Klara Kristinsdóttir fæddist í Reykjavík 21. október 1922. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli á laugardaginn var, 2. Janúar s.l. Foreldrar hennar voru hjónin Kristinn Sófus Pálmason ölgerðarmaður frá Sæbóli á Ingjaldssandi og Einbjörg Einarsdóttir húsfreyja og kennari frá Hítardalsvöllum á Mýrum. Klara var elst sjö alsystkina, en eldri hálfsystir hennar samfeðra er Dóra, sem lifir systur sína. Yngri voru sex bræður: Jón og Pálmi eru báðir látnir, en eftir lifa þeir Einar, Kristján, Kristinn og Sigurður. Hugur Klöru hneigðist snemma til hjúkrunarnáms, og því lauk hún frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1946. Klara starfaði við hjúkrun á Landspítalunum fyrstu árin eftir að námi lauk. Hún festi ráð sitt á lýðveldisdaginn, hinn 17. júní árið 1949, er hún gekk að eiga Kjartan Ólafsson frá Krosshóli í Skíðadal. Foreldrar hans voru hjónin Kristjana Jónsdóttir og Ólafur Sigurðsson, er síðast bjuggu að Syðraholti í Svarfaðardal. Kjartan var þá við nám í læknisfræði við Háskóla Íslands, er hann lauk árið 1952, og 5 árum síðar lauk hann einnig námi í tannlækningum. Þau fluttust það ár, 1957, austur á Seyðisfjörð, þar sem Kjartan tók til starfa sem tannlæknir, en varð síðar einnig héraðslæknir þar í bæ. Börn Klöru og Kjartans eru þrjú: Elstur er Þorsteinn Svörfuður búsettur á Álftanesi, kona hans er Hafdís Guðmundsdóttir og eiga þau fjögur börn og jafnmörg barnabörn. Í miðið er Ólafur Kristinn, hann á heima á Seyðisfirði, er kvæntur Ólöfu Huldu Sveinsdóttur og eiga þau eina fósturdóttur, tvö börn og tvö barnabörn. Yngst er Þórunn Sólveig búsett á Akranesi, gift Friðrik Alfreðssyni. Börn þeirra eru þrjú og barnabörn tvö. Klara Kristinsdóttir var jarðsett í kyrrþey þann 8 janúar 2010, frá Fríkirkjunni í Reykjavík að eigin ósk.

Hinsta kveðja til móður minnar.

Hljóð sit ég með hönd undir kinn

hélaður framundan vegurinn,

blómin stirðnuð og stráin,

sumarsins fuglar farnir á braut

fljúga til annarra móðurskaut,

og mamma mín er dáin.

Þú elskaðir lífið og lærdóminn,

þig langaði að skilja tilganginn

með tilveru ljóssins og lífsins.

Veist hefur þér nú víðsýnið best

og vængirnir sem þú þráðir mest

þér fannst hér of þröngt til flugsins.


Þú starfaðir jafnan með umhyggju og ást,

elju og þreki er sjaldan brást,

þér nýttist jafnvel nóttin.

Þú vannst fyrir besta vininn þinn,

þú vinnur nú með honum í annað sinn

með efldan og yngdan þróttinn.

Af alhug færum þér ástarþökk,

á auða sætið þitt horfum klökk.

Heilsaðu föður og frændum.

Að sjá þig aftur í annað sinn

enn að komast í faðminn þinn,

við eigum eftir í vændum.

(G. Björnsson.)

Þorsteinn Kjartansson

Það er ýmislegt sem kemur upp í huga minn þegar ég hugsa um ömmu mína, bestu vinkonu og nöfnu. Fyrstu minningar mínar með henni eru þegar ég var í pössun hjá henni á Holtsgötunni. Hún vílaði ekki fyrir sér að gera ballettæfingar með mér og sat jafnvel á gólfinu og teygði sig og beygði ef ég bað hana um það. Einnig er mér minnisstæðir allir búðaleikirnir sem við fórum í. Heilt herbergi var tekið undir verslun og þar kenndi ýmissa grasa. Hún var svo sniðug að safna öllum krukkum, döllum og ýmsu öðru í búðina. Ekki vantaði peningana í peningakassann, hún safnaði smámynt sem hún átti og það var geymt í búðarkassanum. Búðin stóð alltaf óhreyfð þar til ég kom næst í heimsókn. Hún gat verið marga klukkutíma í búðinni hjá mér og verslað aftur og aftur. Ég skil ekki í dag hvernig hún nennti þessu en aldrei kvartaði hún og það var alltaf jafn sjálfsagt að fara í búðarleik.

Ekki er hægt að tala um hana ömmu mína án þess að minnast á pönnukökurnar, skonsurnar, hjónabandssæluna, beiska brjóstsykurinn og karríbollurnar. Eitt er víst að enginn gerir eins góðar pönnukökur og amma gerði, sama hvað fólk reynir.

Amma kenndi mér margt t.d. kenndi hún mér að prjóna, hún kenndi mér faðirvorið og Vertu Guð faðir, faðir minn og marga góða siði. Amma Klara var með dulda fatadellu, hún vildi ekki meina það sjálf en hafði voða gaman af því að fá ný föt. Hún átti morgunkjóla, dagkjóla og sparikjóla.  Ömmu fannst alltaf jafn skrítið að sjá stelpur í buxum.

Dagarnir hjá ömmu voru vel skipulagðir hún vaknaði snemma og var algjör fréttafíkill. Amma sofnaði líka snemma og þegar hún lagðist á koddann og  lokaði augunum var hún sofnuð með það sama.

Ég hef gert ýmislegt með ömmu í gegnum árin t.d. mætt á Vesturgötuna og fengið mér kaffibrauð með gamla fólkinu. Við höfum farið saman á handverkssýningar hjá gamla fólkinu og horft á þau dansa. Að ógleymdum öllum ferðunum í Kolaportið og ísnum á Lækjartorgi en amma fékk sér alltaf hvítan barnaís í brauðformi.

Eftir að ég fékk bílpróf fórum við amma oft saman í bíltúr. Við fórum alltaf Laugarveginn að minnsta kosti einu sinni. Laugarvegurinn var uppáhaldsgatan hennar ömmu.  Amma hafði mikið gaman af söng og dansi. Við mættum á sýningar hjá hvor annarri hún sýndi steppdans og ég ballett. Við amma áttum margt sameiginlegt og vorum miklar vinkonur. Þegar ég hugsa til baka fann ég aldrei að það væri svona mikill aldursmunur á okkur. Við greiddum hvor annarri, mátuðum föt saman, „slúðruðum" og borðuðum nammi.  Ég og amma vorum bestu vinkonur.

Ég gæti endalaust talið upp skemmtilegar minningar varðandi ömmu mína en eitt er víst að hún var ekki nútíma amma heldur amma af gamla skólanum sem elskaði að gefa barnabörnunum gjafir og gott að borða. Þetta er aðeins brot af þeim ótal minningum sem ég á um þig elsku amma. Nú er komið að kveðjustund ég veit þú tekur vel á móti mér þegar við hittumst á ný. Minningarnar um þig mun ég geyma í hjarta mínu um ókomna tíð.

Þín nafna,

Klara Lind Þorsteinsdóttir.