Í dag verður Elva Björg Egilsdóttir lögð til hinstu hvíldar. Hún fæddist í Luxembourg 30. nóvember 2007 og lést þar í landi 9. janúar 2010. Foreldrar hennar eru Vala Björg Arnardóttir f. 17. nóvember 1967 og Egill Reynisson f. 14. júlí 1967, systkini hennar eru Daníel Örn f. 25. september 1993 og Edda Kristín f. 29. október 1997. Foreldrar Völu eru Edda Kristín f. 1942 og Örn Jóhannsson f. 1941. Systkini Völu eru 1) Jóhann Örn f. 1965, maki Bryndís Kristjánsdóttir f. 1966 og eiga þau tvö börn 2) Ingi Sölvi f. 1978, maki Guðný Benediktsdóttir f. 1975 og eiga þau einn son. Foreldrar Egils eru Kristín Hermannsdóttir f. 1940 og Reynir Eiríksson f. 1935. Systkini Egils eru 1) Vilborg f. 1961, maki Gísli Harðarson f. 1959 d. 2005 og eiga þau 3 börn, 2) Eiríkur f. 1963, maki Kristín Geirmundsdóttir f. 1965 og eiga þau 2 börn, 3) Hermann f. 1965, maki Matthildur Kristjánsdóttir f. 1969 og eiga þau 3 börn, 4) Reynir Ingi Reynisson f. 1970. Útförin fer fram frá Kópavogskirkju 18. janúar og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku engillinn okkar, við söknum þín svo mikið hér í Wincheringen. Hann Ari vinur þinn sagði „en hún er bara barn og hún er svooo sæt“, og það er svo rétt hjá honum.

En þrátt fyrir þinn stutta tíma hér með okkur, hefur þú getað kennt okkur meira en nokkur bók eða skóli getur gert.  Þú hefur sýnt okkur hvað það er sem skiptir máli í lífinu og við erum þér eilíft þakklát fyrir það. Vonandi getum við miðlað strákunum okkar það sem þú bentir okkur á.
Við skulum passa upp á það að vinirnir þínir, Ari og Björn Hinrik, munu aldrei gleyma þér og þú getur komið svífandi inn til okkar með þitt ómótstæðilega bros hvenær sem þig langar til að leika.
Elsku Vala, Egill, Daníel Örn og Edda Kristín, ykkar samheldni mun veita ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.
Við vottum ykkur og öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð.



Ólöf Dís, Birgi, Ari, og Björn Hinrik.