Grímur Bjarni Bjarnason fæddist í Ólafsfirði 13. apríl 1914. Hann lést á Hornbrekku, Ólafsfirði, hinn 23. desember 2009. Foreldrar hans voru Bjarni Helgason og Jakobína A. Ingimundardóttir. Grímur er næstelstur fjögurra systkina sem eru: Ingólfur f. 1912, d. 1974, Kristín Helga, f. 1919, d. 2001, Hrafnhildur Friðrika Steinunn, f. 1920, d. 1926. Grímur kvæntist 1937 Guðrúnu T. Sigurpálsdóttur, f. 1914, d. 1978. Foreldrar hennar voru: Sigurpáll Sigurðsson og Anna S. Árnadóttir. Börn Gríms og Guðrúnar eru: A) Hrafnhildur Jakobína, f. 1937, f. maki Þórir Guðlaugsson, f. 1930, d. 1979, börn þeirra: 1) Gunnar Bjarni, f. 1955, m. Helga Helgadóttir, f. 1954, og eiga þau þrjú börn, 2)Súsanna Valdís, f. 1957, sambýlism. Gunnar Sigurðsson, f. 1959, og eiga þau eitt barn, en fyrir átti Gunnar tvö börn, 3) Gísli Viðar, f. 1958, m. Guðný Viðarsdóttir, f. 1959, og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn, 4)Grímur, f. 1965, m. Anna Erlendsdóttir, f. 1967, og eiga þau tvö börn. Síðari maki Hilmar Jóhannesson, f. 1934, d. 2008, hann átti fyrir tvo syni; Jóhann, f. 1961, og Hauk, f. 1963. B) Grímur, f. 1940, maki Valgerður Ebenesersdóttir, f. 1940, börn þeirra: 1) Helga Jóna, f. 1960, m. Aðalsteinn Pálsson, f. 1958, og eiga þau þrjú börn, 2) Guðrún, f. 1965, m. Gunnar Jónasson, f. 1961, og eiga þau þrjú börn en fyrir átti Gunnar eitt barn, 3) Jóhann Ævar, f. 1978, í sambúð með Örnu Sævarsdóttur, f. 1986. C) Sigurpáll, f. 1945, m. Ingibjörg Geirmundsdóttir, f. 1944, börn þeirra: 1) Guðrún, f. 1966, m. Björn Baldursson, f. 1966, og eiga þau tvö börn, 2) Sigurgeir, f. 1975, m. Signý Sigurjónsdóttir, f. 1979, og eiga þau þrjú börn. D) Bjarni Kristinn, f. 1955, m. Brynja Eggertsdóttir, f. 1953, börn þeirra: 1) Grímur Bjarni, f. 1975, sambýlisk. Bryndís Kristjánsdóttir, f. 1974, og eiga þau þrjú börn, en fyrir átti Bryndís tvö börn, 2) Atli Freyr, f. 1986, 3) Vilhelm Már, f. 1987. E) Sigurður Egill, f. 1956, m. Katrín Bergmundsdóttir, f. 1959 börn þeirra: 1) Rannveig, f. 1980, og á hún eitt barn. 2) Egill Már, f. 1988. Grímur ólst upp hjá foreldrum sínum þar til faðir hans andaðist 1921, en þá fóru hann og Kristín systir hans í fóstur til Gríms Grímssonar skólastjóra og Kristínar Bjarnveigar Helgadóttur. Grímur byrjaði snemma að vinna til sjós, hann fór á mótoristanámskeið áður en hann varð tvítugur og var síðan vélstjóri á bátum frá Ólafsfirði. Árið 1940 varð hann vélstjóri hjá kaupfélaginu og síðar verkstjóri 1945. 1954 varð hann verkstjóri hjá Hraðfrystihúsi Ólafsfjarðar til ársins 1965 þegar hann gerðist póstafgreiðslumaður og síðar póstmeistari. Grímur gegndi víða trúnaðarstörfum, sat í bæjarstjórn eitt kjörtímabil og var kvikmyndasýningarmaður frá 1946 til 1991. Hann var gjaldkeri slysavarnardeildar karla í yfir 35 ár og var gerður að heiðursfélaga SVFÍ 1981. Rotarýfélagi frá 1959 og heiðursfélagi 1991 og að Paul Harris félagi 2009. Hann er fyrsti formaður Félags eldri borgara í Ólafsfirði. Hann bjó með Sigurbjörgu Siggeirsdóttur, f. 1918, frá 1992 til 2005, en þá veiktist hann og hefur síðan dvalið á Hornbrekku í Ólafsfirði. Útför Gríms fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, mánudaginn 4. janúar 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Þær voru ekki góðar fréttirnar sem ég fékk síðastliðinn Þorláksmessumorgunn. Afi minn á Ólafsfirði var dáinn. Hann hét Grímur Bjarni Bjarnason og var fæddur árið 1914. Nú á ég enga afa eða ömmur sem er skrýtin tilfinning. Einhverra hluta vegna hélt ég alltaf að afarnir mínir yrðu hundrað ára. Þeir komust nálægt því en ekki alveg. Uppáhaldsminning mín um hann afa minn á Ólafsfirði var þegar ég var einn hjá honum þegar ég var lítill og hann átti að fara að sýna í bíóinu í bænum. Hann var sýningastjóri og fór með mig inn í klefann þar sem sýningarvélarnar voru og skellti filmu í. Hann splæsti líka saman filmum og sýndi mér alla taktana. Það var magnað að sjá hvernig þetta fór allt fram. Þetta er örugglega allt stafrænt núna og bara spurning um að setja disk í tækið. En hann var ótrúlega snöggur að vinna og allt gekk rosalega smurt hjá honum. Svo sá ég myndina í gegnum lítinn gægjuglugga. Þetta var mynd með Bud Spencer og Terrence Hill sem voru í miklu uppáhaldi hjá mér á þessum tíma. Þegar myndin var farin í gang fór hann með mig niður og keypti kók og eitthvað nammi handa mér. Hann fann svo sæti handa mér í salnum og sagði mér svo að hann yrði að vera uppi að fylgjast með sýningarvélinni. Ég sat þarna í stutta stund þar til ég mannaði mig upp í að standa upp og fara upp til afa. Mér fannst miklu meira spennandi að sjá afa að störfum. Ég var alltaf mjög stoltur af afa og sérstaklega hvað hann var alltaf ofboðslega vel til hafður. Hann var vel klæddur, vel greiddur og kom vel fyrir. Ég vona að ég verði jafn lengi hress og hann var. Verst þykir mér að hann náði aldrei að sjá son minn sem er með brúnu augun frá honum og of sjaldan sá hann dætur mínar. Ég kíkti ekkert á hann síðasta sumar en hafði planað að kíkja á hann næsta sumar. Þetta kennir mér að fresta engu sem mér finnst skipta máli.
Hann er líklega hjá ömmu núna og þau kíkja niður til okkar og sjá hvað börnin dafna vel.
Hvíl í friði afi minn.
Þinn sonarsonur og fjölskylda,

Sigurgeir Sigurpálsson, Signý Björg Sigurjónsdóttir, Salný Kaja, Sólný Inga og Sigurpáll Valmar.