Louise Michel Var franskur stjórnleysingi og send í útlegð til Nýju-Kaledóníu.
Louise Michel Var franskur stjórnleysingi og send í útlegð til Nýju-Kaledóníu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is KVIKMYNDALEIKSTJÓRINN Sólveig Anspach vinnur nú að framhaldi að gamanmyndinni Skrapp út sem var tekin upp hér á landi og frumsýnd í ágúst 2008.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

KVIKMYNDALEIKSTJÓRINN Sólveig Anspach vinnur nú að framhaldi að gamanmyndinni Skrapp út sem var tekin upp hér á landi og frumsýnd í ágúst 2008. Skáldkonan Didda Jónsdóttir lék þar aðalhlutverkið, konuna Önnu, og kemur hún einnig við sögu í framhaldinu sem hefur hlotið nafnið Queen of Montreuil „Ásamt handritshöfundinum mínum, Jean-Luc Gaget, hef ég nú skrifað nokkurskonar framhald af Skrapp út . Myndin mun eiga sér stað í Montreuil, þar sem ég bý í úthverfi Parísar, og er saga Agathe, konu sem er nýbúin að missa eiginmann sinn. Vegna efnahagskreppunnar á Íslandi verða Anna, leikin af Diddu, og Úlfur, sonur hennar, föst í París á heimleið frá Jamaíka þar sem þau skildu yngri bróðurinn, Krumma, eftir hjá fjölskyldu hans. Agathe býður þeim að gista hjá sér í Montreuil og hjálpar það henni á undarlegan hátt að komast hraðar yfir andlát eiginmannsins. Þetta er „feel-good“-mynd eins og Skrapp út .

Ég er einnig að vinna að kvikmyndaaðlögun á bók sem heitir La Fugue ,“ segir Sólveig.

Las allt um Louise Michel

Nýjasta mynd Sólveigar, Louise Michel , verður sýnd á Franskri kvikmyndahátíð sem hófst í Háskólabíói í gær og stendur til 28. janúar.

Í henni segir frá Louise Michel sem var franskur stjórnleysingi, femínisti, kennari og hjúkrunarkona. Hún var send í útlegð til Nýju-Kaledóníu þar sem hún eyddi átta árum og barðist með frumbyggjum fyrir aukinni sjálfstjórn þeim til handa. Myndin fjallar um ofbeldi og yfirgang valdsins gegn sínum eigin þegnum, blindu nýlendustefnunnar og sambúð hinna undirokuðu.

Spurð hvernig þetta verkefni kom upp í hendurnar á henni segir Sólveig að hún hafi verið beðin um að leikstýra myndinni af franska sjónvarpinu. „Framleiðandi sem hafði séð myndirnar mínar kom að máli við mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að gera mynd um Louise Michel. Hann hafði gengið með þetta verkefni í átta ár.“

Hafði líf Michel áhrif á þig?

„Auðvitað, ég las allt sem hún skrifaði og öll hennar bréfaskipti. Ég fór líka ásamt handritshöfundunum til Nýju-Kaledóníu og las þar allt sem við fundum um tímann sem hún dvaldi þar, og þar höfðum við aðgang að miklu af skjölum, eins og dagbókum þar sem var skrifað um hana af öðrum í útlegð,“ segir Sólveig.

Franska leikkonan Sylvie Testud fer með hlutverk Michel en hún er meðal fremstu leikkvenna Frakka í dag, fór m.a með hlutverk bestu vinkonu Edith Piaf í La Vie en Rose og lék skáldkonuna Francoise Sagan í nýrri mynd. Sólveig segist alltaf hafa verið með hana í huga í hlutverkið.

Þarf að finna góða sögu

Myndin verður sýnd tvisvar á franskri kvikmyndahátíð, dagana 22. og 23. janúar, en hún var einnig sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík í haust. Þó að Íslendingar hafi fengið tækifæri til að sjá myndina á tveimur hátíðum hefur franskur almenningur ekki enn fengið að sjá hana. „Hún verður sýnd í Frakklandi í mars. En ég fór til Nýju-Kaledóníu, þar sem ég tók myndina upp, til að sýna hana. Það hafa nánast engar kvikmyndir verið teknar upp þar og kanakanir, frumbyggjarnir, höfðu aldrei verið í aðalhlutverki áður í mynd,“ segir Sólveig.

Myndin hefur farið á margar kvikmyndahátíðir og segist Sólveig hafa fengið mjög góð viðbrögð við henni, að fólk hvarvetna hafi mikinn áhuga á sögu Louise Michel. „Hún var alvörunútímakona, femínisti og anarkisti og þegar kanakar gerðu uppreisn gegn nýlenduherrunum var hún ein af fáum til að standa með þeim.“

Stefnir þú að því að gera aðra mynd á Íslandi bráðlega?

„Það myndi ég gjarnan vilja. Ég naut þess að taka upp Skrapp út á Íslandi, fólkið sem ég vann með var frábært. Ég þarf bara að finna góða sögu, sögu sem mun tala til mín,“ segir Sólveig að lokum.