Guðfinnur Kristinn Jónsson fæddist á Melum, Kjalarneshreppi, Kjós. 24. desember 1926. Hann lést hinn 10.1. sl. á Landspítalanum við Hringbraut. Foreldrar hans voru Jón Þórir Jónsson, f. 5. nóvember 1910, d. 19. mars 1970, og Margrét Einarsdóttir, f. 24. nóvember 1899, d. 9. maí 1985. Guðfinnur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur, hinn 27. febrúar 1954. Börn þeirra eru 1) Magnús, f. 27.10. 1959, maki Inga Dóra Halldórsdóttir. Börn þeirra eru Þorsteinn, f. 5.12. 1983, Rakel, f. 4.11. 1987, og Guðfinnur, f. 25.6. 1992. 2) Sigurður Jón, maki Halla Elísabet Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru Bettý Snæfeld, f. 12.8. 1983, maki Stefán Róbert Steed, barn þeirra er Emilía Dögg Stefánsdóttir Steed, Elvar f. 21.11. 1988, Andrea f. 23.3. 1990. 3) Guðni, f. 20.11. 1963, maki Sondy Haldursdóttir Johansen, dætur þeirra eru Karen, f. 21.7. 1992, og Guðrún, f. 22.3. 1996. 4) Jens, maki Erla Rúna Guðmundsdóttir, börn þeirra eru Birgir, f. 19.1. 1987, Ingvar, f. 26.1. 1999, og Silja f. 11.6. 2007. Guðfinnur flutti ásamt móður sinni fimm ára gamall til Vestmannaeyja þar sem hann ólst upp í Norðurgarði. Í Vestmannaeyjum starfaði hann við alls kyns störf tengd fiskvinnslu og verslun. Árið 1950 útskrifaðist Guðfinnur frá Bændaskólanum á Hvanneyri sem búfræðingur. Eftir útskrift starfaði hann við bústörf á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Þar kynnist hann konu sinni Guðrúnu. Þau fluttu svo saman til Reykjavíkur og bjuggu lengst af í Unufelli en fyrir þann tíma bjuggu þau í Hæðargarði þar sem allir drengirnir slitu barnsskónum. Guðfinnur hóf störf hjá Eimskipafélagi Íslands 1954 við ýmis störf en lengst af sem bílstjóri og starfaði þar til ársins 1996 er hann hætti sökum aldurs. Útför Guðfinns fer fram í Bústaðakirkju í dag, 19. janúar, klukkan 13.

Okkur bræðurna langaði að skrifa nokkur orð til minningar um föður okkar og um leið þakka honum fyrir allar þær frábæru stundir sem við áttum saman.

Við vorum mjög lánssamir að eignast þig sem föður, því annað eins ljúfmenni var erfitt að finna, það virtist engu skipta hvað við gerðum. Hvort heldur sem við brutum rúður í fótbolta, földum vinnuskóna til að tryggja  það að þú þyrftir að vekja okkur um nóttina þegar þú færir í spennandi ferð, eða þegar fjölskyldubíllin var sendur í viðgerð eftir meðferð okkar á honum, þá gerðir þú alltaf gott úr því.

Þú vannst alltaf mjög mikið og því eru okkar fyrstu minningar af þér flestar frá ferðum okkar með þér í vinnunni. Þú lagðir alltaf mikið upp úr því við okkur bræðurna mikilvægi þess að standa sig í hverri þeirri vinnu sem við myndum taka að okkur, og þegar við fórum að vinna sjálfir fljótlega eftir fermingu hjá Eimskipafélaginu, þar sem þú vannst, þá var það okkur mikið kappsmál að standa okkur til að gera þig stoltan af okkur.

Á unglingsárum okkar byggðum við saman einbýlishús með þér í þínum frístundum og það var þá sem að við fórum að kynnast þér á nýjan hátt, sérstaklega þínum frábæra húmor sem gerði þessar stundir ógleymanlegar.

Seinna meir þegar við sjálfir fórum að eignast börn reyndist þú ómetanlegur, ávallt tilbúinn að vera með barnabörnin og tala þau enn í dag um ógleymanleg ferðalög með þér í bílnum.

Það er kannski lýsandi fyrir dugnað þinn að á áttræðisaldri vorum við feðgarnir ásamt barnabarni þínu að reisa hús í Grafarvogi og gafst þú hinum ekkert eftir.

Með söknuði kveðjum við góðan og traustan föður

Magnús og Guðni

Elsku afi

Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum. Ég mun sakna þín.

Afi

Hver dagur á sitt ljós

sem sýnir allt það bjarta.

Minning þín lýsir veginn minn

Hvern einasta dag, þú ert í mínu hjarta.

Rakel Magnúsdóttir