Forstjóri „Það er ánægjulegt að taka þátt í einhverju sem horfir til uppbyggingar. Ég held að margir vilji taka þátt í að byggja upp eftir þetta hrun,“ segir Elín, forstjóri Bankasýslu ríkisins.
Forstjóri „Það er ánægjulegt að taka þátt í einhverju sem horfir til uppbyggingar. Ég held að margir vilji taka þátt í að byggja upp eftir þetta hrun,“ segir Elín, forstjóri Bankasýslu ríkisins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Elín Jónsdóttir lögfræðingur varð forstjóri Bankasýslu ríkisins 1. janúar síðastliðinn. Bankasýslan fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Henni er m.a. ætlað að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu innlends fjármálamarkaðar.

Elín Jónsdóttir lögfræðingur varð forstjóri Bankasýslu ríkisins 1. janúar síðastliðinn. Bankasýslan fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Henni er m.a. ætlað að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu innlends fjármálamarkaðar.

Elín fæddist 13. ágúst 1966 í Sundsvall í Svíþjóð og er hún dóttir Jóns Hilmars Alfreðssonar kvensjúkdómalæknis og Hrafnhildar Bogadóttur bankastarfsmanns. „Ég átti heima í Svíþjóð þar til ég var sex ára. Ég hef haldið tengslum við Svíþjóð í gegnum föðursystur mína sem býr þar og hef ákveðnar taugar til Svíþjóðar,“ sagði Elín. Þegar hún lærði að tala þá var það blanda af sænsku og íslensku. „Þegar ég byrjaði í sex ára bekk hér heima þótti íslenskan mín eitthvað sænskuskotin. Ég er hrædd um að sænskan mín beri þess merki að ég lærði hana sem barn og hef ekki búið í Svíþjóð sem fullorðin.“

Tók strætó á hverjum morgni

Fjölskylda Elínar flutti frá Svíþjóð í Hvassaleitið í Reykjavík. Elín fór í Hvassaleitisskóla og var þar öll grunnskólaárin, þrátt fyrir að fjölskyldan flytti í Laugarásinn þegar hún var 12 ára. „Ég hélt áfram í Hvassaleitisskóla og tók strætó á hverjum morgni til að halda í vinina,“ sagði Elín. Þaðan lá leiðin í MR. Elín lauk stúdentsprófi 1986, hóf nám í lagadeild Háskóla Íslands 1988 og varð cand. juris 1993.

„Ég á góðan vinahóp úr lagadeildinni. Hann myndaðist upp úr fremur misheppnuðu skemmtiatriði á öðru ári í lagadeildinni og var kallaður „Konur gegn húmor“ eftir það. „Við erum tíu talsins, allar lögfræðingar og störfum við ýmislegt tengt lögfræðinni, þ.ám. lögmennsku og dómarastörf,“ sagði Elín. Eftir útskrift úr lagadeildinni flutti Elín til Durham í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum með manni sínum, Magnúsi Gottfreðssyni lækni. Hún var þá ófrísk að sínu fyrsta barni. Þau höfðu skoðað sex háskóla í Bandaríkjunum þar sem bæði væri góður læknaskóli og lagaskóli og lenti Duke efst á blaði. Magnús hóf þegar sérnám en Elín var heima með dótturina Ásdísi Nínu í tvö ár áður en hún hóf meistaranám í lögfræði. Hún lauk LL.M-prófi 1996 og vann að því loknu við háskólann. Sonurinn Alfreð Hrafn fæddist svo 1997.

Krefjandi verkefni

„Ég réð mig í vinnu hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, gagngert til að toga fjölskylduna heim,“ sagði Elín. Þau fluttu heim árið 1999 og segir Elín að það hafi verið svolítið átak, en allir ánægðir þegar heim var komið. Hún starfaði einnig hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Oz, lærði verðbréfaviðskipti, vann hjá Fjármálaeftirlitinu og var framkvæmdastjóri Arev-verðbréfafyrirtækisins. En hvernig leggst nýja starfið í hana?

„Það leggst vel í mig. Þetta er krefjandi verkefni og heilmikið ógert. Það er ánægjulegt að taka þátt í einhverju sem horfir til uppbyggingar. Ég held að margir vilji taka þátt í að byggja upp eftir þetta hrun,“ sagði Elín. Henni þykir ekki endilega slæmt að verkefnið skuli vera tímabundið, en stofnunin skal hafa lokið hlutverki sínu eftir fimm ár. Elín telur að það verði ánægjulegt að koma eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum í góðar hendur. En hefur hún tíma fyrir tómstundir?

„Mér þykir dýrmætast að verja tíma með fjölskyldunni. Við eigum hund sem þarf töluverða hreyfingu og dregur okkur út í göngutúra á kvöldin,“ sagði Elín. „Ég stunda líkamsrækt, útivist og fjallgöngur. Fjölskyldan hefur líka gaman af að fara á skíði, þótt ekki hafi viðrað til þess á þessum vetri.“

gudni@mbl.is