Guðbjarni Jóhannsson fæddist í Djúpuvík á Ströndum 1. desember 1942. Hann lést á Landspítalanum 11. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðrún Guðbjarnadóttir frá Jafnaskarði í Borgarfirði, f. 1911, d. 2000, og Jóhann Ingibjartur Guðbjartsson frá Flateyri, f. 1907, d. 1998. Guðbjarni bjó fyrstu æviárin í Djúpuvík og fluttist með foreldrum sínum og systkinum til Flateyrar 1949. Systkini Guðbjarna eru Svanur, f. 1935, Anna, f. 1937, Guðbjartur, f. 1946, d. 1949, og Þorsteinn, f. 1952. Eiginkona Guðbjarna er Bára Guðjónsdóttir, f. 23.2. 1943. Þau giftust 13. nóvember 1971. Börn þeirra eru: 1) Jóhann Rúnar, f. 15.12. 1965, í sambúð með Margréti Björgu Marteinsdóttur, f. 17.2. 1966. Þau eiga eina dóttur, Báru Katrínu, f. 15.6. 2005. Fyrir átti Margrét Guðfinnu Betty, f. 5.3. 1988, og Guðmund Árna, f. 29.1. 1993, Hilmarsbörn. 2) Guðrún, f. 27.7. 1971. Hún á þrjú börn, Sólrúnu, f. 27.4. 1997, Eyrúnu, f. 30.4. 2001, og Guðbjarna, f. 20.9. 2006, Sigþórsbörn. Guðbjarni lauk barnaskóla á Flateyri og fór þaðan til náms í Reykjanes við Ísafjarðardjúp og að Reykjum í Hrútafirði. Hann hóf nám í trésmíði 16 ára gamall hjá föðurbróður sínum Jóni Guðbjartssyni á trésmíðaverkstæðinu Hefli á Flateyri. Að loknu sveinsprófi vann hann við iðn sína og fór í Meistaraskólann í Reykjavík 1964. Í höfuðborginni kynntist hann Báru og byrjuðu þau að búa þar en fluttust vestur til Flateyrar vorið 1966 og hélt hann áfram að starfa hjá Hefli. Þar var hann virkur í félagsmálum, var t.d. einn af stofnendum Lions-klúbbsins ásamt því að taka að sér starf sveitarstjóra í eitt ár 1973-1974. Árið 1974 fluttist Guðbjarni ásamt fjölskyldu sinni til Akraness og fyrsta starf hans þar var að stýra byggingu Akraborgarbryggjunnar á vegum Akraneskaupstaðar en síðar var hann sjálfstætt starfandi. Um 1980 reisti hann, ásamt félögum sínum Dóra og Nanna, dælustöðvar fyrir Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Árið 1982 fór Guðbjarni til sjós, fyrst á Heimaey VE og síðar á Víking AK. Á milli vertíða starfaði hann við trésmíðar allt til ársins 2001 er hann sneri sér alfarið að iðn sinni á ný. Haustið 2007 hóf hann störf sem kennari við tréiðnaðardeild Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og kenndi þar til veikindi hans gerðu honum það ekki lengur kleift í október 2009. Útför Guðbjarna fer fram frá Akraneskirkju í dag, þriðjudaginn 19. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Á unglingsárunum fórum við vinkonur Gurrýjar að venja komur okkar á Vesturgötuna og má segja að það hafi orðið fastur punktur í lífi okkar þá. Báru og Bjarna þótti ekkert verra þó að unglingarnir kæmu saman hjá þeim og höfðu bara gaman af. Oftar en ekki var þá endað með því að gista, og þó svo að gistinóttunum hafi smám saman fækkað eftir því sem árin liðu er alltaf jafn gott að koma þangað. Guðbjarni var hagleiksmaður og mikill fagmaður í sinni grein. Hann var hæglátur að eðlisfari en þó var alltaf stutt í glensið. Hann var einstaklega traustur og hjálpsamur og við minnumst hans með þökk og hlýju. Við biðjum góðan Guð að styrkja Báru, Gurrý, Jóhann og fjölskyldur þeirra á þessum erfiðu tímum. Adda og Marta

Marta Dögg Pálmadóttir/ Arndís Lilja Guðmundsdóttir

Í dag er við kveðjum Bjarna vin okkar, koma upp í huga okkar svo ótal margar minningar. Allt frá því við kynntumst fyrir 32 árum er við fluttum á Sóleyjargötuna. Allar eru minningarnar ljúfar og góðar enda Bjarni með ljúfari mönnum sem við höfum kynnst. Bjarni var ekki bara vinur, heldur eins og einn af fjölskyldu okkar.

Við og fjölskylda okkar kveðjum góðan vin með söknuði og vottum Báru okkar, Jóhanni, Gurrý og fjölskyldum þeirra samúð okkar.

Katrín, Guðmundur og fjölskylda.

Þegar ég hugsa um Bjarna, þá kemur upp í huga mér " Afi ". Bjarni var ekkert skyldur mér en síðan ég man eftir mér hefur hann verið ómissandi partur af fjölskyldu minni líkt og Húkkulaði amma, Jóhann og Gurrý. Í seinni tíð urðum við félagar. Við gátum setið saman og spjallað um lífið og tilveruna en þó sérstaklega um tónlist. Ég leit upp til Bjarna og fanst hann vera mjög klókur og vitur. Hann sagði ekkert að óhugsuðu máli enda hugsaði hann gaumgæfilega og ritskoðaði allt vandlega í huga sér áður en hann sagði nokkurn hlut.

Elsku Bjarni, þú tekur frá sæti fyrir mig þar sem þú ert nú. Og þó eihver tími líði á milli, þá hittumst við á ný og tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Þinn vinur.

Jakob Guðmundsson.

Jakob Guðmundsson.