Sigurður Guðmundsson fæddist á Naustum við Akureyri 16. apríl 1920. Hann andaðist 9. janúar 2010. Foreldrar hans voru Steinunn Sigríður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1883, d. 1924, og Guðmundur Guðmundsson, bóndi á Naustum og síðar verkamaður á Akureyri, f. 1888, d. 1975. Stjúpmóðir hans var Herdís Samúelína Finnbogadóttir, f. 1901, d. 1944, húsfreyja á Akureyri. Systkini Sigurðar voru sex. Albróðir hans var Ólafur, f. 1918, d. 2005, kvæntur Sveinbjörgu Baldvinsdóttur, f. 1916. Hálfsystkini samfeðra eru: Steinunn, f. 1928, d. 1967, ógift; Víglundur, f. 1930, d. 1984, ókvæntur; Magnús, f. 1933, var kvæntur Iðunni Ágústsdóttur, f. 1939, sambýliskona hans er Siggerður Tryggvadóttir, f. 1932; Sigríður, f. 1937, átti Gunnar B. Loftsson, f. 1924, d. 1998; Ríkey, f. 1941, gift Brynjari Elíasi Eyjólfssyni, f. 1938. Sigurður kvæntist 12. febrúar 1944 Aðalbjörgu Halldórsdóttur frá Öngulsstöðum í Eyjafirði, f. 21. maí 1918, d. 27. september 2005. Þau áttu saman góð sextíu ár og eignuðust fimm börn: 1) Steinunn Sigríður, f. 1944, læknafulltrúi á Akureyri, gift Ingólfi Steinari Ingólfssyni, f. 1944, rafvélavirkjameistara. Börn þeirra eru: a) Sigurður, f. 1966, kvæntur Ólöfu Björku Bragadóttur, f. 1964, þau eiga Steinar Braga og Sölva Snæ; b) Benedikt, f. 1968, í sambúð með Hugrúnu Ragnheiði Hólmgeirsdóttur, f. 1970, þau eiga Ragnheiði Maríu. Áður átti Hugrún Álfrúnu með Pálma Erlendssyni; c) Rut, f. 1976, hún á Ingólf með Hreggviði Ársælssyni. 2) Þorgerður, f. 1945, d. 2003, myndlistarmaður og kennari í Reykjavík. Hún átti séra Gylfa Jónsson, f. 1945, þau skildu. Barn þeirra er Jón Gunnar Gylfason, f. 1973. Sambýlismaður Þorgerðar var Ólafur Hermann Torfason, f. 1947, rithöfundur. 3) Halldór, f. 1947, skólastjóri í Þorlákshöfn, kvæntur Ester Hjartardóttur, f. 1952, grunnskólakennara. Barn þeirra er Aðalbjörg, f. 1988. Halldór átti áður Ástu Finnbogadóttur, f. 1948, innanhússarkitekt. Synir þeirra eru: a) Haraldur, f. 1968, í sambúð með Helenu Halldórsdóttur, f. 1977, þau eiga Hektor Hermann og Hildi Heru. Haraldur átti áður Áslaugu Rannveigu Stefánsdóttur, f. 1968, og með henni Halldór Stefán, Höddu Margréti og Hörpu Elínu; b) Davíð, f. 1972, kvæntur Elsu Gunnarsdóttur, f. 1975, þau eiga Gunnar Stefán, sem er látinn, Fannar Harald og Stefaníu Ástu. 4) Guðmundur, f. 1949, ráðunautur Vesturlandsskóga á Hvanneyri, kvæntur Sigrúnu Kristjánsdóttur, f. 1955, starfsmanni Andakílsskóla. Börn þeirra eru: a) Ástríður, f. 1976, gift Birni Hauki Einarssyni, f. 1973, þau eiga Brynjar, Birgittu og Ástrúnu; b) Sigurður, f. 1979, í sambúð með Aldísi Örnu Tryggvadóttur, f. 1981, þau eiga Erni Daða; c) Kristján, f. 1987; d) Davíð, f. 1994. 