alltaf svo fínar í tauinu og vel til hafðar. Það eru ófá skiptin sem ég man eftir þér heima við með rúllur í hárinu, lakka neglurnar og að gera þig fína áður en þú smelltir þér í nýtízkulega dragt eða pils og varst svo rokin af stað í vinnuna. Algjör pæja og þið allar.

Kvöldbænirnar sitja líka hlýlega í minningunni þar sem við lágum í hjónarúminu þínu hlið við hlið enda vildi ég helst sofa þétt upp við þig. Trúuð varstu gæska og þú baðst guð og englana um að blessa allt þitt fólk bæði lifandi og dána þú brýndir fyrir mér hversu mikilvægt er að heiðra formæður og forfeðra og alla þá sem farnir eru yfir móðuna miklu og að biðja um að þeir sem lifa á móður jörð farnist vel andlega og líkamlega og séu ávallt umluktir kærleika. Mikið sem mér þótti ljúft að hlusta á þig fara með bænirnar og vita máttu að ég bið líka fyrir þér á hverjum degi og bið góðan guð um að blessa þig elsku amma mín um ókomna tíð. Ég elska þig að eilífu.

Þín,

Halla ömmustelpa