Halldór Bjarnason fæddist á Akureyri 27. október 1959. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 9. janúar 2010. Foreldrar hans voru Magnea Katrín Bjarnadóttir, f. 5. október 1929, d. 31. mars 2007, og Bjarni Benediktsson, f. 13. ágúst 1901, d. 18. apríl 1985. Halldór fór mánaðagamall í fóstur til móðursystur sinnar, Hildar Aðalheiðar Bjarnadóttur, f. 30. apríl 1922, og manns hennar, Brynjólfs Sigmundssonar, f. 11.3. 1902, d. 11.3. 1984. Hann ólst upp hjá þeim, og bjó í Hvammsgerði í Vopnafirði til 10 ára aldurs og svo í Reykjavík. Systkini Halldórs eru: 1) Benedikt Bjarnason, f. 1957. Kona hans er Hjördís Sigurðardóttir. Börn með Mekkínu Kjartansdóttur: Snorri (látinn), Bjarni og Kjartan. 2) Guðrún Stefanía Bjarnadóttir, f. 1958. Fóstursystur Halldórs eru: 1) Kristín Brynjólfsdóttir, f. 1942. Maður hennar er Arthúr Pétursson. Börn þeirra: Ásdís, Svanur, Brynhildur og Margrét. 2) Guðrún Brynjólfsdóttir, f. 1948. Maður hennar er Andrés Magnússon. Dætur þeirra: Hildur Brynja og Linda Mjöll. Eiginkona Halldórs er Elín Hannesdóttir tónlistarkennari. Þau giftust 17. júní 1989. Elín er fædd 16. apríl 1962, dóttir hjónanna Kristjönu Pálsdóttur, f. 8. maí 1934, og Hannesar Flosasonar, f. 12. mars 1931. Halldór og Elín eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Hildur, f. 13. apríl 1989, 2) Hannes, f. 3. janúar 1992, 3) Bjarni, f. 26. október 1994, og 4) Kristjana, f. 19. september 1999. Halldór varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1981, lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1987 og cand.mag.-prófi í sömu grein árið 1994. Hann lagði síðan stund á doktorsnám í Department of Economic and Social History við University of Glasgow og lauk doktorsprófi í hagsögu árið 2001. Halldór fékkst við sagnfræðirannsóknir frá árinu 1987. Hann var stundakennari í sagnfræði við Háskóla Íslands með hléum frá 1990 auk þess sem hann kenndi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla 2000-2001. Halldór tók við starfi sem aðjúnkt í sagnfræði við Háskóla Íslands 1. júlí 2007 og gegndi því starfi fram á þennan dag. Halldór verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Kveðja frá Félagi um átjándu aldar fræði.
Það var mikill fengur fyrir Félag um átjándu aldar fræði að Halldór Bjarnason var kjörinn í stjórn þess, einróma, á síðastliðnu ári.
Þekking hans á átjándu öldinni var mikil og víðtæk; hugmyndaflugið einstakt hvað áhugaverð efni málþinga varðaði og starfsgleði ekki síðri.
Hann var afar áhugasamur um framgang félagsins, vöxt þess og viðgang.
Ljúfmennska og þýtt viðmót einkenndi Halldór og var nærvera hans á fundum góð.
Að leiðarlokum kveðjum við Halldór Bjarnason með virðingu og þökkum honum farsæl störf.
Við vottum aðstandendum hans okkar dýpstu samúð.

Stjórn Félags um átjándu aldar fræði.