103 mörk Snorri Steinn rauf 100 marka múrinn gegn Rússum.
103 mörk Snorri Steinn rauf 100 marka múrinn gegn Rússum. — Morgunblaðið/Kristinn
FJÓRÐA mark Snorra Steins Guðjónssonar gegn Rússum á þriðjudaginn var hans 100. mark fyrir íslenska landsliðið í lokakeppni EM. Markið skoraði Snorri Steinn eftir 20,38 mínútna leik úr hraðaupphlaupi.

FJÓRÐA mark Snorra Steins Guðjónssonar gegn Rússum á þriðjudaginn var hans 100. mark fyrir íslenska landsliðið í lokakeppni EM. Markið skoraði Snorri Steinn eftir 20,38 mínútna leik úr hraðaupphlaupi. Hann fékk sendingu frá Alexander Petersson, sem hafði nokkrum andartökum áður stolið boltanum af Rússum sem voru að leggja af stað í sókn eftir að hafa fengið boltann að loknu skoti Alexanders í stöng rússneska marksins.

Snorri Steinn skoraði alls sjö mörk í leiknum og hefur þar með skorað 103 EM-mörk. Þetta var um leið 20. landsleikur Snorra Steins í lokakeppni EM en hann þreytti frumraun sína gegn Slóvenum í Celje í janúar 2004. Síðan hefur Snorri ekki misst úr leik og vantar aðeins tvo leiki upp á að jafna metin við Sigfús Sigurðsson sem er þriðji leikjahæsti leikmaður íslenska landsliðsins á EM með 22 leiki.

Aðeins Ólafur Stefánsson, 176 mörk, og Guðjón Valur Sigurðsson, 136 mörk, hafa skorað fleiri mörk fyrir íslenska landsliðið í lokakeppni EM. iben@mbl.is