5) Ragnheiður, f. 1954, bókasafnsfræðingur og yfirbókavörður Menntaskólans á Akureyri, gift Braga Guðmundssyni, f. 1955, prófessor við Háskólann á Akureyri. Börn þeirra eru: a) Aðalbjörg, f. 1982, í sambúð með Valgarði Reynissyni, f. 1983; b) Guðmundur, f. 1994. Sigurður varð stúdent frá MA 1940, guðfræðingur frá HÍ 1944 og stundaði framhaldsnám í þeirri grein í Kaupmannahöfn og Uppsölum 1946-1947. Hann var sóknarprestur á Grenjaðarstað í Aðaldal 1944-1986 og á Hólum í Hjaltadal 1986-1991. Hann var prófastur Suður-Þingeyinga 1957-1958 og 1962-1986, þar af í sameinuðu Þingeyjarprófastsdæmi frá 1971. Sigurður var vígslubiskup í Hólabiskupsdæmi 1981-1991, flutti í Hóla 1986 og var fyrstur biskupa til að sitja staðinn síðan 1798. Hann var settur vígslubiskup á Hólum í nokkra mánuði 1999 og enn allt árið 2002. Sigurður gegndi embætti biskups Íslands í forföllum 1987-1988, vígði meðal annars þrettán presta. Sumarið 1993 var hann settur vígslubiskup í Skálholti og sat þannig öll biskupsembætti íslensku þjóðkirkjunnar á löngum ferli sínum. Sigurður rak bú á Grenjaðarstað 1944-1986 og unglingaskóla á sama stað flest árin 1944-1969. Hann var skólastjóri Héraðsskólans á Laugum í Reykjadal 1962-1963 og stundakennari við þann skóla, Húsmæðraskólann á Laugum og barnaskóla í Aðaldal lengi, og bókavörður við Bókasafn Aðaldæla 1978-1986. Þá var Sigurður aðalhvatamaður að stofnun Sumarbúða ÆSK við Vestmannsvatn og formaður stjórnar þeirra frá upphafi. Sigurður var ættfróður og ákaflega félagslyndur maður sem meðal annars naut sín í fjölþættu kórstarfi og innan Frímúrarareglunnar. Bókasöfnun var honum mikið áhugamál og ljóðasafn þeirra hjóna er eitt hið mesta sem um getur í einkaeigu hér á landi. Það var gefið Bókasafni MA árið 1996 og er varðveitt í sérstakri vinnustofu, Ljóðhúsi MA. Að lokinni þjónustu á Hólum árið 1991 flutti Sigurður ásamt eiginkonu sinni til Akureyrar og átti þar heima síðan. Frá hausti 2008 bjó hann á Dvalarheimilinu Hlíð og naut þar góðs atlætis í hvívetna. Útför Sigurðar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, mánudaginn 18. janúar, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Langafa okkar verður sárt saknað.  Hann var merkilegt mikilmenni og dásamleg manneskja. Allar góðu stundirnar heima hjá þeim Aðalbjörgu langömmu eiga stóran stað í hjörtum okkar beggja.  Þegar við þáðum kaffi og vínarbrauð og langafi tók upp kúluspilið fræga sem við lékum okkur með tímunum saman á meðan langamma kenndi okkur að hekla. Langafi okkar vissi alltaf hvað við bræður vorum að brasa þrátt fyrir að við hittumst ekki nógu oft. Þegar við heimsóttum hann síðast spurði hann okkur hvernig gengi í skólanum og sýndi mikinn áhuga á því sem við vorum að gera. Langafi skírði okkur báða og fermdi okkur báða, hann fór sér ferð til Frakklands til þess að skíra þann yngri okkar og sér ferð til Egilsstaða til þess að ferma þann eldri. Við þökkum langafa fyrir góðmennskuna og hlýjuna sem við vonumst innilega til að læra eitthvað af.

Steinar Bragi og Sölvi Snær Sigurðarsynir.